Á liðinni aðventu jarðsöng ég konu sem var mikið náttúrubarn. Hún bjó um tíma í sveit og elskaði þar hverja þúfu og blóm, hvern fífil og fagurklukku, fugl og könguló, fjöll og hóla. Einn fagran sumardag stóð hún út í bæjarlæknum og færði til grjót af þeirri yfirvegun og þrautsegju sem henni var svo eiginleg og þegar hún var spurð hverju það sætti var svarið að hún vildi magna upp niðinn í læknum svo hann bærist inn um svefnherbergisgluggann hennar á morgnana. Hún þráði að vakna við náttúruna vegna þess að náttúran er móðirin sem vefur mannkyn reifum með fegurð sinni og hljóðri ást. Þessi kona var mikill umhverfisverndarsinni, því til marks var hún löngu farin að flokka sorp áður en um það varð almenn vitundarvakning hér á landi, þá bjó hún til dýrindis jólagjafir úr endurunnu efni enda hafði hún listrænt auga og var mikil hagleikskona í höndum. Hún var ein af þeim sem vafði lífið reifum. Þar sem ég sat og undirbjó minningarorð með ástvinum hennar sóttu orð jólaguðspjallsins endurtekið á mig “fæddi hún þá son sinn eingetinn, vafði hann reifum og lagði í jötu.” Skyndilega hafði saga þessarar góðu konu leitt huga minn að gjörningi móðurinnar sem ég annars hafði alltaf tekið sem sjálfsögðum hlut, að vefja barn reifum. Og það var sama hve oft ég las guðspjallið sem kveikju að jólaræðu, alltaf nam ég staðar við þessa setningu, þökk sé konunni sem vildi vakna upp við niðinn í bæjarlæknum og lagði á sig að talsvert erfiði til þess að svo mætti verða.
Ég minnist þess að hafa sem móðir beitt þessari aðferð að vefja litlu drengina mína inn í teppi þar til þeir litu út eins og ofvaxnar lifrur og rugga þeim í svefn ef þeir voru ekki sjálfum sér nógir. Þegar sá yngri fæddist man ég að barnavöruverslanir voru farnar að selja þar til gerð teppi með frönskum rennilás sem voru markaðssett sem eins konar nútíma reifar sem einfalt og fljótlegt væri að brúka. Nútíminn nennir ekki einhverju veseni, hann vill bara nota franskan rennilás.
Miðpunktur jólaguðspjallsins er að sjálfsögðu sá óvænti og hugrakki gjörningur Guðs að koma inn í heiminn sem hvítvoðungur, ómálga og ósjálfbjarga mannvera og treysta þannig á að góðmennsku og velvilja mannkyns. Í raun má segja að Guð hafi treyst okkur fyrir guðdóminum og framtíð hans með því að birta hann í litlu barni sem þurfti á mannfólkinu að halda til að lifa og dafna, þess vegna er þessi athöfn þegar María vefur barnið reifum vonarríkasta vísbending guðspjallsins um gæði okkar mannanna. Það er nefnilega svo mikið gott í okkur um það vitna barnsfæðing guðdómsins í helgisögninni frá Betlehem. Við gleymum stundum að skoða jólaguðspjallið út frá því hvað það segir um okkur, ég held nefnilega að snúist ekki síður um það. Við þekkjum það að Guð gerðist maður til að segja okkur að það væri í lagi að vera ófullkominn og til að fullvissa okkur um að hann þekkti og skildi allar mannlegar tilfinningar, þannig rauf hann einsemdina sem verður þegar við teljum okkur frábrugðin normi tíðarandans. Þess vegna er í lagi að vera allskonar í útliti, heilsu og hæfileikum.
Því spyr ég nú: Getur verið að við höfum horft framhjá þeirri trú sem Guð vitnar um okkur í guðspjallinu þar sem hann bókstaflega treystir okkur fyrir sjálfum sér?
Hefurðu hugleitt það að jólaguðspjallið sé ekki bara ástarjátning Guðs til manna heldur trúarjátning? Guð hefur trú á þér, Guð treystir þér. Þess vegna valdi hann einmitt venjulegt fólk, þau Maríu og Jósep frá Nasaret til að fóstra sig, þau voru ung og fátæk og sennilega ekki mjög lífsreynd, en þegar á reyndi stóðu þau sína plikt og vel það, þau virðast hafa valið að vanda sig í samskiptum við hvort annað, jafnvel þótt þessi óvænta þungun hafi kannski ekki verið akkúrat það sem þau vantaði í tilhugalífið, þau virðast hafa farið varlega á ferðum sínum og hugsað leiðina áður en þau lögðu af stað svo þau yrðu nú ekki hungurmorða eða úti í óbyggðum þar sem ýmis villidýr hefðu varla neitað sér um bitann. Þau virðast hafa gefið sér tíma til að hugsa og taka sjálfstæðar ákvarðanir eins og það að flýja til Egyptalands, þau virðast hafa verið hugrökk að hleypa fjárhirðunum og þessum uppáklæddu vitringum að jötunni.
María og Jósep eru allt í kringum okkur. Konan sem ég sagði þér frá í upphafi ræðunnar var jafn mikil María og sú sem fæddi Guðs son. Hún gekk um lífið af sömu virðingu og vafði það reifum eins og áður er lýst.
Þegar við vefjum lífið reifum sköpum við öryggi og hlýju, það er samkenndin sem eru reifar lífsins í stóra samhenginu, samkenndin og viljinn til að hlusta og heyra ólík sjónarmið og síðast en ekki síst ásetningurinn um að vanda sig í orði og verki.
Mig langar til að hvetja okkur sem þjóð til að taka áskoruninni um að vefja lífið reifum, ég lít nefnilega svo á að með því að hafa fæðst á þessu undurfagra landi og inn í þetta góða samfélag hafi Guð haft trú á því að við myndum vefja það sem við höfum reifum og varðveita þannig guðdóminn í náttúrunni og mannlífinu. Getum við kannski vandað okkur örlítið meira í framtíðinni? Getum við lagað samtalið okkar og lagt meiri áherslu á að hlusta og rýna í staðreyndir áður en við kveðum upp dóma og skipum okkur í hópa eins og okkur er svo tamt að gera á netinu? Getum við kannski stundum vandað okkur meira? Getum við líka horft út fyrir landssteinanna og skoðað hvort við getum hleypt fleirum að jötunni eins og þau María og Jósep gerðu, af því stundum finnst mér ég svo heppin að hafa fæðst hér á Íslandi að mér beri að deila gæðum þessa lands með umheiminum rétt eins og María og Jósep gerðu með son sinn? Getum við dreift gjöfum lífsins jafnt eins og þau? Getum við verið óhrædd gagnvart ólíkri menningu og trú eins og þau? Haft hvatningu engilsins að leiðarljósi, að óttast ekki vonina? Ég held nefnilega að við séum stundum svo hrædd við að vona og trúa á gæði manna og miskunnsemi að við skipum okkur í fylkingar áður en við eigum raunverulegt samtal um það sem sameinar og líka það sem felst í gæðum fjölbreytileikans. Vefjum lífið reifum og sköpum öryggi og von í þessum heimi.