Ég var 17 ára gömul þegar ég fór fyrst til kvensjúkdómalæknis, sú ferð var ekki blandin sömu spennu og þegar ég fór t.d. á fyrsta sveitaballið í Miðgarði í Skagafirði. Spennan við að fara til kvensjúkdómalæknis var frekar svona kvíðablandin á meðan spennan við að fara í Miðgarð var bundin þeirri von að komast á feitan séns og vanga við lagið „Ekkert breytir því“ með Sálinni hans Jóns míns. Þarna var s.s. um mjög ólíka spennu að ræða en ég lifði hvort tveggja af og þessi fyrsta heimsókn til kvensjúkdómalæknis reyndist á endanum auðveldari en ég hafði ímyndað mér.
Eftir barneignir urðu ferðir til kvensjúkdómalæknis jafn sjálfsagðar og hversdagslegar og sjóða fisk og kartöflur á mánudagskvöldi meðan verðurskeytin óma í gufunni. Við barnsfæðingu breytist líkami manns nefnilega í lítið Louvre safn sem fullt af ókunnugu fólki skoðar með ábúðarfullum svip. Þá þýðir ekkert að vera eitthvað spéhræddur, maður verður bara að setja upp dulúðugt bros eins og Mona Lisa og leyfa fólkinu að virða verkið fyrir sér. Þegar ég bjó í Reykjavík var kvensjúkdómalæknirinn minn gamall skólabróðir pabba , hann var ægilega góður við mig og við höfðum um nóg að spjalla á meðan hann tjakkaði upp leghálsinn og sótti frumusýnið. Einu sinni sagði hann mér frá því þegar hann starfaði við líffæraflutninga út í Bandaríkjunum, ég var auðvitað mjög áhugasöm um leið og ég vonaði að ekki yrði samsláttur milli hugsana hans og gjörða og áður en ég vissi af væru eggjastokkarnir mínir kannski komnir um borð í flugvél á leið til Svíþjóðar. Það hefði verið svolítið leiðinlegt.
Þegar ég flutti norður til Akureyrar varð ég að finna mér nýjan kvensjúkdómalækni, sá reyndist vera skólabróðir og ágætur félagi bróður míns þannig að það er óhætt að segja að hér sé ákveðið þema í gangi. Við eigum börn í sama bekk og verslum í sömu Bónusversluninni þannig að þetta er mjög heimilislegt. Um daginn sá ég að hann var að velja sér þar tannþráð þá datt mér í hug hvort ég ætti ekki að segja honum að lykkjan væri bara að reynast mér vel og þetta gengi allt samkvæmt áætlun. Það er nefnilega hægt að leysa svo mörg mál í Bónus.
Ég hugsa stundum hvað það er merkilegt hve mörgum finnst erfitt og jafnvel skammarlegt að fara til geðlæknis eða sálfræðings sé miðað við það að stærstur hluti íslenskra kvenna yfir tvítugt fer reglulega í leghálsskoðun og fleiri og fleiri karlar láta nú skoða litla blöðruhálskirtilinn sinn. Hér er auðvitað um stórkostlega heilbrigðisþjónusta að ræða. Í samtölum mínum sem sálgætir tek ég eftir að mörgu fólki líður greinilega eins gagnvart því að fara til sálfræðings eins og mér leið þegar ég var 17 ára að fara í fyrsta sinn til kvensjúkdómalæknis. Þegar ég skynja þetta, bregð ég undantekningarlaust á það ráð að segja fólki að ég fari sjálf mjög reglulega til sálfræðings. Þarna tek ég sénsinn á því að vera ekki fagleg heldur hvetjandi. Ég segi fólki að þó ég sé náttúrlega sjúklega klár (mitt eigið hógværa mat) þá sé ekki séns í helvíti að ég geti fundið ein og sér út úr því hvernig mér líður. Við þurfum öll á fjarsýnisgleraugum að halda til að geta séð inn í sál okkar og þau gleraugu verða til úr áheyrn, stuðningi og speglun annarra. Ef ég á að verða öðru fólki til gagns sem er mjög mikilvægt, ekki síst þegar maður þiggur laun af hinu opinbera, þá verð ég að vita hvernig mér sjálfri líður og styrkja þannig geðheilbrigði mitt. Því hvet ég allt fólk til að fara til sálfræðings eða annarra sambærilegra fagaðila og þá ekki síst fólkið sem gegnir ábyrgðarmiklum störfum í þágu lands og þjóðar.