Lesa meiraÖskudagurinn "/> Skip to content

Öskudagurinn

Öskudagurinn á Akureyri er í minningunni einn af betri dögum æsku minnar, ég get næstum fullyrt að hann hafi verið mér jafn mikið tilhlökkunarefni og sjálfur afmælisdagurinn sem ber víst jafnan upp á 25. apríl ár hvert. Um leið og jólaskrautinu var pakkað með trega niður í kassa var ég farin að velta upp mögulegum  búningum fyrir öskudaginn, ég hef alltaf þrifist á tilhlökkun eða eins og mamma segir ” þegar ég er hætt að hlakka til þá er ég dauð.” Pabbi var sérlegur stílisti okkar systkinanna í öskudags bransanum, hann var Yves Saint Laurent öskudagsins. Eftirminnilegasti búningurinn sem hann hannaði á undirritaða var 25 kg. kartöflupoki  sem hann dundaði lengi við að festa á óþvegin eldrauð jarðepli. Kartöflu fyrir kartöflu þræddi hann upp á tvinna og hnýtti á netið, sjálfur sagðist hann vera óttalegur pokaprestur þar sem hann stundaði kartöflurækt meðfram sáningu orðsins. Eitt árið hannaði pabbi glæsilegan trúðabúning með svo tilkomumiklum hatti að ég varð fyrst að setjast inn í bílinn og svo að leggja hattinn lárétt niður og smokra honum þannig inn og skrúfa niður rúðuna öðru megin og láta dúskinn á hattinum flaksa í vindinum. En þó að búningaþemað hafi jafnan verið nokkuð frumlegt og útfærslan óvenjuleg var ritúalið í kringum sjálfan daginn bundið í mjög svo fastar skorður. Að kvöldi sprengidags ókum við Berglind vinkona mín sem bjó á Áshóli, næsta bæ sunnan við Laufás inn á Akureyri til að gista hjá móðursystur hennar sem hafði þann starfa ár eftir ár að aka okkur þremur, mér, Berglindi og Agnesi frænku hennar um bæinn til að syngja sæta söngva fyrir sykur og stöku bros. Þar sem ekki var bros að hafa gafst tóm til að syngja einum söng of mikið til að pirra svolítið pirraða fólkið, það var líka gaman. Um daginn jarðsöng ég mætan mann sem var fæddur á fyrri hluta síðustu aldar, hann var mikill öskudagsmaður en hans lið var svo forsjált að sofa í búningunum á eldhúsgólfinu heima hjá fyrrnefndum til þess að ekkert gæti tafið þá við dagrenningu. Það má segja að það sama hafi verið upp á teningnum hjá okkur vinkonunum, aldrei, hvorki fyrr né síðar hef ég átt eins auðvelt með að vakna fyrir klukkan 6:00 að morgni. Um það getur eiginmaður minn vottað en hann hefur stundum íhugað að kalla til miðil í mesta skammdeginu þegar konan hans sýnir lítið sem ekkert lífsmark þó vekjaraklukkan hringi. En á öskudegi fékk mig s.s ekkert stöðvað. Klukkan nákvæmlega sjöhundruð vorum við stöllur mættar niður á Kjötiðnarstöð þar sem við fengum sjóðheitar pylsur og starfsfólkið gladdist að því er virtist fölskvalaust yfir „Kátum köllum“ og „Á öskudegi“ eins og þar væri verið að frumflytja sjálfar Árstíðirnar fjórar eftir Vivaldi. Þaðan héldum við í hin ýmsu fyrirtæki, röðin út frá Lindu var biðarinnar virði því þar þyngdist pokinn til muna en þegar líða tók á morguninn var haldið inn í bæ að slá köttinn úr tunnunni og loks tók við rölt milli helstu verslana í miðbænum. Nú eru margar þeirra minningin ein, í bókabúðinni Huld fékk maður ægilega fín strokleður, Siggi Gúmm hinn fyrsti gaf sælgæti líkt og Amaro og Kaupfélagið en á Bautanum var hægt að syngja ofan í sig franskar með kokteilsósu og það þótti manni heldur staðgóð fæða svona miðað við töggurnar og lakkrísinn. Um hádegi var herlegheitunum lokið en þá fórum við stöllur heim til ömmu og afa Berglindar vinkonu minnar, þeirra heiðurshjóna Siggu og Eggerts og þar reyndi nú fyrst á vináttuböndin þegar skipta þurfti upp birgðunum. Okkur tókst jafnan að fara samningaleiðina og rekur mig ekki minni til þess að dómstólaleiðin hafi nokkru sinni verið reynd, það gerðist þá ekki fyrr en ég kom heim í Laufás og tók til við að verja innistæðuna fyrir eldri bróður sem hélt að hann gæti komist yfir Lindubuffin með sjarmann að vopni.

Þó að þessar minningar séu góðar þá er eitt sem stendur nú upp úr og gnæfir yfir söguna, það er allt fullorðna fólkið sem skapaði með manni þessa gleði og tilhlökkun. Og þegar ég flutti hingað aftur, að heita má fullorðin, tveggja barna móðir og fann að þessi hátíð var enn svona mikið samfélagsafl þá gladdist ég af öllu hjarta. Það eru nefnilega ákveðin skilaboð fólgin í því að  skapa þessa stemningu, það eru skilaboðin um það að við nennum að leika við börnin okkar og sinna þeim sem heild. Þegar ég var barn fannst mér allt snúast um mig á þessum degi, allt frá því að pabbi hóf að hanna búninginn og til þess að afi og amma vinkonu minnar tóku á móti samninganefndinni í kaffi. Í kristinni trú markar öskudagurinn upphaf lönguföstu sem er tími íhugunar og endurskoðunar, það er tíminn þar sem við gerum upp við okkur hvernig manneskjur við viljum vera og hvaða lífsgæðum við viljum hlúa að. Það að eiga svona minningar frá æsku sinni er gríðarlega mikilvægt. Það að vera barn á öskudegi þar sem að þér er hlúð og haft er fyrir eru ákveðin skilaboð um það að hinir fullorðnu taki eftir börnum og virði þarfir þeirra, það er svo sannarlega kristinn boðskapur. Því má segja að öskudagurinn sé táknræn yfirlýsing samfélagsins um það að gleði barnsins sé hamingja okkar allra.

Published inPistlar