Lesa meiraÁrtölin sem þú manst "/> Skip to content

Ártölin sem þú manst

Að taka niður æviatriði um látið fólk og undirbúa þannig minningarorð með aðstandendum er í senn gefandi og vandasamt. Það eru raunar mikil forréttindi að fá að annast slíka þjónustu ekki síst þar sem hún er mjög menntandi fyrir prestinn. Fyrir manneskju eins og mig sem hafði oft nokkuð takmarkaða einbeitingu í skóla og átti til að sigla þöndum hugseglum inn í dagdraumana er mjög magnað að geta setið með fólki og hlustað á lífssögu ástvinar sem ég aldrei þekkti, án þess að missa úr eitt einasta orð. Ég hugsa að ef öll mín skólaganga hefði byggst upp á því að heyra ævisögur fólks þá hefði ég sennilega endað með a.m.k fimm háskólagráður. Þessar stundir sem eru nokkuð tíðar þar sem ég þjóna stórum söfnuði eru svolítið eins og örnámskeið í alþýðufræðum. Kynslóðin sem er fædd snemma á 20.öld er nú smátt og smátt að kveðja og þetta er fólkið sem lifði einhverjar mestu samfélagsbreytingar sem nokkur kynslóð hefur eða mun lifa. Þetta er fólkið sem gekk í farskóla í sveitinni og takið eftir það gekk í bókstaflegri merkingu oft marga kílómetra að næsta bæ til að afla sér menntunar, þetta er kynslóðin  sem fór í gegnum berklafaraldur og á minningar af því að dvelja sem börn og unglingar mánuðum saman á berklahæli fjarri foreldrum og systkinum. Þetta er fólkið sem ólst upp við mjög þröngan húsakost þar sem hugmyndina um eigið herbergi var helst að finna í skáldsögum. Þetta er líka kynslóðin sem var send í sveit til sumarlangrar dvalar um leið og fyrstu fullorðinstennurnar höfðu brotið sér leið gegnum góminn eins og sólargeislar að vori.

Í undirbúningi minningarorða lærir maður ýmis orð yfir hluti eða verklag sem manni er ekki tamt að nota, orð sem tengjast kannski sjómennsku eða landbúnaði og er minni kynslóð svolítið framandi. Þá þarf ég oft að viðurkenna fáfræði mína til að öðlast betri skilning á frásögnum fólksins enda er ekki í boði að lesa á milli lína eða bæta í eyðurnar þegar um þessi tímamót er að ræða. Það er s.s. bannað að vera bessewisser í undirbúningi útfarar. Presturinn er heldur ekki að leita frétta heldur upplýsinga til að geta skrifað ræðu sem er um leið sálgæsla fyrir eftirlifendur. Þá skiptir máli að spyrja opinna spurninga og gera fólki strax ljóst að meiri upplýsingar en minni hjálpa presti að fá heildstæða mynd af hinum látna þó svo að ekki rati allt sem sagt er í ræðuna. Þetta þýðir að maður heyrir margrar merkilegar sögur sem verða eins konar neðanmálsgreinar í vitund ræðuritara þegar minningarorðin eru svo sett saman. Eitt er það sem ég hef alltaf lagt áherslu á við ástvini hins látna og það er að við festumst ekki í upptalningu ártala enda er mjög lítil sálgæsla fólgin í því að heyra endalausar tölur úr ræðustól, það á betur við á kosninganótt. Fólk er almennt mjög sammála þeirri ábendingu og þar að auki fegið að þurfa ekki að hafa slíkar staðreyndir á hreinu, stundum er nóg að segja bara “ við upphaf sjöunda áratugarins” osfrv.

Við áramót verða ártöl allt í einu þýðingarmikil, við veltum fyrir okkur hvernig árið 2015 muni verða og í brjóstum okkar bærist óttablandin forvitni og von um að farsæld verði svarið. Stundin þar sem við horfum á gamla árið fjarlægjast á sjónvarpsskjánum og hið nýja þokast nær er sennilega eina andartakið þar sem ég persónulega meyrna og jafnvel tárast yfir tölum fyrir utan öll skiptin sem ég stóð á ganginum í gamla skóla MA og sá fyrstu einkunnir úr stærðfræðiprófum , þau tár voru reyndar af öðrum meiði.

