Lesa meiraAð missa æruna "/> Skip to content

Að missa æruna

Að ástvinum undanskildum er æran sennilega það sem við óttumst mest að missa. Þessi ótti grópast í sál okkar um leið og við uppgötvum að við erum einstaklingar en ekki framlenging á foreldrum okkar. Óttinn um að tapa ærunni er sammannlegur, hann fer ekki í kyngreiningu, stéttskiptingu eða spyr um vegabréf, hann er heldur ekki nútímavæddur eða tekjutengdur. Óttinn um að missa æruna er eitt algengasta stef kvikmyndasögunnar næst á eftir ástinni. Það hefur sálgæslugildi fyrir okkur mannfólkið að horfa á bíómynd þar sem aðalsögupersónan tapar ærunni og finnur hana aftur við sögulok. Ég hef ekki tölu á þeim skiptum sem við vinkonurnar horfðum á söngleikjamyndina Grease í æsku rétt u.þ.b. sem fyrstu fílapenslarnir tóku að raða sér á nefbroddinn eins og flugnaskítur á hvítum kirkjuvegg. Þetta var auðvitað á tímum vídeótækjanna og við höfðum fyrir því að spóla aftur og aftur að þeim stað í myndinni þar sem Sandy leikin af Olaviu Newton John hætti skyndilega að vera saklausa stúlkan sem skólafélagarnir gerðu grín að og var þess í stað komin í níðþröngar svartar leðurbuxur, fleginn topp með túberað hár, smokey augnförðun og sígarettu í annað munnvikið. Danny leikinn af John Travolta mændi á hana skömmustulegur á svip af því að hann hafði ekki haft manndóm í að standa með henni þegar hún var hrekklaus og pínulítið væmin skólastúlka með kristilega hárgreiðslu og dreyminn svip.  Við vinkonurnar urðum einlægir samherjar hennar Sandy, þetta var okkar fyrsta upprisustef í lífinu, upprisa ærunnar yfir krossdauða niðurlægingarinnar. Ég held að þessi mynd hafi orðið mér verulegur styrkur t.d. í dans og íþróttakennslu í grunnskóla þar mér var aldrei boðið upp og aldrei valin í lið af því að skaparinn hafði tekið þá afdrifaríku ákvörðun að útdeila mér frekar einhvers konar hugviti en líkamlegri samhæfingu „jebb Hildur mín það geti ekki allir fengið allt, en allir hafa þó eitthvað“ ok frábært ég var s.s. Sandy danskennslunnar, það var bara þannig, enda byrjaði ég að reykja þegar ég var fimmtán ára og hefði íklæðst leðurbuxum ef slíkan dýrgrip væri að fá í Kaupfélaginu í Varmahlíð.

Nú liðu árin og bíómyndunum fjölgaði sem bæði nærðu og hughreystu um leið þennan sammannlega ótta um að tapa ærunni. Og svo fór maður að lesa Biblíuna og þá kom í ljós að hún er ekki bara fornt trúarrit, grundvöllur kristinnar trúar heldur ein albesta sjálfstyrkingarbók sem hægt er að lesa. Þar eru svo margar myndir af allskonar fólki sem er að glíma við allskonar vanda eins og við sem hér erum og svo kemur hann Jesús í sirka seinni helmingi bókarinnar og talar inn í allan þennan vanda og allar þessar hugsanir og tilfinningar sem fólkið er að glíma við. Í Jóhannesarguðspjalli er t.d. saga um samverska konu sem hittir Jesú við vatnsbrunn undir brennheitri hádegissólinni í Palestínu og hann biður hana um að gefa sér vatn að drekka, hann var vegmóður eins og segir í guðspjallinu enda verið á langri göngu með lærisveinum sínum sem höfðu brugðið sér inn í borgina til að sækja einhverjar vistir. Til að gera langa sögu stutta að þá er hún ærulaus, einangruð kona sem tilheyrir ekki bara einum minnihlutahópi heldur tveimur hún er nefnilega bæði kona og Samverji og Samverjar voru innflytjendur í landi Gyðinga, þeir máttu svo sem vera en samskipti þjóðanna voru helst engin. En svo var konan líka einangruð í sínu eigin samfélagi þ.e.a.s meðal annarra Samverja, því hún hafði átt nokkra menn og það féll nú ekki í kramið hjá fólki á þessum tíma. Þess vegna var hún sennilega ein á ferð þegar hún rekst á Jesú. Henni bregður þegar hann ávarpar hana og biður hana að gefa sér að drekka því Samverjar og Gyðingar samneyttu einskis. Þarna tókst Jesú að brjóta niður tvo múra með einni fyrirspurn hann ávarpaði  konu sem var í þokkabót útlendingur og það sem meira var hann vissi um fortíð hennar. En hann vissi ekki bara um fortíð hennar heldur líka um líðan hennar, hann heyrði skömmina öskra úr iðrum sálarinnar og þó hann væri dauðþreyttur og alveg að kafna úr hita þá ákvað hann að snerta líf þessarar konu og fá henni valdeflandi hlutverk í hendur. Það hlutverk var ekkert í takti við hana Sandy úr Grease, það snerist s.s. ekki um að dressa konuna upp í leðurbuxur og fleginn topp heldur gera hana að boðbera vonar í eigin samfélagi. Jesús sagði henni að hann þekkti fortíð hennar og að hann vissi líka að fortíðin hefði fjötrað hana og einangrað. Hann gerði henni ljóst að hún ætti val um að vera leikstjóri í eigin lífi. Það sem konan þurfti fyrst af öllu að gera var að breyta viðhorfinu í eigin garð áður en hún tæki til við að brjótast út úr þessari félagslegu einangrun. Samferðarfólk hennar sá nefnilega skömmina í augum hennar sem kallaðist á við þeirra eigin duldu skömm og skömmin í hennar augum veitti þeirra skömm stundarfró sem þau voru ekki tilbúin að sleppa. Þetta er gömul og saga og líka alveg splunkuný. Til þess að hjálpa henni af stað ákvað Jesús að segja henni hver hann væri, gott fólk þessi kona er s.s. fyrsta manneskjan í guðspjöllunum sem Jesús opinberar guðdóm sinn fyrir með beinum orðum. En konan tók líka við orðum hans af auðmýkt og æðruleysi vegna þess að hún var bæði lífsreynd og vitur og hún fór af stað og sagði frá eins og sá eða sú sem veit fyrir hvað hún stendur og hvers hún er megnug. Jesús var ekki að gera þetta af vorkun heldur viðurkenningu.

Ég verð að játa að í dag hefur þessi saga verulega skyggt á félagslega upprisu Sandy í svörtu leðurbuxunum með túberaða hárið og sígarettuna, það er nefnilega skammgóður vermir að skipta um útlit ef maður elskar ekki sjálfan sig. Grease er samt skemmtilega mynd, Danny verður alltaf hrikalega flottur en aðal töffarinn er samt Jesús.

 

 

Published inPistlar