Lesa meiraFrúin í Hamborg "/> Skip to content

Frúin í Hamborg

Manstu eftir leiknum Frúin í Hamborg? Í dag er sennilega orðið nauðsynlegt að spyrja þeirrar spurningar því nú eru komnar fram kynslóðir sem hafa ef til vill ekki alist upp við þennan leik. Frúin í Hamborg á nú sennilega ekki roð í snjallsímana þegar drepa þarf tímann á ferðum fólks um landið. Þegar ég var stelpa fórum við fjölskyldan stundum í þennan leik á meðan við hossuðumst í Citróenbílnum á holóttum vegum milli landshluta og þannig hjálpaði frúin okkur bæði að stytta ferðina og halda athyglinni frá bílveikinni sem stundum gerði vart við sig í ofurfjöðruðum bílnum. Hann var eiginlega með svo góða fjöðrun þessi bíll að stundum var maður ekki viss hvort setið væri í bíl eða flugvél. Nema hvað, reglurnar í Frúnni í Hamborg voru aðeins fjórar, þú máttir ekki segja já/nei/svart eða hvítt þegar þú varst spurður hvað þú hefðir gert við peningana sem téð frú hefði fært þér. Mér er minnisstætt hvað maður upplifði sig kláran og yfirvegaðan að ég tali nú ekki um skynsaman þegar manni tókst að eiga langt samtal við spyrilinn án þess að falla í þá gryfju að svara með já eða nei, svart eða hvítt. Þetta minnti svolítið á skautahlaup, maður renndi sér mjúklega á hálum spurningaísnum og gætti þess að fljúga ekki á hausinn í næstu beygju heldur horfði niður fyrir sig í jöfnum hraða til að halda jafnvægi. Auðvitað fór það svolítið eftir dagsforminum hvernig manni gekk að halda sér uppi, við erum öll og alltaf bundin tilfinningum okkar sem hafa líka sitt dagsform hvort sem það ræðst af lífeðlisfræðilegum hvötum eða umhverfi. Stundum var einbeitingin slök og þá var hið svarthvíta já og nei fljótt að koma eða þá að maður nennti ekki að hugsa og datt lóðbeint á hausinn í fyrstu setningu, sérstaklega ef Staðarskáli var að nálgast og maður svangur eða alveg í spreng.

Frúin í Hamborg er ekki lengur vinsæl dægradvöl enda heldur fábrotin skemmtun í samanburði við til dæmis Snap chat og Instagram. Ég sakna þessa leiks, hann var nefnilega ágæt æfing í litríku samtali, ja eins konar jafnvægisæfing milli þeirra öfga sem búa í andstæðum jásins og neisins og þess svarthvíta. Ég sakna þessa leiks og hugsa stundum til hans þegar ég fylgist með samfélagsumræðuna hvert svo sem viðfangsefnið kann að vera. Umræðumenning okkar einkennist af já, nei og svarthvítu sem kemur kannski til af því að tækifæri til tjáningar eru nú mörg og auðsótt sem er út af fyrir sig mjög jákvæð þróun og dýrmæt en um leið viðkvæm og vandmeðfarin. Allt frelsi er viðkvæmt og vandmeðfarið vegna þess að ef það er brúkað án hugsunar og ígrundunar getur það hæglega snúist upp í andhverfu sína, orðið að fjötrum þess sem höndlar það. Stundum finnst mér umræðumenning okkar hér Íslandi standa sannleikanum fyrir þrifum vegna þess að sannleikurinn er þess eðlis að hann fæðist með hríðum ólíkra sjónarmiða, þolinmæðis og auðmýktar. Sannleikurinn finnur auðvitað sinn farveg og mætir okkur fyrr eða síðar í eigin krafti en það breytir ekki því að okkur er ætlað að leita hans í sameiningu og þess vegna búum við flest í samfélagi við aðra, það verður aldrei eins manns verk að leita sannleikans, til þess þarf samtal þar sem menn þora að spegla sannfæringu sína í afstöðu annarra án þess að skella í lás með já eða nei, svörtu eða hvítu.

Ein birtingarmynd hinnar svarthvítu umræðu okkar Íslendinga er tilhneigingin til að sameinast um einn blóraböggul í einu, hvort heldur sem hann er maður eða málefni. Það er að vísu mjög þekkt aðferð til að beina sjónum frá eigin vanda og ábyrgð. Þetta gerist bæði innan fjölskyldna sem og þjóða, stundum þarf hreinlega blóraböggul til að fólk geti lifað af eigin vanmátt eins fáránlegt og það hljómar. Oft næst ekki jafnvægi innan hópa nema hægt sé að sameinast um að kenna einhverjum einum eða einu um vansældina en slíkt jafnvægi er að sjálfsögðu svikalogn og blekking, stundarfró og stöðnun. Stundum held ég að Ísland sé svona déjà vu land þar sem sömu umræðuefni poppa upp á sama tíma að ári, aftur og aftur og aftur. Heilbrigðiskerfi í molum er fyrirsögn sem mér finnst ég hafi heyrt og lesið í mörg ár án þess að ég hafi beinlínis hugmynd um hvað þýðir. Ég veit að þetta þýðir ekki skort á bóluefnum eða sýklalyfjum eins og í mörgum Afríkuríkjum heldur bið eftir nýjum spítala, fleiri stöðugildum og nýrri lyftu, allt skiptir þetta auðvitað máli. Heilbrigðiskerfið skiptir okkur öll máli, þess vegna er það útbreiddasta umræðuefnið og sístætt því öll þurfum við á því að halda.

