Lesa meiraMannanafnanefnd "/> Skip to content

Mannanafnanefnd

Satt best að segja þá hef ég alveg gríðarlega trú á mannkyninu. Ég sinni þannig starfi að ég fæ aftur og aftur að reyna og sjá hvað fólk getur verið viturt og vel meinandi, kærleiksríkt og klárt. Eftir því sem árunum í preststarfinu fjölgar verð ég hreinlega bjartsýnni á framtíðina, mér finnst mannkyninu fara í heild sinni fram og nýjar kynslóðir bæta einhverju mikilvægu við það sem þegar hefur verið uppgötvað. Það má svo sem vera að ekkert sé nýtt undir sólinni en þó er ljóst að á hverri mínútu fæðist ný og einstök manneskja undir þessari sömu sól sem gefur fyrirheit um breytingar. Einmitt þess vegna þarf reglulega að endurskoða viðmið og gildi samfélagsins, þarfir og þjónustu eins og t.d. mannanafnanefnd. Ég efast ekki um að mannanafnanefnd hafi orðið til af einskærri umhyggju fyrir ómálga og ósjálfráða þegnum þessa lands sem eiga bara sakleysið eitt í hjarta sínu og traust á umhverfið. Málið er bara að foreldrar elska börn sín heitar en nokkuð annað í þessu lífi, það er ekki að ófyrirsynju sem Biblían líkir sambandi Guðs og manna við móður sem gefur barni sínu brjóst, „hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu“ segir í spádómsbók Jesaja, hér er verið að lýsa skilyrðislausum kærleika Guðs til manna.

Nú hef ég sennilega tekið mörg hundruð skírnarviðtöl  um dagana( hér er um svokallaðan slumpreikning að ræða) en í skírnarviðtöl koma foreldrar með ungbarnið til að undirbúa athöfnina og ræða inntak hennar ásamt því að færa nafnið til þjóðskrár. Þó skírn og nafngjöf sé tvennt og skírnin  aðalmálið í augum kirkjunnar þá er nafngjöfin auðvitað fyrirferðarmikill þáttur á þessum tímamótum. Foreldrar hafa oft mikla þörf fyrir að ræða nafnið við prestinn, greina frá tengingum við forfeður og mæður, skáldsögur eða drauma. Stundum hef ég verið beðin um álit á þeim nöfnum sem koma til greina, ungur faðir dæsti inn á skrifstofunni minni um daginn  „ það er bara alltof stressandi, að finna nafn á annan einstakling“  sagði hann eftir langa þögn, ég sá að þetta hvíldi þungt á honum því hann hafði ekki mælt orð af munni fyrr en ég spurði um nafnið og þá var örugglega hálftími liðinn af viðtalinu. Það er mín reynsla að foreldrar finni til ríkrar ábyrgðar gagnvart þessu verkefni. Ég hef alveg upplifað að farsímar hringi í kirkjulegum athöfnum eða kveikt sé á sjónvarpinu þegar heimaskírn er að hefjast( þá er oftast enski boltinn á skjánum) en aldrei hef ég upplifað foreldra nálgast nafngjöfina eins og um samkvæmisleik sé að ræða þar sem flest stig fást fyrir asnalegasta nafnið. Ég hef heldur aldrei heyrt foreldra segja hlæjandi frá því að þau hafi fundið nafnið í auglýsingabæklingi frá Elko. Fólk er virkilega að pæla, jafnvel svo mikið að ég veit um bakara sem var nánast uppiskroppa með marsípan af því að foreldrarnir voru alltaf að hringja og breyta nafninu á skírnartertunni. Nú er ég ekki  anarkisti og skil alveg þörfina fyrir ýmis regluverk og nefndir t.d. skilanefndir. Mannanafnanefnd held ég að sé hins vegar tímaskekkja enda er nafngjöf býsna afstætt fyrirbæri, á vissan hátt má tala um smekk. Nú gæti þessi pistill fjallað um reglur mannanafnanefndar er varða nafnahefðir, fallbeygingu, ættarnöfn ofl en ég ákvað að tala frekar um ábyrgð vegna þess að hún er vanmetinn þáttur í umræðunni. Ef svo færi að nöfn á borð við Drusla Björt Baldursdóttir eða Skíthæll Máni Jónsson bærust Þjóðskrá, nú þá er sannarlega komið verðugt tilefni til að fylgjast með heimilisaðstæðum viðkomandi barna enda nöfnin þá mikilvæg vísbending um stærra vandamál.

Published inPistlar