Lesa meiraGömul djammhandrit "/> Skip to content

Gömul djammhandrit

Síðastliðinn sunnudagsmorgunn fór ég fór út að hlaupa vegna þess að ég er alltaf að reyna að taka á lífi mínu áður en ég verð miðaldra og enginn æska eftir til að borga fyrir mig reikninginn. Á hlaupunum mætti ég ungri stúlku sem var sennilega að ganga heim eftir gleðskap næturinnar, háir hælar, úfið hár og abstrakt augnmálning báru því vitni. Þegar við mættumst sá èg að hún horfði á mig með sektarkennd í hjarta og hugsaði ” já fínt þú ert með allt á hreinu, hlaupandi með þitt asnalega buff á sunnudagsmorgni eftir 10 tíma svefn, nýbúin að slafra í þig chiafræjum í morgunmat.” Mig langaði að hlaupa á eftir henni og faðma hana sem hefði að vísu verið ofbeldi með öllum þessum svita og segja henni að í gær hafi èg borðað pasta með tómatsósu í morgunmat, snakk um miðjan daginn og tvær pylsur í brauði í kvöldmatinn, einmitt vegna þess að èg var að skemmta mèr kvöldið áður.

Ég hefði líka geta sagt nafnlausu stúlkunni frá því þegar við vinkonurnar vorum að skríða heim af djammi á menntaskólaárum okkar og mér varð skyndilega voða bumbult. Þar sem ég var að selja upp nætursyndunum í runna framan við virðulegt hús á Brekkunni hjólaði aðstoðarskólameistari vor framhjá með sína vel þjálfuðu upphandleggsvöðva og yfirvaraskegg. Þess má geta að hann var líka með hjálm sem var nokkuð óvenjulegt um miðbik tíunda áratugarins þegar fólk var nýbúið að uppgötva öryggisbelti í aftursætum bifreiða. Klukkan var sex að morgni og aðstoðarskólameistari var á leið í sund, ekki til að hanga í pottunum og ræða íslenska ættfræði heldur til að synda 3000 metra flugsund áður en hann tæki til við að mennta framtíð þessa lands. Ég get ekki sagt að ég hafi séð sjálfa mig inn í þeirri framtíð, þarna sá ég mig frekar inn í eilífðinni sem augnablikið var.

Ég hef ákveðið að segja sonum mínum engar svona sögur fyrr en ég veit hvert líf þeirra stefnir, kannski munu þeir aldrei nota vín og þá er algjör óþarfi að dusta rykið af gömlum handritum. Ef þeir hins vegar lenda einhvern tíma í því að vakna upp með heiðarlegan móral og leita eftir áheyrn þá ætla ég að rugga sál þeirra í ró með samlíðan þess sem eitt sinn var ungur. Það verður alls ekki gert til að fría þá ábyrgð heldur til að rjúfa einsemd þess sem telur sig algjöran frumkvöðul í mannlegum mistökum. Það er nefnilega enginn frumkvöðull til í þeim geira. Að því loknu mun ég auðvitað hvetja þá til að lenda sem sjaldnast í þeirri aðstöðu að vakna upp með móral, því það er að sjálfsögðu val og það er svo dýrmætt að hafa val.

 

Published inPistlar