Lesa meiraHundalíf "/> Skip to content

Hundalíf

Á dögunum dvaldi ég í Hamburg í Þýskalandi. Hamburg er fögur borg, hrein og tignarleg með fjölskrúðugt mannlíf og frábæra hundamenningu. Nú gerðist ég sjálf hundaeigandi fyrir um ári síðan er við festum kaup á hvítum Golden retriever hvolpi sem hefur tekið út sinn vöxt á vor og sumartíð og ber nafnið Kári. Kári er mikill gleðigjafi í okkar lífi, hann er hæglátur miðað við aldur, blíður á svip og ekkert alltof hugumstór né ákafur til verka (dregur nokkuð dám af eigendum sínum). Áður hafði ég bara átt hunda í sveit sem hlupu frjálsir um tún og engi og syntu í ánni þegar snjóa leysti. Það er allt önnur saga. Að eiga hund í bæ er nefnilega svolítið eins og að vera smitberi fuglaflensu, þ.e.a.s. þegar hundurinn er annars vegar og samt er nú Kári frekar mikill sjarmör. Hér á landi eru hundar undantekningarlaust í bandi og hafa færri staði til að njóta frelsis en t.d. reykingarmenn sem þó eru hægt og bítandi að breytast í fornminjar. Þess vegna sér maður hér á landi oft brjálaða hunda í bandi því frelsið er alltaf handan við hornið, þeir finna lykt af einhverju sem lofar svo góðu og espast auðvitað upp í löngun sinni til að flýja. Nú er ég ekki að segja að við eigum að sleppa öllum hundum frjálsum og gefa skít í allar reglugerðir en það er engu að síður umhugsunarvert fyrir hundaeiganda í bæ að heimsækja borg eins og Hamburg þar sem flestir hundar ganga lausir með eigendum sínum og hlýða þeim þannig í einu og öllu. Nú gekk ég út um allt en aldrei sá ég hund hlaupa að ókunnugum með brjálæðisglampa í augum og varla heyrðist gelt úr barka. Hundarnir fara meira að segja með eigendum sínum inn í fatabúðir, einn daginn stóð ég í inn í Íslendinganýlendunni H&M og velti fyrir mér kaupum á ægilega sumarlegri siffonskyrtu þegar ég skynjaði að það var horft á mig með samúðarglampa í augum, þar stóð þá hundur (að vísu í bandi) og á svip hans mátti ráða að ég hefði ekkert að gera með tíundu siffonskyrtuna í fataskápnum, plús það að þetta væri markmiðsskyrta sem myndi aldrei passa á mig. Þegar ég kom heim til gestgjafa minna um kvöldið sagði ég andaktug frá loðna stílistanum í H&M, þau ypptu öxlu og sögðu “und” ( samkvæmt minni menntaskólaþýsku þýðir það OG). Það er auðvitað ekki eins og það sé verið að meðhöndla matvæli í H&M.

Nú er ég auðvitað ekki með lokasvarið í þessum málum frekar en öðrum en engu að síður kemur þessi upplifun mér til að hugsa um frelsið sem fæst með skýrum mörkum. Og það á ekki bara við um hunda heldur líka menn, frelsið er nefnilega ekki fólgið í því að mega allt heldur að mega vera og gera innan skynsamlegra marka sem manni eru t.d. sett í kærleiksríku og umhyggjusömu uppeldi. Þetta er eins og með vínmenninguna, hún er svolítið lík hundamenningu okkar hér á landi, allir að snusa út í loftið og rífa í ólina. Þó held ég að það væri ekki ráð að breyta vínmenningunni á einni nóttu og selja bús í hverri búð því slíkar breytingar þarfnast  dýpri vitundar um hvað það þýði að hafa frelsi. Frelsi er nefnilega ekki fólgið í afskiptaleysi annarra eða því að mega gera hvað sem er heldur að vita hvað manni er fyrir bestu, hafa frelsi til að velja það og vera því vali trúr.Hvað hundamenninguna varðar þá skiptir máli að vanda sig, það er ekki einfalt að ala upp hund og ef frelsi þeirra innan þéttbýlis á að aukast þá verða eigendur að gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir því að eiga dýr sem getur bæði orðið óþolandi og jafnvel hættulegt ef því er ekki sinnt, sett mörk og elskað……………já akkúrat það sama og ég var að hugsa……þetta er eins og með mennina.

Menning er þróunarsaga og persónuleg ævisaga, eitthvað sem verður til af hugsun, aga, vandvirkni og samtali, allt er breytingum háð og dag einn verðum við ekki hér heldur nýjar kynslóðir sem þekkja ekkert annað en að geta keypt rauðvín hvar og hvenær sem er án þess að það sé eitthvað merkilegra en hundur í fatabúð.

Published inPistlar