Lesa meiraHungur "/> Skip to content

Hungur

Já hér stend ég í þessari asnalegu jólapeysu og get ekki annað. Málstaðurinn er mikilvægur en með jólapeysuátakinu í ár stendur Barnaheill fyrir fjáröflun til styrktar forvarnarverkefni gegn einelti. Og nú er komið að því að efna loforðið um að messa í jólapeysunni sem er ættuð frá Dublin á Írlandi.

Einelti er einn þráðurinn í samskiptamynstri manna, góðu fréttirnar eru þær að hann er ekki rauði þráðurinn. Rauði þráðurinn er nefnilega kærleikur og þess vegna heldur mannkyn áfram að lifa og dafna. Lífið er í grunninn gott. Eineltið er hins vegar ekki svo langt frá rauða þræðinum, allar mannlegar tilfinningar eru á svo margan hátt samofnar, já rétt eins og myrkrið og ljósið sem er alltaf hlið við hlið, tilbúið að taka við hvort öðru. Jólaguðspjallið fjallar fyrst og síðast um samskipti og tengsl, þar segir frá fæðingu lítils drengs í fjárhúskofa en sá húsakostur var nauðlending þar sem þorpsbúar í Betlehem höfðu hvorki ráð né rænu á að hýsa hina fæðandi móður og unnusta hennar.

Jesús var s.s eineltisbarn áður en hann kom inn í þennan heim, foreldrar hans áttu lítið undir sér og það gerði samferðarfólki auðveldara um vik að hundsa þau. Og allt frá því að drengurinn leit dagsins ljós mátti hann þola andúð og yfirgang ríkjandi valdhafa, niðurlægjandi athugasemdir og vantrú á það sem hann hafði fram að færa. Eins og við vitum þá lauk þeirri vegferð upp á Golgatahæð þar sem hann var krossfestur að hýðingum loknum í bergmáli háðsglósanna sem hrutu af vörum hermannanna. Hann tók á sig þjáningu og skömm gerenda og þolenda heimsins og gerði upprisu að möguleika fyrir alla.

En hvernig skyldi þetta annars hafa verið þarna í Betlehem þegar þau Maríu og Jósef bar að garði? Þar var jú ósköp venjulegt fólk á ferð, getur verið að eftirfarandi ljóð segi eitthvað um það sem hugsanlega hefur gerst en er látið liggja milli hluta í frásögn guðspjallamannsins.

 

Í heilagri ritningu er  hvergi getið um fæðingarþunglyndi Maríu meyjar.

Tilfinningalíf Jósefs er líka ráðgáta.

Engar heimildir um fortíð fjárhirðanna en barnleysi mun hafa hrjáð þann er grét mest við jötuna.

Um vitringana er sagt að þeir hafi lesið yfir sig í skóla og haft þráhyggju fyrir allskonar stjörnum, bæði á himni og jörðu.

Færri vita að Heródes var yndislegt barn, skýrleiks drengur, augasteinn móður sinnar.

Litlum sem engum sögum fer af sálarlífi gistihúsaeigandans, hann mun þó hafa glímt við félagsfælni og þess vegna neitað að opna dyrnar .

Barnið í jötunni er hins vegar enn í greiningu ( HEB).

Við erum öll að glíma við eitthvað, það er eiginlega niðurlag jólaguðspjallsins, jólin snerta okkur vegna þess að þau eru helg sem merkir að þau eru frátekin því sem við öll eigum sameiginlegt og það er bara eitt, það er að vera manneskja.Við tjáum líðan okkur með því að skapa ákveðna umgjörð en það sem knýr þá sköpun áfram er tilfinningin um að við séum loks samferða.  Barnið fæðist í fjárhúskofa ,að streyma fjárhirðar og vitringar  öreigar og eignamenn til þess að spegla sál sína í augum barnsins. Í augnablik hverfa þrep þjóðfélagsstigans þar sem þetta fólk stendur í hrollköldu næturmyrkri á Betlehemsvöllum og horfist í augu við hvert annað, horfist í augu við sjálft sig. Boðskapur hinna kristnu jóla er boðskapur sameiningar en ekki sundrunga, jöfnuðar en ekki aðgreiningar. Við tölum oft um að mannfólkið sýni sínar bestu hliðar á jólum, samkennd, gjafmildi og gestrisni verða að heilagri þrenningu og þörfin fyrir að hlúa að hinum raunverulegu lífsgæðum eykst þó hin veraldlegu séu auðvitað fyrirferðarmikil, en það er hins vegar ekki umfjöllunarefni hér. Jólin eru í eðli sínu andsvar við félagslegu ranglæti,andsvar við ofbeldi og kúgun í hvaða myndum sem það birtist, jólin eru þ.a.l. líka andsvar við einelti. Boðskapur jólanna er að hver einasta manneskja hafi tilverurétt og rétt á grundvallargæðum, að vera elskuð og virt og að gaumur sé gefinn að aðstæðum hennar bæði líkamlegum, andlegum og félagslegum.

