Lesa meira#meToo og uppeldið "/> Skip to content

#meToo og uppeldið

Í #meToo byltingunni hef ég mikið velt fyrir mér ábyrgð minni sem uppalanda tveggja ungra drengja. Drengirnir spegla nefnilega samskipti okkar hjónanna, orðræðuna á heimilinu, hvernig við horfum á hvort annað, ávörpum hvort annað, virðum framlagt hvors annars til þessarar sameiginlegu lífsbaráttu okkar. Þeir skoða hvað pabbi er að horfa á í sjónvarpinu og á netinu, hvernig hann talar almennt um konur, hvort hann hafi helst orð á stórum brjóstum og stinnum rassi eða hvort hann heyri það sem konur eru að segja í fréttum og á opinberum vettvangi og taki það gilt, taki yfirhöfuð á mark á konum. Er pabbi í beyglum yfir því að hlusta á hinn nýja forsætisráðherra flytja áramótaávarp og gerir grín að því hvað hún sé lítil og stelpuleg eða fer hann strax að tala um inntak þess sem hún hefur að segja af því að fyrir honum er algjört aukaatriði hvernig ein valdamesta manneskja landsins lítur út hvað hún er há og þung og hvernig röddin hljómar. Drengirnir spegla líka afstöðu mína til föður þeirra, vil ég láta hann sjá um mig eða ætlum við að hugsa um hvort annað af því að við erum jafningjar? Það er ekki bara það sem ég segi við þessa syni mína um samskipti kynjanna sem skiptir máli heldur það sem við foreldrarnir segjum við hvort annað í návist þeirra.

Published inHugleiðingar