Mér finnst fólk mjög fallegt og gott. Þegar maður er nálægt fólki gerast ákveðnir töfrar sem ekki nást í gegnum síma eða tölvu, töfrarnir birtast í augnaráði og svipbrigðum,nærveru, hlýju, krafti, orku, brosi, kímni, gagnkvæmum skilningi með og án orða, rósemd, hrifningu, kærleika, umburðarlyndi gagnvart skoðunum og skringilegheitum, hvatvísi og örlyndi.
Við höfum svo gríðarlega mikla getu til að umgangast allskonar fólk í návígi vegna þess að þegar við erum í sjónlínu og snertingu við manneskjur þá langar okkur til að reynast vel, sýna umburðarlyndi og virðingu. Þá skynjum við lifandi nærveru og af því að við erum tilfinninga og siðferðisverur horfum við ekki svo glatt framhjá tilfinningum og líðan annarra í hinni lifandi nærveru. Við getum leyft okkur að hugsa og segja leiðinlega hluti um fólk sem er fjarri en þegar við hittum það augliti til auglitis þá verðum við ósjálfrátt fyrir áhrifum af mennskunni sem tengir okkur öll saman, þess vegna á mannkynið alltaf von.
Samfélagsmiðlar eru ekki raunmynd samfélagsins vegna þess að þar vantar einmitt alla töfra mennskunnar, samfélagsmiðlar eru samt ágætir til síns brúks, til auglýsinga, tilkynninga, hamingju og samúðaróska, brandara og hressandi sagna en sem samskiptaform geta þeir þó aðeins verið hækja en ekki grunnur. Mér finnst gaman að fletta í gegnum samfélagsmiðla og geri það talsvert og ætla mér svo sem ekki að hætta því en mig langar samt að hvetja okkur öll til að varðveita töfrana í nærveru annarra, ég veit að það breytir ásýnd samfélagsins og minnkar streitu, það er að minnsta kosti mitt áramótaheit fyrir árið 2018.
Áramótaheit 2018
Published inHugleiðingar