Þegar ég var lítil stelpa átti ég mitt eftirlætis jólaskraut sem var Betlehem í glansútgáfu. Hrönn heitin móðursystir mín kom með það um miðja síðustu öld alla leið frá Ameríku og gaf fjölskyldunni. Ég man að við upphaf aðventu setti mamma upp nokkra jólasveina sem pabbi hafði föndrað úr efni sem fékkst í verslun sem mig minnir að hafi heitið Kompan og var til húsa hér í Skipagötu á Akureyri. Jólasveinarnir stóður á arinhillunni alla aðventuna eins og upphitunarband fyrir stórhljómsveit en svo var það ekki fyrr en á Þorláksmessu þegar hinn sætkenndi rjúpnailmur blandaðist hátíðartóni Bjarna Þorsteinssonar úr barka föður míns að Betlehem var sett á sinn stað. Fjárhúsið var búið til brúnum tekkvið sem hefur eflaust verið vinsæll í innanhússhönnun um miðbik tuttugustu aldar og inn í það var þeim Maríu og Jósep troðið sem og einu lambi, asna og örsmáu Jesúbarni í jötu. Jósep var klæddur hversdagslegum brúnum kyrtli eins og hann væri nú ekki nógu hlédrægur fyrir en María bláum eins og vera ber, ekki vegna þess að hún væri í stjórn SUS heldur vegna þess að blár er litur himinsins og María hafði jú himnesku hlutverki að gegna hér á jörðu en það hafa í raun allar fæðandi konur. Einhverra hluta vegna virðist sem fjárhirðarnir hafi ekki fylgt hinu myndræna guðspjalli yfir hafið nema þeir hafi verið stöðvaðir við komuna til landsins, þessir fyrstu hælisleitendur sem ritað er um, það skyldi þó ekki vera gömul saga og ný? Vitringarnir stóðu hins vegar keikir með kórónur á höfði í tilkomumiklum klæðum eins og þeir hafi jafnvel gælt við þá hugmynd að draga athyglina frá aðalpersónu sögunnar. Þeim varð þó ekki kápan úr því klæðinu þótt glæstir væru.
Mig minnir að pabbi hafi stundum klippt ilmandi rauðgreni og sett inn í fjárhúsið til að litlu fjölskyldunni yrði ekki kalt. Þegar grafir voru teknar í Laufáskirkjugarði tíðkaðist einmitt að klæða þær að innan með viðlíka greni svo þær yrðu ilmandi og hlýjar. Kannski svolítið sérstök hugrenningartengsl en einhvern veginn komu þau til mín án nokkurs fyrirvara eflaust til að minna á að þessa helgu nótt vofði dauðinn sjálfur yfir fjárhúskofanum í Betlehem þótt himininn skartaði sinni stjörnufjöld. Dauðinn var í sálu Heródesar konungs.
Ég man eftir því að sitja tímunum saman við litla Betlehem og mæna inn í gripahúsið eins og það gæti hugsanlega orðið til þess að kveikja þar alvöru líf. Ef ég starði nógu lengi myndu þau skötuhjú María og Jósep kannski hvísla einhverju að mér sem enginn annar vissi um atburði þessarar örlagaríku nætur.
Allt rifjaðist þetta upp fyrir mér nú á aðventunni þegar ég klöngraðist upp á háaloft og sótti kassann með Betlehem bernsku minnar í þeim tilgangi að raða því upp með barnungum syni mínum. Hann var auðvitað fullur lotningar yfir fortíðarþrá móður sinnar og því hvernig hún handlék persónur guðspjallsins eins og nýfædda fuglsunga. Til viðmiðunar get ég sagt ykkur að það er langt síðan ég glataði stúdentshúfunni minni í búferlaflutningum og öll prófskírteini eru jafnframt svo vandlega geymd að þau hafa ekki fundist þar sem við búum núna. Betlehem bernsku minnar lýtur hins vegar öðrum lögmálum. Betlehem fylgir mér milli landshluta og heimila eins og heilög samtenging allra minna æviskeiða.
Já ég beið þess forðum að unga parið segði mér eitthvað sem enginn annar vissi um þessa nótt í Betlehem þegar sjálfur frelsarinn var fæddur og fjárhirðar og vitringar drifu að sænginni og englaskarinn lýsti upp himinhvolfið og heimur varð nýr.
