Lesa meiraBónusbömmerinn "/> Skip to content

Bónusbömmerinn

 

Það kann að vera að eitthvert ykkar hafi einhvern tíma veitt mér athygli þar sem ég hef setið út í kyrrstæðum bíl framan við Bónus í Naustahverfi eins og óþekkur krakki sem fær ekki að koma með í búðina, svolítið skömmustuleg á svip. Ég vona þó að eiginmaðurinn sé ekki að fá baneitrað augnaráð frá samferðafólki mínu sem heldur að nú sé hann með frúna í harkalegri atferlismótun til að venja hana af stjórnlausum frekjuköstum yfir að fá ekki að kaupa Oreo kex og snakk í hverri búðarferð. Nei sannleikurinn er sá að stundum er ég búin að umgangast svo margt fólk yfir daginn að ég get ekki meir, kemst hreinlega ekki inn í búðina og sit því með skömmustulegan svip út í bíl og hlusta á útvarpið meðan eiginmaðurinn kaupir í matinn. En bíddu samt hæg/ur ekki að fara að vorkenna mér, þetta er algjört sjálfskaparvíti og hefur ekkert með annað fólk að gera. Það er ekki eins og Hagi hafi ráðið mig til að vera með grínuppistand í mjólkurkælinum í Bónus í hvert sinn sem ég stíg þangað inn. Ég man heldur ekki til þess að hafa verið beðin um eiginhandaráritun við dömubindarekkann eða spurð hvort ég geti sagt börnunum Biblíusögu í sælgætisdeildinni. Nei, ástæðan fyrir því að ég sit út í bíl er sú að ég er þreytt eftir að hafa gefið af mér yfir daginn og finnst ég ekki geta farið inn í búðina án þess að vera upp á mitt besta,ég verði alltaf að halda andliti, vera glöð og gefandi, elskuleg og umvefjandi og þess vegna vel ég frekar að fara ekki inn í aðstæðurnar heldur sit út í bíl eins og gamalmenni sem gleymt hefur göngugrindinni sinni og kemst því  ekki leiðar sinnar. Eru þetta skynsamleg viðbrögð hjá mér? Stutta svarið er ….Nei. Þetta er hins vegar algengara en þig grunar, ekki síst hjá fólki sem gegnir einhverjum opinberum störfum, þetta er einfaldlega sjálfssköpuð streita, eins og reyndar streitan er oft, sjálfsköpuð, vakin og fóðruð á tilætlunarsemi og dómhörku okkar í eigin garð. Það eru nefnilega við sjálf sem setjum okkur þessar skorður eða markmið eins og þeir jákvæðu myndu kannski orða það og hættum ekki fyrr en skorðurnar eða markmiðin eða viðmiðin eru farin að flengja okkur með vendi svo blæðir undan í taugakerfinu. Hverjum er ekki sama þótt ég fari þreytt og illa upplögð inn í Bónus eða jafnvel á jólabasar í Hofi? Jú nákvæmlega öllum, nema mér með mín óraunhæfu viðmið um að eiga alltaf að vera upp á mitt besta. Kannastu við þetta? Já ég hélt það nefnilega, þess vegna áræddi ég að játa vanmátt minn, jú svona eina ferðina enn.

Talandi um streitu, þekkirðu fólk sem fer alltaf að tala um hvað það hafi mikið að gera hvar og hvenær sem þú hittir það, jafnvel þótt þú sért ekkert að spyrja út í vinnuna heldur langar bara til að eiga skemmtilegt samtal um uppbyggjandi hluti eða það sem er að eiga sér stað þá stundina, þið eruð kannski stödd á dásamlegum tónleikum og hlénu langar þig að tjá aðdáun þína á tónlistinni þegar viðkomandi fer að tala um hvað hann sé alltaf brjálæðislega bissí. Segðu mér… ef þú kafar nú djúpt inn í innsta kima sálar þinnar þar sem einlægnin býr og sinnir hjálparstarfi með óeigingjörnum hætti, myndirðu þá telja að sá fjöldi vinnustunda sem náungi þinn ynnir af hendi í viku hverri væri þér uppspretta undrunar og djúprar íhugunar þegar heim er komið? Nei ég hélt ekki, er ekki sannleikurinn einmitt sá að þér gæti ekki verið meira sama vegna þess að það er ekkert sem þú getur gert í málinu nema kannski benda aðilanum á að skipta um starfsvettvang eða fara í 12 sporin, innst inni veistu hins vegar að samtalið snýst ekki um það?  Í besta falli eru þetta einstaklega óspennandi umræður í versta falli kemur þetta til af því að fólk getur ekki sett sér mörk eða er knúið áfram af bernskri sektarkennd og ótta um að vera ekki elskuvert án þess að gera eitthvað, vinna, sinna, hamast og loks amast. Sú árátta að tala stanslaust um hversu mikið maður hafi að gera er nefnilega oft sjálfsprottin streita líkt og Bónusbömmerinn sem ég játaði hér á undan.

Streita er auðvitað líka fylgifiskur ýmissa áfalla í lífinu, ástvinamissis og atvinnumissis, skilnaðar og veikinda og þá er hún auðvitað ekki sjálfsprottin og þar af leiðandi efni í allt annan pistil sem gæti fjallað um áfallastreituröskun sem er mjög erfitt ástand og ég hef gríðarlega samúð með. Sem betur fer eru áföll frekar undantekning en regla í lífi flestra svo ég held að mér sé óhætt að fullyrða að hin daglega streita sem ég, þú og restin af þjóðinni er að fást við sé að mestu leyti okkar eigið sjálfskaparvíti, við erum sjálfum okkur verst, sem er auðvitað gömul saga og glæný. Og af því að nú er vinsælt að tala um þátt samfélagsmiðla í aukinni streitunútímamannsins þá held ég að þar séum við líka farin að kenna egginu um að hænan hafi verpt á flísarnar og það brotnað. Það er auðvitað ekki Facebook að kenna ef þér finnst ekki nógu fínt heima hjá þér eða þú ekki nógu lífræn í matarræðinu eða ættir samkvæmt sektarkenndinni að vera búin að ljúka MA námi í öllum greinum sem í boði eru við Háskólann á Akureyri, Hólaskóla og Bifröst, heldur þinni eigin órafrænu sjálfsandúð.

Og lýkur þá skömmum og við tekur uppbyggingarstarfsemi eins og vera ber þegar tilfinningar fólks eru í húfi.

Elsku þú, veistu að þegar þú fæddist, slímugur, grenjandi og nakinn og jafnvel búinn að kúka í legvatnið, þá varstu elskaður og elskuð, ekki bara af foreldrum þínum heldur öðru fólki sem beið þess að þú kæmir í heiminn svo það gæti umfaðmað þig og svo auðvitað af Guði sem mun alltaf sjá þig sem þetta slímuga, grenjandi barn þegar hann horfir á þig og verkjar í hverja frumu af ást til þín. Þá skiptir ekki máli hvað þú heitir eða gerir. Jesú verkjar í hjartað af ást á meðan þér finnst þú ekki vera nóg, er það ekki skrýtið? En ef þú varst ekki nóg þegar þú fæddist hvenær heldurðu þá að komi að því kæri vinur? Nei ég spyr bara vegna þess að fram til þinnar hinstu stundar hér á jörðu muntu alltaf geta fundið eitthvað til að valda þér vonbrigðum, eitthvað sem spennir streitubogann örlítið hærra, þetta er bara spurning um í hvað þú vilt eyða tíma þínum af því að það er enginn að biðja þig um þetta og allra síst þeir sem elska þig af öllu hjarta, allt til enda veraldar.

Published inPistlar