Ég hef komist að því í starfi mínu sem prestur að sumarfrí reyna oft heilmikið á hjónabönd og fjölskyldulíf. Í sumum tilvikum er tilhugsunin um að eyða heilum mánuði saman án rútínu kvíðavænleg og stundum skellur sumarfríið eins og brimalda á fólki svo það hverfur í haf óuppgerðra tilfinninga sem hafa fengið að malla undir yfirborði skammdegisins.
Í fyrsta lagi er meira en að segja það fyrir upptekið fólk að detta í frí. Margir upplifa eins konar fæðingarþunglyndi þegar rútínu sleppir og dagar afslöppunar og frjálsræðis taka við. Þá verða sumir lasnir af því að þeir hafa loksins tíma til að leyfa sér þann munað að leggjast í hor, aðrir verða í framan eins og þeim hafi borist vondar fréttir og séu um það bil að bresta í grát og enn aðrir verða skapstyggir vegna allra þeirra verka sem er ólokið á heimilinu og verða eitthvað svo áberandi þegar maður er meira heima við. Svo eru auðvitað margir sem eru eitt sælubros og ljóma af gleði yfir björtum nóttum og fuglasöng og hamast við að þrífa fellihýsið og græja prímusinn áður en haldið er af stað út í óbyggðirnar, en það fólk er ekki til umræðu hér.
Sumarleyfis blúsinn er víða sunginn en færri vilja kannski tala um hann, hvað þá skilgreina tónfræðina á bak við hann. Ég held hins vegar að það sé mikilvægt að orða þetta nú þegar landsmenn ganga inn í þessa tíð. Ég held líka að það sé dálítið mikilvægt að fólk viti að rétt eins og það geta ekki allir verið glaðir á jólum, hátíð ljóss og friðar að þá geta ekkert allir verið í stuði með Lóunni þegar henni loks þóknast að bjóða sumrinu í heimsókn. Hins vegar er mjög umhugsunarvert ef hver einasta stórhátíð og hvert sumarfrí fer að vera kvíðaefni í lífi okkar, þá er vert að staldra við og skoða hvað við erum að gera aðra daga ársins vegna þess að það eru þeir dagar sem ákvarða hvernig okkur líður þegar um hægist. Við getum ekki eytt lífi okkar í að veita streitu, gremju og sársauka skjól í hversdeginum og leggjast síðan í kör þegar hann dregur sig í hlé. Ég legg til að þau sem eru á leið í frí máti sig við eitthvað af því sem hér hefur verið sagt og jafnvel setjist niður með sínum nánustu og ræði það sem er framundan. Stundum er þetta er spurning um að opna á hið ósagða á heiðarlegan hátt og ef maður er ekki viss hvað það er að vera heiðarlegur að þá má mæla það út frá því hvort hlutirnir eru sagðir af væntumþykju og þrá eftir því að bæta hjónabandið eða samskipti við aðra í fjölskyldunni.
Stundum er sagt að sannleikurinn sé sár en ég held að hann sé miklu oftar líkn með þraut af því að okkar versta líðan tengist frekar óvissu og óöryggi. Það er líka mikilvægt að láta sumarfríið ekki renna sér úr greipum í bið eftir því að aðrir geri eitthvað skemmtilegt fyrir mann. Það eru æðislega litlar líkur á því þegar einstaklingur er á annað borð orðinn fullorðinn. Þá gengur allt út á það að taka ábyrgð á eigin lífi og skipuleggja það eins og best verður á kosið fyrir mann sjálfan, makann og börnin. Að þessu sögðu óska ég landsmönnum gleði og gæða í sumarfríinu og ef einhver hefur hugsað sér að sleppa því að taka frí af því að hann er svo ómissandi í vinnu þá hef ég þetta að segja: Það er engin manneskja ómissandi öðrum en sínum nánustu og eigin sálarheill.