Lesa meiraAð endurfæðast úr netheimum "/> Skip to content

Að endurfæðast úr netheimum

Ég varð fyrir mjög merkilegri uppgötvun á dögunum, já það má nánast kalla það vitrun. Vitrun er orðið af því að það er það sem fólk verður fyrir í klaustrum, á eyðieyjum og jafnvel í fangelsum. Ég er stödd á Hólum í Hjaltadal í nokkurra daga leyfi við að skrifa bók. Ekki misskilja mig, það er ekkert fangelsi að vera hér, Hólar er yndislegur staður þar sem hin magnaða kirkjusaga drýpur af hverju strái, að vísu er nú jörð þakin snjó þannig að réttara væri að segja að sagan bergmálaði milli fjalla því þau er hér hvernig sem viðrar, jafnt vetur sem sumar. Hólabyrðan er svona eins og ættmóðirin í dalnum enda má segja að dómkirkjan hafi fæðst af henni, byggingarefni kirkjunnar er rauður sandsteinn sóttur úr Byrðunni.

Nema hvað, hér fæ ég að dvelja í dásamlegri íbúð á vegum Guðbrandsstofnunar. Íbúðin er hrein og fín með öllu því nauðsynlegasta sem á þarf að halda í samtíma vorum. Hér er eldavél, ísskápur, rúm, þvottavél, sófi…….. en ekkert sjónvarp, ekkert útvarp og netsnúran gengur ekki í tölvuna mína, af því að tölvan mín er svo fíngerð og viðkvæm að hún hafnar slíkum aðskotahlutum.  Ég á s.s. svona viðkvæmt tölvublóm.

Fyrsta kvöldið sat ég í sófanum og hlustaði á eigin andardrátt, það var mjög skrýtið, skyndilega rann það upp fyrir mér að ég hef líklega ekki heyrt eigin andardrátt í þó nokkurn tíma, það var bara notalegt, svolítið eins og að endurnýja kynni við gamlan skólafélaga og rifja upp góðar djammsögur. Daginn eftir skrifaði ég eins og vindurinn enda ekkert sem gat truflað nema kannski vindurinn sem gnauðaði fyrir utan gluggann. Um kvöldið stóð ég upp frá skriftum og hitaði mér kjötbollur frá 1944, á Hólum er maturinn líka sögulegur. Ég settist niður með diskinn minn og vatnsglas og virti matinn fyrir mér um leið og ég stakk hverjum bitanum á fætur öðrum upp í mig. Þá tók ég til við að tyggja, ég man ekki hvenær ég heyrði sjálfa mig síðast tyggja, þetta var mögnuð stund, mér nánast vöknaði um augu. Eftir matinn tók við frágangur, í uppvaskinu stóð ég mig að því að framkalla ákveðin hljóð, svona eins og gömul kona sem er eitthvað að bogra við húsverkin en er of gömul til að heyra í sjálfri sér, þarna var ég mitt á milli þess að verða skelfingu lostin og bresta í grát. Hvað var að gerast? Var ég að endurfæðast úr netheimum yfir í lífið sjálft? Á fimmta degi er ég loks komin í netsamband að undanskildum örfáum andartökum þar sem ég náði smá sambandi á símann minn, Hólabyrðan hefur hins vegar séð til þess að það samband væri meira eins og miðilsfundur en raunveruleiki. Ég veit ekki hvernig ég að vinna úr þessari reynslu eða túlka hana, eina sem ég veit nú er að það er líf utan netheima, alveg eins og það er örugglega líf á Mars. Í lífinu utan netheima er hægt að heyra ýmis hljóð sem eru nokkuð framandi en það er alveg þess virði að leggja við hlustir, þetta eru skilaboð að handan um að maður eigi kannski stundum að vera með sjálfum sér. Hættan er nefnilega sú að ef maður heyrir sig aldrei anda, tyggja eða humma þá verður maður óttasleginn þegar það loks gerist og leggur jafnvel á flótta.

Published inPistlar