Lesa meiraJafnrétti á tímum rassadillinga "/> Skip to content

Jafnrétti á tímum rassadillinga

Áður en heimurinn varð til, var ekkert nema myrkur. Það sem ég var búin að eyða löngum stundum í að velta þessu fyrir mér sem barn og raunar langt fram á unglingsár, ég man eftir því að fara í einhvers konar hugleiðsluástand þar sem ég var að reyna að sjá fyrir mér hvernig þetta ekkert hefði getað verið og getur það yfirhöfuð verið að einu sinni hafi ekkert verið til? Ég man eftir tilfinningunni sem kom við þessa hugsun, það var svona eitthvað mitt á milli gremju og vantrúar. Nú er orðið mjög langt síðan að ég fór í þennan leik en hann rifjaðist upp fyrir mér á dögunum þegar ég var að meðtaka að nú væru aðeins hundrað ár síðan íslenskar konur fengu kosningarétt til alþingis. Hundrað ár er ekki svo langur tími, sérstaklega ef maður getur sett hann í ákveðið samhengi. Þegar ég hugsa til þess að báðar ömmur mínar voru fæddar þegar konur fengu loks kosningarétt hér á landi og ég er aðeins 37 ára gömul þá fæ ég svona tilfinningu eins og þegar ég var að pæla hvernig ekkert hefði getað verið til. Það er svo ótrúlegt að hugsa til þess að þegar ömmur mínar fæddust, konurnar sem ólu upp foreldra mína, önnur fædd 1907 og hin 1911 að þá höfðu konur ekki enn öðlast rétt til að kjósa til Alþingis og hafa þannig áhrif á veigamiklar ákvarðanatökur um framtíð lands og þjóðar já á ákvarðanatökur um þeirra hag. Mér verður hugsað til langömmu minnar Þórunnar Friðjónsdóttur frá Sandi í Aðaldal. Þórunn var fædd árið 1884 og lést 1929, árið 1915 þegar þau mikilvægu tímamót urðu að konur og vinnuhjú 40 ára og eldri hlutu kosningarétt til Alþingis  var hún 31 árs gömul fimm barna móðir.Þórunn orti ljóð og skrifaði hugleiðingar um lífið og tilveruna m.a. eina stutta æskuhugleiðingu sem mér finnst mjög áhrifarík

Hvers vegna brenni ég ekki þessi gömlu blöð nú þegar ég býst við þá og þá að aðrir en ég taki mína muni til hirðingar. Er ekki réttara að láta dætur mínar enga hugmynd hafa um þessa tilhneigingu mína til þess að láta hugsanir mínar á pappírinn heldur en að skilja þeim eftir þessar óþroskuðu æskuhugleiðingar. „Enginn vill sína æsku muna“, segir máltækið. Það er sjálfsagt eitt merkið enn um þá óhamingju mína, að ég er ekki eins gerð eins og allur fjöldinn, að ég hef aldrei slitið barnsskónum svo að fullu að ég hafi fleygt þeim í ruslakistuna. Aldrei afneitað æskudraumunum né gert gys að þeim hugsjónum sem hrifu mig í æsku. Hafi ég þroskast með aldrinum þá hafa þrárnar og skoðanirnar þroskast með mér. En hafi ég staðið í stað eða dregist niður á við þá hef ég þó ekki fjarlægst æsku mína svo að hún geti ekki enn þá vakið mér bæði sorg og gleði eftir því hvors ég minnist frá þeim tímunum. Enn þá teygir kuldinn og skorturinn frá þeim dögum skugga sína í áttina til mín og bjarmann leggur af leikjunum og lífsgleðinni og náttúrurfegurðinni sem ég naut þá. Eiginlega vildi ég ekkert af þessu missa. Myrku minningarnar hafa gert mig skilningsbetri á kjör þeirra sem ver eru settir en ég, og björtu minningarnar hafa vermt og lýst þegar mér hefur fundist líf mitt fábreytt og gleðisnautt. Einnig hefur þráin eftir æskustöðvunum, sem alltaf fylgir mér, vakið mér vonir um að eitthvað því líkt bíði mín hinum megin við gröf og dauða.“

Ég kynntist aldrei ömmu Hlín dóttur Þórunnar sem þetta ritar þær voru báðar látnar áður en ég fæddist en hugsið ykkur hvað þessi eina setning „Er ekki réttara að láta dætur mínar enga hugmynd hafa um þessa tilhneigingu mína til þess að láta hugsanir mínar á pappírinn heldur en að skilja þeim eftir þessar óþroskuðu æskuhugleiðingar“ segir mikið um stöðu kvenna og sjálfsmynd á Íslandi fyrir aðeins hundrað árum síðan. Langamma mín var að velta því fyrir sér hvort hún myndi gera dætrum sínum óleik með því að láta þessa annars vel orðuðu, tilfinninganæmu og heimspekilegu hugleiðingu standa. Þess má geta að bræður hennar Sigurjón og Guðmundur Friðjónssynir urðu báðir landsþekkt skáld á meðan systir þeirra var að velta fyrir sér hvort hún ætti ekki að brenna sín skrif svo þau yrðu ekki afkomendum til skammar. Í dag held ég úti bloggsíðu og set nánast hvað sem mér lystir á blað. Mér er sannur heiður af því að fá að birta þessa hugleiðingu langömmu á síðunni minni enda brennur ekkert nema þá kannski hjartað við lestur hennar. Ég vona að Þórunn Friðjónsdóttir fyrirgefi mér framhleypnina þar sem hún gengur um grænar grundir eilífðarinnar sem vonandi líkjast eitthvað heimahögunum í Aðaldal.

