Lesa meiraKárahnjúkaprédikun frá árinu 2006 "/> Skip to content

Kárahnjúkaprédikun frá árinu 2006

 

Þessi ræða var flutt á Austurvelli eftir Ómarsgönguna í september árið 2006.

Einu sinni var til hús á Hólum í Hjaltadal sem nefnt var Auðunarstofa. Nafnið var dregið af biskupnum Auðunni rauða Þorbergssyni sem lét reisa húsið í biskupstíð sinni á Hólum á fjórtándu öld. Auðunn rauði kom frá Noregi og þegar hann var gerður að biskupi á Hólum lét hann byggja þess timburstofu sem var sú fyrsta og eina sinnar tegundar á Íslandi. Auðunn biskup hafði uppgötvað rautt berg í Hólabyrðunni sem er fjallið sem skýlir staðnum. Sami efniviður og notaður var fjórum öldum síðar í Hóladómkirkjuna sem stendur enn í dag. Auðunn fékk til liðs við sig steinsmið sem sótti grjótið úr hlíðum byrðunnar, flutti heim á sleða og hjó til á staðnum. Lét biskup m.a. útbúa steinofn úr grjótinu sem bar út reykinn og þótti það afar nýstárlegt og merkilegt fyrirbrigði á þeim tíma.

Auðunarstofa stóð hvorki meira né minna en í fimm aldir en árið 1810 dró til tíðinda þegar stofan var rifin á hörðum vetri og nýtt í eldivið.Skriflegar heimildir herma að þegar stofan var rifin fimm alda gömul hafi lítið sem ekkert séð á henni enda var vandað vel til verksins í upphafi.

Rétt fyrir síðustu aldamót fékk þáverandi vígslubiskup á Hólum mikinn áhuga, eftir að hafa kynnt sér sögu norska biskupsins, fyrir því að endurreisa Auðunarstofu á staðnum. Margir voru tilbúnir að leggja hugmyndinni lið, ekki síst Norðmenn sem gáfu allan viðinn í húsið. Þá voru fengnir færir sérfræðingar í arkitektúr og smíði á fornum timburhúsum og hafist handa við verkið með það að leiðarljósi að líkja eftir hinni upprunalegu stofu samkvæmt þeim lýsingum sem til voru en gera húsið þó þannig úr garði að það nýttist til margvíslegrar starfsemi á vegum kirkjunnar og biskupsembættisins. Árið 2001 var risið svokallað tilgátuhús, ný Auðunarstofa í minningu hinnar gömlu. Það var vissulega sérstök stund þegar hið nýja hús var blessað og opnað við hátíðlega athöfn síðla sumars árið 2001. Í mörgum ræðum sem haldnar voru þann dag kom smáorðið EF ansi oft við sögu, því ef að stofan hefði ekki verið rifin árið 1810, þá stæði hún líklega enn í dag og væri langelsta hús landsins. Og í raun sögulegt fyrirbæri. Persónulega treysti ég mér ekki til að dæma þá ákvörðun bændanna í sveitinni við upphaf 19.aldar að rífa fimm alda hús til að takast á við harðindin og ég veit að nútíminn er ekki tilbúinn að dæma þá ákvörðun og raunverulega ekki heldur í stöðu til þess. Allra síst í dag. Því hvað er svo sem eitt hús í samanburði við velferð manneskjunnar ef um það tvennt er að ræða.

Hins vegar komst ég ekki hjá því að hugsa þar sem ég skoðaði með aðdáun raunar Auðunarstofu hina nýju í sumar og rifjaði upp örlög hinnar gömlu, hvaða tilfinningar muni bærast innra með fólkinu sem horfir á Kárahnjúkasvæðið eftir ótilgreindan tíma, mánuði, ár eða áratugi. Hversu stórt og sárt verður þá smáorðið EF. Ég var einmitt að koma austan af landi þar sem ég hafði átt samtal við heimafólk sem satt best að segja lýsti áhyggjum sínum yfir þessum framkvæmdum, það var kvíðið, áhyggjufullt. Og þar sem ég stóð á hlaðinu á Hólum í Hjaltadal og virti fyrir mér þetta minnismerki um hús sem hefði getað orðið að sögulegu dýrmæti, þá komst ég ekki hjá því að hugsa, að þetta hafi þó bara verið eitt hús, en ekki heilt landssvæði, ósnortin náttúra, já heilög sköpun Guðs. Ég komst í raun að svipaðri niðurstöðu varðandi hina horfnu Auðunarstofu og fátæki dalaklerkurinn í ljóði eftir Davíð Stefánsson sem afsakaði fyrir biskupnum skyndilegt hvarf sóknarkirkjunnar með eftirfarandi orðum, Úr húsi Drottins reif ég bönd og bita, svo börnin fengu ljós og hita. Með Guðs hjálp einni gat ég verkið unnið. Guði til dýrðar hefur kirkjan brunnið. Á viðum hennar var sá logi alinn, er veitti öllum líf sem byggja dalinn. En nú er spurningin dagsins og raunar vikunnar sem í hönd fer, hvaða afsökun höfum við gagnvart komandi kynslóðum sem munu hafa nákvæmar heimildir í höndunum um það að í þessu landi ríkti enginn skortur á peningum né tækifærum þegar ákvörðun var tekin um það að fyrirfara náttúru, heilagri sköpun sem tilheyrir öllu mannkyni, já ekki bara þessum 300.000 Íslendingum sem byggja landið. Íslensk náttúra er nefnilega ekki bara fyrir Íslendinga heldur fyrir alla þá sem mæta henni af virðingu, þess vegna hefur fólk af öðrum þjóðum fullt leyfi til að hafa skoðanir á því að verið sé að drekkja heilu landssvæði, því sköpun Guðs er sameiginleg öllum mönnum. Við komum hvert öðru við sama hverrar þjóðar við erum og það á einnig við um náttúruna, íslensk náttúra kemur öllum þjóðum við. Þess vegna skulum við hætta að amast við útlendingum sem hafa skoðanir á mistökum okkar, þau hafa nefnilega fullan rétt á því. Alveg eins og við höfum rétt og raunar skyldu til að láta okkur mannréttindabrot annarra þjóða varða. Þegar Guð skapaði heiminn horfði hann yfir alla sköpun sína og honum þótti hún harla góð, þess vegna er náttúran heilög og þess vegna eru manneskjur heilagar.

