Lesa meiraOg bara ein spurning. "/> Skip to content

Og bara ein spurning.

Stundum þarf bara eina spurningu eins og þá sem útvarpsmaðurinn bar fram á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun og til verður heil ræða. Spurningin varðaði það hvernig við gætum tekist á við gráan hversdagsleikann eftir að hafa notið birtu jólanna og hátíðleikans sem umlykur okkur í desembermánuði. Svar mitt við spurningu útvarpsmannsins var í stuttu máli það að jólin ættu í raun að vera grundvöllur hversdagsleikans allan ársins hring. Jesús tjaldaði ekki til einnar nætur hér á jörð þótt hann hefði skamma viðveru í Betlehem forðum. Þess vegna á boðskapur jólanna um frið og kærleika og samkennd að vera undirtónn hvers dags sem við lifum. Ég er stundum spurð að því sem prestur hvort það sé ekki óvenju mikið að gera hjá mér um jól og fylgir þá spurningunni jafnan sá hljómur að það hreinlega hljóti að vera, svar mitt kemur því mörgum á óvart því sannleikurinn er sá að verkefni prestsins um jól eru í raun þau sömu og aðra daga ársins. Fólk deyr og fólk syrgir, giftir sig og lætur skíra börn, menn takast á við kvíða og einsemd og þá er svo merkilegt að fátækt og félagsleg einangrun er ekki bara til staðar um jólin. Það er auðvitað mjög fallegt og elskulegt að skynja hlýhug samfélagsins á jólum þegar fólk hefur samband við prestinn og vill gefa mat og föt og ýmsan varning til þeirra sem minna hafa, svo sannarlega er það þakkarvert en á sama tíma vekur það upp í manni ákveðna gremju vegna þess að þetta er viðvarandi vandi í okkar samfélagi og þess vegna er Hjálparstarf kirkjunnar einmitt starfandi allan ársins hring með sína innanlandsaðstoð.
Ég tek það fram að ég gleðst yfir öllu sem rétt er að kirkjunni fyrir og um jól til hjálpar bræðrum og systrum en ef ég hugsa um þá tíma sem við lifum nú þá er fátækt á Íslandi svolítið eins og að sjá einhvern reykja í bíl með barn í aftursætinu, stingandi tímaskekkja sem á sér engar málsbætur.
Fátækt á Íslandi er ekki vegna þess að engu sé til að dreifa heldur vegna þess að við höfum almennt ekki nógu miklar áhyggjur af skiptingunni, nema kannski um jól. Fátækt er hins vegar ekki óbreytanlegt náttúrulögmál. Í dag er líf okkar svo fullt af tækifærum til framþróunar vegna nærtækra upplýsinga og tækni að það eina sem þarf til að snúa við óréttlæti og ójöfnuði er viljinn til að vanda sig. Viljinn til að vanda sig eflist ekki síst með því að lifa andlegu lífi. Manneskjan fæðist ekki vandvirk, hún verður það með góðu uppeldi og leiðsögn. Viljinn til að vanda sig hefur ekkert með stétt eða stöðu að gera heldur ræktun manneskjunnar frá fyrsta degi. Þess vegna held ég að við þurfum síst af öllu á því að halda að trúarleit og iðkun mannsins sé töluð niður, vilji mannsins til að lifa andlegu lífi er um leið viðleitni til að vanda sig. Verum opin fyrir trúariðkun annarra og kynnum okkur önnur trúarbrögð, verum upplýst í stað þess að lesa eigin fordóma inn í viðleitni fólks til að vanda sig. Og p.s. fólk getur líka vandað sig þótt það eigi ekki trú, það er ekki inntak þessara pælinga ef einhver skyldi vera tilbúinn með heykvíslina, ég ber fulla virðingu fyrir trúleysi fólks.

Published inHugleiðingar