Jólin nálgast og grýla er ekki dauð líkt og fimm ára sonur minn heldur staðfastlega fram í fyrirvaraleysi æsku sinnar. Við fullorðna fólkið höfum nefnilega mörg hver haldið henni á lífi með óþarfa frammistöðukvíða fyrir jólahaldinu. Þar er undirrituð alls engin undantekning enda gæti ég ekki fjallað um þetta án þess að koma við kaunin á sjálfri mér. Nú er enginn hörgull á góðum ráðum í pistlum og viðtölum fyrir jólin þar sem margir góðir vitringar hamra á mikilvægi þess að greina kjarnann frá hisminu og njóta aðventunnar í stað þess að hlaupa milli búða og lúta mammon með visakorti, yfirdrætti og víxli. Allt þetta tal um að einfalda líf sitt, forgangsraða og njóta líðandi stundar og jarí jarí dúlli dei. Ég hef flutt fjöldan allan af svona prédikunum en fer þó alltof sjaldan eftir þeim, af því að hvernig í ósköpunum á maður að geta einfaldað líf sem er svo flókið að næstum hver einasta manneskja þyrfti að vera í hugrænni atferlismeðferð til þess að höndla það svo vel ætti að vera, og ég er ekki að grínast.
Líf okkar er flókið, ekki síst líf ungra hjóna með börn, en það þýðir ekki að það sé ekki gott, það er bara flókið og við verðum að geta talað um það vegna þess að annars verða svo margir kvíðnir og fullir sektarkenndar yfir að geta ekki farið að ráðum vitringanna. Í fyrsta lagi held ég að við þurfum að fara varlega í að gefa út of einhliða ráð um hvernig megi höndla hamingjuna og alls ekki festast í klisjunum þó klisjur geti vissulega verið góðar. Ég held að við ættum frekar að styðja fólk í að gera það besta úr aðstæðum sínum, eins og María og Jósep forðum þegar þau eignuðust frumburðinn í fjárhúsi. Þá var ekki búið að gera neina jólahreingerningu, gafst einfaldlega ekki tími til þess, samt voru þetta mikilvægustu jólin, svona í stóra samhenginu.
Tíðarandinn er svo harður húsbóndi í þeirri prédikun að við séum ekki að standa okkur að sektarkennd er að verða einskonar alþjóðlegt tungumál nútímamannsins. Og það er vont, því sektarkennd er aldrei hægt að virkja til góðs, hún er bara grýlan sem stelur jólunum og gleðinni á hvaða árstíma sem er. Ég held að hluti af vandanum sé sá að hugmyndir okkar um hin góðu jól séu ekki alltaf í samræmi við þann raunveruleika sem við lifum. Ég sjálf er mjög gott dæmi um slíkt ósamræmi. Ég er alin upp í sveit af foreldrum sem fædd eru 1935 og 36. Á vissan hátt vantar eina kynslóð á milli mín og foreldra minna, þau gætu allt eins verið amma mín og afi enda var ég oft spurð að því þegar ég var barn, og þótti miður. En pabbi var s.s. prestur í sveit og mamma var alltaf heima, það voru engar tölvur og þar af leiðandi engir netmiðlar, enginn gemsi, ekkert sjónvarp á fimmtudögum, malarvegur í bæinn og pósturinn kom þrisvar í viku. Ég var orðin 11 ára þegar ég smakkaði fyrst cocoa puffs. Á aðventunni var tíminn nægur, mamma bakaði sirka 10 sortir af smákökum, randalín í öllum regnbogans litum og enska jólaköku með sérrýlegnum rúsínum sem hefði hæglega verið hægt að brúka á fyrsta fylleríinu í félagsheimilinu Miðgarði. Pabbi föndraði með okkur krökkunum, bjó til jólasveina sem voru hrein listaverk og svo skrifaði hann sirka 200 jólakort með sérsömdu ljóði, jól eftir jól.
Nú hef ég verið með manninum mínum í 15 ár og það er fyrst núna sem ég er að byrja að viðurkenna fyrir sjálfri mér að þetta sé ekki hægt. Að ég geti ekki endurtekið jólin sem foreldrar mínir bjuggu mér. Ég er barn míns tíma og það er alls ekki verri tími en sá sem var og hét þegar ég var lítil. Hann er bara öðruvísi, hraðskreiðari og býður upp á aðra möguleika. Frá og með þessum jólum sker ég upp herör gegn sektarkenndinni. Það eru nefnilega ekki jólin sem skapa grýluna og heldur ekki tíðarandinn heldur ég sjálf með mína biluðu sjálfsvitund. Ég mun aldrei föndra jólasveina eða baka litríka randalín eins dásamlegt og það var frá hendi foreldra minna, af því að það hentar ekki mínum lífsstíl og veistu, drengirnir mínir munu síðar meir ekki þurfa að ganga til sálfræðings út af því, en þeir gætu hins vegar þurft þess ef ég hætti ekki að yfirfæra væntingar mínar byggðar á fortíðinni yfir á væntingar þeirra. Börn eru nefnilega mjög næm á líðan foreldra sinna og það besta sem við getum veitt þeim er að varðveita heilsu okkar, andlega og líkamlega. Það er meira að segja mikilvægara heldur en að gefa þeim endalausan tíma og lifa í núinu þó það séu vissulega mjög dýrmætar gjafir. Nei það er eins með börnin og makann, okkar gleði verður þeirra gleði og okkar vanlíðan þeirra vanlíðan. Þess vegna legg ég það til fyrir þessi jól að við læsum hrísvöndinn inn í kústaskáp og sættumst við þær leiðir sem okkur eru færar, út frá tíma, vinnu, styrkleikum, áhuga og fjármunum. Því þó minni kynslóð hafi þótt Húsið á sléttunni alveg dásamlegur sjónvarpsþáttur þá er alls ekkert víst að börnin okkar væru endilega að fíla þessa Ingalls stemmningu sem við vorum að missa okkur yfir. Þeim myndi sennilega finnast þetta dálítið gamaldags og væmið eins og nostalgían sem fóðrar væntingar okkar fyrir hver einustu jól. Nostalgían er samt dýrmæt og dásamleg að ylja sér við líkt og arineld á síðkvöldi en ekki sem viðmið á það hversu góð eða natin við erum sem foreldrar og makar. Þegar öllu er á botnin hvolft er það nefnilega fyrst og fremst opið hjarta, yfirvegun og þakklæti sem færir Jesúbarnið inn í stofu og gerir heimilið að helgidómi.( Pistill frá aðventu 2013)