Almáttugur og algóður Guð stendur að baki þessu lífi og þess vegna er svo erfitt að sætt sig viða að það einungis á valdi örfárra einstaklinga að taka ákvörðun um það hvort eyða megi stóru og fullkomnu sköpunarverki sem aðeins brotabrot af mannkyninu hefur hingað til fengið að njóta. Guð setti nefnilega ráðsmennskuhlutverkið á herðar okkar allra, við manneskjurnar höfum þá sérstöðu að vera samverkamenn í ríki Guðs. En ríki Guðs er í allri sköpun hans, verum minnug þess.

En það sem er líka svo endemis óþægilegt við þessar miklu framkvæmdir er það að við stöndum ekki einu sinni frammi fyrir siðaklemmu eins og bændurnir í Hjaltadal sem voru svangir eða dalaklerkurinn í ljóðinu sem vissi að sóknarbörnunum var kalt, við erum nefnilega bara kvíðin af græðgi. Kárahnjúkavirkjun er ekki sjálfsbjargarviðleitni heldur kvíði og þrælslund í þjónustu við herra mammon. Kirkjan getur ekki litið undan þegar manneskjur eru að tapa fyrir sjálfum sér, Kristur þolir ekki að horfa á það. Kirkjan getur ekki litið undan þegar við bregðumst Guði og þar með hvert öðru, kirkjan er samfélag sem byggir á orði Krists og í dag biður Kristur okkur að þjóna sér en ekki græðginni. Þér getið ekki þjónað Guði og mammon segir hann í fjallræðunni í fagnaðarerindi dagsins. Og hví eruð þér áhyggjufull,hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. Segið ekki áhyggjufull: Hvað eigum við að drekka? Hverju eigum við að klæðast? Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki, segir Jesús Kristur.

Þegar við verðum hrædd þá týnum við réttlætinu, óttinn vekur í okkur frummennsku, þegar við verðum hrædd þá skerðist sjónsvið okkar, við hættum að sjá aðrar manneskjur nema við getum grætt á þeim, við hættum að sjá náttúruna nema að geta grætt á henni. Við breytumst eiginlega í teiknimyndafígúrur með dollaramerki í augum og skyndilega tekur siðfræði efnishyggjunnar völdin. Óttinn vinnur gegn réttlætinu og við töpum fyrir okkur sjálfum. En við getum ekki fórnað hinu heilaga fyrir græðgina, megum það ekki, við eigum ekki þessa náttúru alveg eins og við eigum ekki aðrar manneskjur. Mannfólkið og náttúran er eign Guðs. Við erum leigjendur hérna og enginn hefur kauprétt enda er Guð ekki lánveitandi.

Ég er hrædd um að þau sem ganga um Kárahnjúkasvæðið í nánustu framtíð og lesa á skilti hér rann Kringilsá, hér féll Tröllafoss, hér var Hafrahvammagljúfur, blessuð sé minning þeirra, muni ekki líta á verkið sem sjálfsbjargarviðleitni rísandi þjóðar, heldur grátlegan hroka velmegunarríkis sem kunni sér ekki magamál. Nema við verðum bara búin að sökkva þessu öllu og börn framtíðarinnar sigli um á örkinni, leitandi að regnboga. Nei Algóður Guði forði okkur frá því. Guð gefi okkur vit, æðruleysi og auðmýkt til að horfa á krossinn og skilja hvað er þörf og hvað er græðgi.

Published inPistlar