Á þessum hundrað árum síðan konur fengur kosningarétt til alþingis hefur mikið vatn runnið til sjávar í jafnréttismálum. Ísland er á vissan hátt paradís jafnréttis og kvenfrelsis og hugsanlega eru nú að vaxa upp kynslóðir sem eiga jafn erfitt með að ímynda sér tíma þar sem konur voru ekki álitnar jafningjar karla eins og fyrir mig að sjá fyrir mér ekkert áður en heimurinn varð til. Það er hins vegar örlítið lengra síðan heimurinn varð til en konur höfðu ekki rödd og rétt á við karlmenn. Það er í raun ískyggilega stutt síðan. Þetta hundrað ára afmæli kosningaréttar er vissulega  gleðileg tímamót enda megum við aldre gleyma sögu okkar vegna þess að hún er ein öflugasta vökukona réttlætisins, já sagan er vökukona. Réttlæti er nefnilega aldrei bara komið til að vera, réttlæti er hreyfiafl sem virkar ekki nema það sé lifandi og virkt í huga og hjarta hverrar manneskju. Það hef ég fyrst og fremst lært af honum Jesú frá Nasaret, hann hafði ekki einu sinni tíma til að skapa sér heimili af því að sem holdgervingur réttlætis þurfti hann alltaf að vera á vaktinni og ferðast: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.”  Femínismi  mun aldrei verða úrelt  hugmyndafræði, Jafnréttisstofa mun alltaf hafa hlutverk vegna þess að nýjar kynslóðir munu þurfa jafn mikið á kynjagleraugum eins og tannburstum að halda. Enn þurfum við að vakta kynbundinn launamun og uppræta hann eins og dæmin ný og gömul sanna. Enn þurfum við að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir líkömum sínum og vakta brengluð skilaboð klámvæðingarinnar um að valdaójafnvægi sé kynferðislega aðlaðandi eins og birtist svo oft í tónlistarmyndböndunum sem börnin okkar eru að horfa á eftir skóla. Við þurfum að vakta mansal og vændi og vera samtaka um að uppræta þá fáránlegu hugmynd að mannslíkaminn geti fallið undir markaðslögmál um framboð og eftirspurn, manneskjan er ekki tæki til notkunar fyrir aðra heldur markmið í sjálfri sér og telst því heilög bæði samkvæmt skilgreiningu Jesú og heimspekingsins Immanúel Kant. Og síðast en ekki síst þá þurfum við að nýta styrkleika okkar sem jafnréttisþjóðfélags í þágu kynsystra okkar í öðrum löndum sem búa við hundrað ára einsemd í jafnréttismálum, hafa ekki kosningarétt né möguleika til menntunar eða starfa og ráða alls ekki yfir eigin líkama.

Nóbelshafinn  Malala Yousafzai hætti lífi sínu til að vekja athygli á aðstæðum kvenna í  heimalandi sínu Pakistan en hún ólst upp í héraði þar sem stúlkum var meinað að sækja nám. Malala er fædd árið 1997 hún er 18 ára gömul frelsishetja, segjum dætrum okkar og sonum frá henni af því að þau samsama sig frekar jafnöldrum sínum og taka til greina það sem þau gera. Segjum þeim líka frá baráttukonum og brautryðjendum eins og Bríeti Bjarnhéðinsdóttur sem átti hugmyndina að framboði kvennalistans árið 1908, Vigdísi Finnbogadóttur fyrstu konunni í heiminum sem var kosin forseti í lýðræðislegum kosningum, Auði Eir fyrsta kvenprestinum osfrv. Notum aldarafmælið á þessu ári til að vekja börnin okkar til meðvitundar um sögu jafnréttisbaráttunnar  á Íslandi svo þau viti um leið og þau horfa á rassadillimyndbönd á Youtube að á undan þeim gengu kynslóðir sem þurftu verulega að hafa fyrir því að öðlast rödd og réttindi. Jafnrétti er ein af dýrmætustu auðlindum þessa lands  sem við getum endalaust virkjað heiminum til góðs. Ef við beinum sjónum okkar frá því að gera valdaleysi íslenskrar náttúru aðlaðandi með endalausum virkjanahugmyndum og leggjum krafta okkar í að vera fyrirmynd annarra þjóða í jafnréttismálum þá bæði heiðrum við minningu formæðra okkar og leggjum um leið grunninn að farsæld komandi kynslóða.

 

 

Published inPistlar