Með árunum hef ég hins vegar komist að því að hver einustu jól opinbera manni auðvitað nýjan leyndardóm um þá nótt er dauðinn vofði yfir en lífið var englum vafið og máttur þess hvíldi í hjarta hins nýfædda barns. Jólin hvísla alltaf nýjum sannleika að hverju og einu okkar. Hver jól eru endurskin þess sem við höfum lifað á þann hátt að þau afhjúpa kjarnann sem í okkur býr og sá kjarni kallast bernska. Þess vegna eru jólin ekki bara hátíð barnanna, þau eru hátíð bernskunnar, bernskunnar í sál okkar allra, í sálu þinni og minni. Einu sinni á ári stendur bernska mannkynsins nakin og varnarlaus frammi fyrir helgi jólanna. Þess vegna minna jólin okkur á mikilvægi þess að hlúa að hverju barni í uppvexti þess, inn á heimili, í skóla, við tómstundir og leik og að gleyma því aldrei að hver einasta manneskja sem gengur á þessari jörð var eitt sinn barn sem bjó við tilteknar aðstæður með sterkt eða veikt bakland og þegar mikið liggur við bæði í gleði og sorg þá brýst barnið litla fram úr sálarfylgsnum fullorðinsáranna og það getur bæði verið mjög fallegt og gott en líka sárt og erfitt. Þess vegna er æska sérhvers manns ekki bara formáli lífsbókarinnar heldur einnig meginmál og lokaorð.
Ég held að það séu margar ástæður fyrir því að Guð kom í heiminn sem ungbarn, með því vildi hann meðal annars segja okkur að ekkert okkar sé hafið yfir það að þiggja leiðsögn, hjálp og umhyggju annarra fyrst hann sjálfur frelsari heimsins gat komið og þegið umhyggju og leiðsögn þessara ungu og óreyndu foreldra frá Nasaret.
Með því að koma í heiminn sem barn var Guð jafnframt að segja vð okkur að vonin hvíli ekki bara í styrk okkar heldur líka vanmætti, að þegar við upplifum barnslegan vanmátt okkar þar sem hugurinn baðar út öngum og hjartað grætur erum við kannski einmitt að taka út nýjan þroska. Já er við neyðumst til að afklæðast öllum okkar lærðu varnarviðbrögðum og endurfæðast til nýrrar þekkingar um okkur sjálf og umhverfið, nokkuð sem gerist þegar við stöndum á krossgötum í lífinu.
Með því að koma í heiminn sem barn var Guð líka að minna okkur á mikilvægi hinna barnslegu eiginleika og biðja okkur um að týna þeim ekki, vegna þess að þá fyrst missum við sjónar á fjöreggi lífsins sem er fegurðin allt í kringum okkur, fegurðin í mannlífi, náttúru, menningu og listum, sögu og fróðleik. Ef við hættum að vera forvitin, einlæg og eftirvæntingarfull er hætt við að lífið verði aðeins
brauðstritið eitt í grámyglu efnishyggjunnar.
Með því að koma í heiminn sem barn var Guð að segja okkur að hann hefði trú á gæsku mannkyns og getu okkar til þess að annast það helgasta af öllu heilögu sem er auðvitað barnið því sérhvert barn er sjálfur Guð í eigin sköpun. Ekki nóg með það, Guð treysti okkur fyrir sér sjálfum á meðan hann var sjálfur barn, ég segi okkur því María og Jósep eru í raun bara ég og þú. Og enn sýnir hann okkur þetta traust, því enn fæðast börn sem eiga allt sitt undir okkar ákvörðunum um framtíð jarðarkringlunnar en framtíð hennar, móður jarðar býr í umhverfis og loftslagsmálum, í jafnréttisbaráttunni, í upprætingu kynbundins ofbeldis og þöggunar og í tjáningarfrelsinu svo fátt eitt sé nefnt. Enn erum við minnt á ábyrgð okkar gagnvart barninu, gagnvart Guði. #Metoo byltingin og #höfumhátt varðar einmitt barnið sjálft, barnið í jötunni og barnið í sérhverri sál.
Með því að koma í heiminn sem barn var Guð ennfremur að segja okkur hve mikils virði hvert og eitt okkar er í frumgerð okkar, án allra titla, prófgráða og persónulegra afreka, sú vitneskja hvílir einmitt í gjöf skírnarinnar þegar barnið er fært í fang frelsarans. Vitringarnir lutu barninu, fjárhirðarnir lutu barninu, himinninn laut barninu, barninu sem er sannleikurinn og svarið í öllu sínu veldi. Barninu sem er leyndardómur jólanna.