Ég er alltaf að bíða eftir því að Guð segi mér að gera eitthvað annað en að vera prestur. Ástæðan fyrir því að ég fór í guðfræði á sínum tíma og tók vígslu var eiginlega sú að ég hélt að ég gæti ekki neitt annað. Ég var svo sem ekkert námsséní í menntaskóla, afleit í raungreinum og bara svona meðal í öllu hinu. Fékk að vísu alltaf hátt í dönsku, en hverjum er ekki sama. Það voru heldur ekki foreldrar mínir sem hvöttu mig til að fara út í prestskap, ég var ekkert að gera stóra hluti þegar ég fylgdi pabba eftir í hans embættisverkum, spilaði reyndar einu sinni á fiðlu í sunnudagaskóla á Svalbarðseyri og uppskar meira fliss en aðdáun. Þegar ég var nývígð 27 ára gömul og reyndi að ganga í prestaskyrtu innan um annað fólk leið mér alltaf svolítið eins og ég hefði orðið eftir við dimmiteringu í MA, fólk héldi örugglega að það væri ekki runnið af mér. Þá var ég reyndar ekki orðin gráhærð fyrir aldur fram, líkt og nú. Ég hætti fljótlega að ganga í prestaskyrtu af því að ég vildi að fólk vissi að ég væri edrú. Síðan eru liðin tíu ár og mér til mikillar furðu er ég enn í þessu starfi, bíðandi eftir að Guð gefi mér merki um að gera eitthvað annað. Ég hef reynt að ögra honum í hvívetna, fyrst með því að segja honum að ég ætlaði aldrei að lesa alla Biblíuna, að fyrr myndi ég bíta í sundur borð en að lesa fjórðu Mósebók en það hreif ekki enda skrifaði hann ekkert þessa bók og hefur því enga ástæðu til að móðgast. Svo reyndi ég að ögra honum með skrúða prestsins þegar ég tók upp á því að framreiða altarissakramentið í eigin fötum, en það gerðist ekki neitt enda hefur hann eða hún ekki gefið út neinar leiðbeiningar um klæðaval í messum, svo hætti ég að tóna, horfði glottandi til himins og viti menn, ég sem hélt að nú myndi rigna eldi og brennisteini, fór ekki bara sólin skína sem tákn frá Guði um að þetta hafi verið söfnuðinum sannkölluð líkn með þraut.
Ég er bara venjuleg manneskja með frekar viðkvæma og beyglaða sjálfsmynd en þó sæmilegt sjálfstraust á sumum sviðum og Guð veit það. Þess vegna sendi hann mér þá Frosta og Mána um daginn þegar þeir hringdu í mig úr útvarpsþættinum Harmageddon og ég tók áskorun þeirra um að rífast um aðskilnað ríkis og kirkju og bara kirkjuna almennt sem þeim félögum finnst mesta peningasóun í íslensku samfélagi. Guð veit að ég er svolítið svag fyrir svona gaurum sem rífa kjaft og láta eins og þeim sé sama um álit annarra, þeir eru nefnilega mín eigin spegilmynd, ég er Frosti og Máni kirkjunnar. Lítil hrædd manneskja sem bíður eftir því að vera afhjúpuð og þess vegna neitar Guð mér um að hætta, hann veit að það er gagnlegt að hafa svona gallaðar manneskjur í sinni þjónustu. Ég er búin að segja Guði að mig langi til þess að vera rithöfundur en hann hlustar ekki heldur rífur mig fram úr á morgnana og lætur mig skíra börn og gifta og jarða og hlusta á sorgir annarra þegar mig langar í raun bara til þess að fá athygli út á alla mína „stórkostlegu“ hæfileika. Guð sér alltaf við manni, hann veit að ég yrði óþolandi ef ég væri ekki prestur, hann veit að ég myndi hringsnúast í kringum sjálfa mig og fá listræna messíasarkomplexa. En kannski fæ ég að hætta þegar ég hef öðlast þroska til þess. Hver veit?
Ég er Frosti og Máni kirkjunnar
Published inPistlar