Jólaguðspjallið fjallar um það að standa með barninu og vernda það, það fjallar líka um að það þurfi heilt þorp til að ala upp eitt barn, það fjallar um að fæðing barns og uppeldi sé ekki einkamál foreldranna. Í nútímanum erum við kannski ekki vön því að alls konar fólk heimsæki nýbakaða foreldra á sængina, gæti verið svolítið álag að taka á móti samborgurum þar sem maður liggur í hormónarússi í veröld sem hefur smækkað niður í sirka eitt sjúkrarúm og nærföt í eigu spítalanna.

Hins vegar held ég að velferð barnsins liggi ekki hvað síst í hæfilegri afskiptasemi  samfélagsins og ég held að þessi afskiptasemi sé einmitt lykillinn að því að koma í veg fyrir að barnið verði fyrir hnjaski eða jafnvel skaða á líkama og sál. Gjafirnar sem vitringarnir færðu Jesúbarninu voru fullorðinsgjafir, gull, reykelsi og myrra þetta voru gjafir sem táknuðu samstöðu hinna fullorðnu um að koma barninu til manns, þær táknuðu tilfinningalegt og andlegt öryggi. Í dag er litið svo á að uppeldisleg ábyrgð sé öll á hendi foreldra, það sé foreldranna einna að ala upp sín börn og finna út úr því hvað hentar þeim best og gerir þeim gott, ég held að þetta sé ekki endilega æskileg þróun vegna þess að þó að engin elski barnið meira en foreldrarnir að þá þýðir það ekki að þau geti haft yfirsýn yfir allt leiksviðið.

Sem móðir finnst mér mikilvægt að fá stuðning, ábendingar og ráð frá umhverfinu þar sem ég er oft svo yfirkomin af öðrum verkefnum sem ég þarf að sinna og er ætlað að verða öðrum til gagns, jafnvel öðrum börnum. Auðvitað er það fyrst og fremst hlutverk foreldra að næra börn sín tilfinningalega, börn nærast tilfinningalega af athygli foreldra, skilyrðislausri ást sem birtist í því að þau eru elskuð án afreka og umhyggju til líkama og sálar. Önnur félagsmótun er hins vegar samfélagslegt verkefni. Að kenna börnum samskipti, efla samkennd, samlíðan og samhygð, virðingu fyrir fjölbreytileikanum, upplýsa þau um ólík fjölskylduform, um ólíka kynhneigð, um jafnrétti, trúarbrögð og fjölmenningu. Þess vegna eru til ýmsar stofnanir og hreyfingar sem er ætlað að styðja við uppeldi barnanna og bæta við það sem þau eru nestuð með að heiman, það þarf varla að taka það fram að þessar stofnanir og hreyfingar þurfa að vanda sig rétt eins og heimilin. Hér er verið að vísa til skóla, íþróttahreyfinga, kirkju, skáta, tónlistar, dans og leiklistarskóla, félagsmiðstöðva osfrv.

Einelti þrífst í afskiptaleysi og afskiptaleysi þrífst í hlutleysi. Besta forvörnin gegn einelti er í fyrsta lagi að næra börn tilfinningalega og það er hlutverk foreldra, tilfinningalega vannærð börn fyllast skömm og eina leiðin sem þau hafa til að losna undan þeirri skömm er að koma henni yfir á aðra, þannig fer einelti af stað. Einelti er hungur. Í öðru lagi er forvörnin fólgin í upplýsingu og umræðu um alvöru lífsgildi og mannkærleika, uppbyggingu sjálfsmyndar og heilbrigði, í því að hjálpa börnum að koma auga á hæfileika sína og styrk sem er svo mikilvægt fyrir hamingju þeirra. Þar koma hinar stofnanirnar og hreyfingarnar til skjalanna.

Hér stend ég í þessari asnalegu jólapeysu og get ekki annað. Jólapeysan er barnið inn í okkur öllum, barnið sem við eitt sinn vorum og ræður enn för í daglegum samskiptum og ákvarðanatöku. Barnið sem brýst fram í hrifnæmi okkar og tilhlökkun og grætur í sársauka okkar og vonbrigðum. Barnið sem minnir okkur á gæði upprunans í ótrúlegustu aðstæðum. Barnið er okkar tilfinningalega barómat í gegnum lífið. Þess vegna þurfa allir að hjálpast að við að koma því til manns.   (Flutt í jólamessu í Akureyrarkirkju)

Published inPistlar