Ég hef komist að ýmsu sammannlegu við að taka niður æviatriði og undirbúa minningarorð. Fyrir utan að komast að því að börn voru ekki óhamingjusamari hér áður fyrr þó þau þyrftu að deila herbergi með systkinum sínum og ganga úr rúmum þegar gesti bar að garði sem virðist hafa verið mjög oft á flestum íslenskum sveitaheimilum og í bæjum. Og að nægjusemi og nýtni hafi verið almenn hegðun en ekki sérviska langt fram eftir 20.öld þá hef ég komist að því að fólk man helst ártöl þegar þau tengjast barnsfæðingum, giftingum, veikindum, slysum og dauða.  Færri muna nákvæmlega hvaða ár hinn látni lauk námi, hóf störf, skipti um vinnu,keypti hús eða íbúð, fór til útlanda osfrv. Það skal tekið fram að þetta er nokkuð óformleg rannsókn hjá undirritaðri en engu að síður segir hún mér að fólk man á endanum það sem raunverulega skiptir máli og þetta með ártölin, undirstrikar það. Fólk man tilfinningalega atburði, þar sem ást, hrifning, gleði, ótti, vonbrigði og sorg spila forspil og eftirspil. Og af hverju er ég að segja frá þessu á gamlárskvöldi? Jú vegna þess að þetta er vísbending um það að áherslur í samfélagi okkar séu ekki alltaf í takti við raunverulegar þarfir.

Verðandi og nýbakaðir foreldrar kvíða því að ná endum saman í fæðingarorlofi eigi þau að standa við sínar fjárhagslegu skuldbindingar, greiða af húsnæðislánum sem eru eitt stórt kviksyndi og versla mat og bleyjur sem nb hljóta að vera handsaumaðar silkiþráðum í harðangur og klaustur, já svona miðað við verð. Fæðingarorlof er líka styttra hér en á Norðurlöndunum og svo virðist sem færri feður taki nú fæðingarorlof en áður sem er auðvitað bein afleiðing af efnahagshruninu og skref aftur á bak í jafnréttisbaráttunni. Hvað hjónabandið varðar þá er ljóst að samkeppnisandi samfélagsins er því fjandsamlegur, við vinnum langan vinnudag og þar fyrir utan eiga allir að vera að meika það sem er svo erfitt fyrir nándina, hún verður aðeins til með tíma og fyrirhöfn, nándin er einfaldlega hjartsláttur hjónabandsins. Hvað veikindi og slys varðar að þá þarf sennilega ekki að fjölyrða um heilbrigðiskerfið sem er raunverulega farið að bitna á almenningi og er hreinlega eitt mesta áhyggjuefni þessarar þjóðar. Það hlýtur að verða forgangsverkni á nýju ári að koma því á rétta braut og það gerist fyrst með því að hlýða á þau sem þar starfa og á þjóðarsálina sem finnur til undan ástandinu og óvissunni.

Það er nú einfaldlega þannig að þeir atburðir og þau tímamót sem fólk getur rifjað upp með ártölum eru hin sömu og hann Jesús frá Nasaret var alltaf að fjalla um og varða mannlega heill, mannleg tengsl og réttlæti og það verður að segjast að þeir stjórnmálaflokkar á Íslandi sem styðja íslenska Þjóðkirkju í opinberri umræðu og vilja veg hennar sem mestan verða fyrst og fremst að gera orð og gjörðir Jesú að “frumvarpi” allra sinna mála. Þjóðkirkjan þarf ekki neinn stuðning annan en þann að boðskapur frelsarans fái að snerta hjörtu og hafa áhrif á ákvarðanatöku um almannahag. Að því leyti ætti Þjóðkirkjan frekar að styðja stjórnamálaflokkana en öfugt.

Ártöl skipta ekki máli fyrr en þau tengjast mikilvægum atburðum í lífi okkar, niðurstaðan af níu ára þjónustu minni sem prestur er að fólk man það sem varðar raunveruleg lífsgildi, dauðinn verður mælikvarði á það. Mér finnst skipta máli að við gerum lífssögur að aðal námsefni þjóðarinnar því þær segja það sem skiptir máli inn í framtíðina.

 

Published inPistlar