Lesa meiraBréf til Jesú "/> Skip to content

Bréf til Jesú

Kæri frelsari Jesús Kristur frá Nasaret í Galíleu.

Á þjóðhátíðardaginn fyrir tæpum fjörutíu árum var ég færð til skírnar við fjölsótta fermingarathöfn í Laufáskirkju við Eyjafjörð. Presturinn var pabbi minn og eitt fermingarbarnanna systir mín. Mér skilst að dagurinn hafi verið sólríkur og fagur, himininn heiður og blár og fermingarbörnin ábúðarfull og stillt þótt systir mín hafi reyndar vafið einhverjum brúnum tuskulörfum um flétturnar sínar tvær rétt áður en krakkaskarinn lagði af stað til kirkju, enn eru því áhöld um hvort mamma hafi fellt tár vegna hárgreiðslu fermingabarnsins eða af djúpri lotningu er skírnarbarnið var vatni ausið og fært í þitt örugga fang elsku Jesús minn. Að minnsta kosti og burtséð frá tískuslysi systur minnar tókstu þarna við mér og gafst mér hlutdeild í upprisu þinni. Fyrir það verð ég ekki bara ævinlega þakklát heldur raunar þakklátari eftir því sem árin líða.

Þú manst kannski Jesús að ég var með ákveðna bænaþráhyggju í bernsku? Fór með minnst tíu bænir á hverju kvöldi, alltaf í sömu röð, kvöld eftir kvöld, ár eftir ár? Þú manst þetta og þó þér hafi bara fundist það fyndið þá fyrirgef ég þér alveg, ég er nefnilega búin að fatta núna að bænalíf er ekki spurning um kunnáttu  heldur berskjöldun, takk samt fyrir að hlusta á alla rununa þarna í denn, ég nefnilega fann að þú varst þarna og það er fyrir öllu.

Þú manst kannski líka að þegar ég kom í framhaldsskóla hafði bænunum fækkað umtalsvert, stundum lét ég meira að segja faðir vorið bara duga, stundum þuldi ég það þvoglumælt eftir skrall, stundum án þess að hugsa um þig, var þá örugglega að hugsa um einhverja stráka en nú hefur víst komið á daginn að þú varstu miklu uppteknari af mér heldur en þeir, takk fyrir að elska mig í sjálfhverfu minni Guð, það er örugglega ekki alltaf auðvelt, um það vitna raunir þínar á Golgata forðum.

Elsku Jesús, nú hef ég oft sagt að á sínum tíma hafi ég hlotið köllun til að verða prestur og þess vegna skráð mig í guðfræði tuttugu og tveggja ára gömul, krúnurökuð og ringluð, þvert á allar spár nánustu vina og ættingja. En við tvö vitum betur, við vitum að ég hafði bara ekki trú á mér í annað. Þú manst kannski þegar ég ætlaði að hætta eftir fyrsta árið í guðfræði og skrá mig í heimspeki, fór meira að segja á fund heimspekiprófessors sem gaf mér góð ráð varðandi skiptin en þá helltist yfir mig óttinn við að vera vingull, ég var alin upp við að klára það sem ég byrjað var á, hvort sem um væri að ræða mat eða menntun.

Þú veist jafn vel og ég Jesús að ég fékk aldrei neina sérstaka köllun til að þjóna í kirkjunni þinni, ég var enginn Páll postuli á leið til Damaskus eða Marteinn Lúther á ríkisþinginu í Worms. Ég var bara óöruggur unglingur með beyglaða sjálfsmynd sem vissi ekkert hvað ég kunni eða gat. Ég hélt af stað í fullkomnum vanmætti Jesús og við vitum það bæði, þú hvorki lattir mig né hvattir nema reyndar þegar pabbi veiktist af alvarlegum lífsógnandi sjúkdómi, þá var eins og ég skildi fyrst út á hvað þetta starf gengi, sérstaklega þegar ég tók hann með mér í kennslustund upp í háskóla og hann starði tómum augum á fyrirlesarann sem hann hafði þekkt frá fornu fari, þá vissi ég að annað hvort væri ég að fara að sinna þessu starfi til að skilja mannleg örlög og reisn eða til að þiggja laun, ég vona að fyrri kosturinn hafi orðið ofan á drottinn minn þó ég viti að mér hafi auðvitað tekið misjafnlega vel upp við það eins og annað.

Nú eru liðin tæp þrettán ár frá því ég varð prestur Drottinn minn og fyrst núna get ég viðurkennt þetta með köllunina, nokkuð sem ég var búin að fullyrða við Pétur og Pál, ég er samt ekki að tala um “legend” Pétur og Pál en þú veist hvað ég meina? Og af hverju er ég að skrifa þér þetta bréf og gera að því er virðist lítið úr ákvörðun minni forðum? Jú vegna þess Jesús að ég held ég sé loks að fatta plottið. Lífið er sem sagt ekki svona dæmalaust hátíðlegt eins og ég hélt þarna forðum þegar ég sagði öllum að ég hefði fengið köllun til að verða prestur, menn verða líka prestar bara fyrir algjöra tilviljun og samt getur það alveg blessast, hjón verða stundum hjón án hátíðlegrar ástæðu en það getur líka blessast. Og þá erum við komin að kjarnanum Kristur, hvernig flest eða allt hefur tilhneigingu til að blessast að lokum og einmitt þess vegna þurfum við ekki að skilgreina öll okkar skref eins og ég hef svo oft haldið heldur einfaldlega treysta þér sem ég raunar geri þó ég sé svona oft reikandi og kvíðin. Ég treysti þér drottinn, þú hefur kennt mér að lífið er ekki kvikmyndahandrit heldur flæði tengsla og tilfinninga, við eigum að taka það alvarlega en alveg passlega hátíðlega, fólk er bara fólk, enginn er öðrum meiri, við gerum öll mistök, ekkert okkar er algott og ekkert okkar alsæmt, við erum misgóð í lífsleikninni en getum sannarlega vegið hvert annað upp ef við nennum að láta okkur nánungann varða og það er kannski heila málið, að nenna að hafa fyrir þessu lífi í stað þess að fylgja einhverjum háum hugmyndum um eigin sigra. Og svo þetta með kirkjuna Jesús, ekkert okkar veit nákvæmlega hvernig þessi kirkja á nákvæmlega að vera, gott hjá þér að gefa ekki nákvæmar leiðbeiningar heldur segja okkur bara að þú yrðir með okkur alla daga allt til enda veraldar. Ekkert okkar veit hvort kirkjan eigi að halda í gamlar hefðir, synda með eða á móti straumnum og hvort hún eigi að vera töff eða klassísk til fara. En við vitum þó eitt, að þú Jesús frá Nasaret ert það sem þú segist vera, þú ert nákvæmlega, algjörlega sá sem þú segist vera, þú ert vegurinn, sannleikurinn og lífið, þú ert upprisan og lífið, þú ert ljós heimsins, upphafsorðið, lambið og fiskurinn. Með öðrum orðum þá ertu blikið í augum barnsins, einlægni mannsins í yfirborðskenndum heimi, ylhlý snerting við dánarbeð ástvinar, þú ert fegurðin í sannleika sínum, hláturinn og gráturinn í hjarta okkar, og bara allt sem fær okkur til að halda áfram að lifa og vona í vanmætti okkar og óvissu. Takk fyrir það góði Guð og amen.

Published inPistlar