Við getum öll misst heilsuna sem er eitt það dýrmætasta sem við eigum og öll óttumst við það mjög vegna þess að um leið missum við á einhvern hátt stjórnina yfir eigin lífi. Heilbrigðiskerfið er öryggisnet okkar allra, óháð kyni, kynþætti, kynhneigð, trú eða þjóðfélagsstöðu og þess vegna sameinumst við í óttanum þegar fréttir berast af heilbrigðiskerfi í molum. Og þess vegna erum við öll frekar sammála um að heilbrigðiskerfið þurfi aukið fjármagn en lengra nær þó umræðan ekki vegna þess að það langar engan til að draga sig út úr hópnum sem hefur sameinast um þennan blóraböggul og spyrja: Hvernig á svo að forgangsraða peningum innan heilbrigðiskerfisins? Vegna þess að það er ekki að nóg að dæla peningum, það þarf líka að virkja þá. Ég gæti ekki fyrir mitt litla líf svarað þessu sisvona og samt er ég frekar reyndur áhorfandi heilbrigðisþjónustunnar, bæði sem aðstandandi aldraðra foreldra og tengdaforeldra og sem prestur. Ég veit að íslenska heilbrigðiskerfið státar af frábæru fagfólki, lægstu tíðni ungbarnadauða í heiminum og nokkuð dreifðri þjónustu um landsbyggðina. Ég veit líka að það er notendum dýrt að undirgangast tæknifrjóvgun sem er að mínu mati óásættanlegt og ætti vera forgangsatriði að niðurgreiða. Ég veit líka að sálfræðiþjónusta er ekki niðurgreidd og geðlæknaþjónusta sennilega undirmönnuð, á það rekst ég ítrekað í mínum störfum og syrgi vegna þess að sjálfsvíg eru algengasta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi og í 10.sæti sem dánarorsök allra aldurshópa hér á landi.

Hins vegar er ljóst að bráðaþjónusta er mjög góð og skjótvirk, fagleg og örugg. Ég á bæði reynslu af að fylgja sjúklingi í sjúkrabíl á bráðamóttöku og fara sjálf með sjúkling á bráðamóttöku og að sjálfsögðu eru það mjög ólíkar aðstæður, þar sem maður þarf annars vegar ekkert að bíða og hins vegar að ganga hálfa leið inn í eilífðina vegna þess að maður er ekki í forgangi, það er pirrandi en að sama skapi mjög skiljanlegt. Af hverju ætti maður alltaf að geta gengið að skjótvirki þjónustu hvort heldur sem um blóðtappa eða snúinn ökla er að ræða. Heilbrigðisþjónusta þarf fyrst og fremst að vera örugg og fagleg en ekki skemmtileg og neytendavæn.

En af því að heilbrigðiskerfið er á heljarþröm á Íslandi þá er líka allt annað óþarft í samanburði við það, eða þannig hljómar sko umræðan. Á sama tíma að ári er sömu málaflokkum stillt upp við hliðina á heilbrigðiskerfinu og spurt hvort sé nú nauðsynlegra þannig að allt í einu líður manni eins og þetta snúist einmitt um það að ráða niðurlögum berkla og kíghósta eða greiða nokkrum listamönnum laun fyrir að skapa eitthvað sem nærir andann. Og svo kemur kirkjan með sitt trúarrugl á meðan fólk situr fast í lyftunni í Fossvoginum með skurðhnífinn milli stafs og hurðar og ætlast til að fá einhvern pening til að halda úti galdrasamkomum á sunnudögum í nútímasamfélagi sem er löngu búið að reikna út hvernig heimurinn varð til. Kirkjan með sitt svokallaða mannræktarstarf eins og það sé eitthvað í samanburði við heilbrigðiskerfið af því að eins og við öll vitum þá fæðist maður á sjúkrahúsi, lendir svo á sjúkrahúsi og deyr síðan á sjúkrahúsi og það sem gerist þess á milli skiptir auðvitað engu máli hvorki fyrir lífsframvindu né lífsgæði, eða hvað?

Ég veit að kaldhæðni er ekki fagleg guðfræði en stundum er bara svo erfitt að vera  næs þegar maður er þreyttur, og ég skal viðurkenna að ég er þreytt á umræðumenningu okkar, þessari svarthvítu orðræðu. En af því  að maður á aldrei að enda ræður á neikvæðum nótum allra síst um áramót, ætla ég að koma með jákvæða uppástungu fyrir nýtt ár: Hvað með að ota saman kirkjuliðinu, guðfræðingum og siðfræðingum, heimspekingum, listamönnunum, læknum og lífskúnstnerum, ungum sem öldnum í lifandi umræðu um forgangsröðun í heilbrigðismálum og forvarnir til að seinka notkun okkar á þeirri þjónustu? Hvað með nýjan þjóðfund um heilbrigða þjóðarsál í hraustu samfélagi. Ég skora á okkar góða forseta herra Guðna Th Jóhannesson að grípa þennan bolta af því að hann hefur sýnt að hann hefur litríka hugsun sem og hans góða kona og samverkamaður, Elíza Reid.

Ég held nefnilega að við þurfum bara að komast upp úr ákveðnum hjólförum því ekki skortir þjóðina greind eða getu um það vitna svo mörg afrek á umliðnum árum í ýmsum greinum sem gjarnan eru gerðar upp við þessi tímamót, áramót. Guð blessi komandi ár kæru vinir, Guð gefi okkur æðruleysi til að sætta okkur við það sem við fáum ekki breytt, kjark til að breyta því sem við getum breytt og vit til að greina þar á milli .

Published inPistlar