Lesa meiraGuð er tónlist "/> Skip to content

Guð er tónlist

Mér skilst að hljóð og snerting sé það síðasta sem við mannfólkið skynjum þegar allt annað er frá okkur tekið. Þegar orð festa ekki lengur rætur sökum veikinda  er lykil mannlegar tengsla að finna í tónlist og snertingu. Oft hef ég upplifað að sitja við sjúkrabeð þar sem enginn segir neitt en ástvinur heldur í hönd hins sjúka og um loftið berast tónar úr litlu útvarpi á náttborðinu. Oft er það nóg og engu við að bæta, kærleikurinn er ekki endilega alltaf svo ræðinn en hann kann að skapa nánd án orða.

Ég held að tónlistin sé vöggugjöf skaparans til að auðvelda okkur lífsgönguna, af því að gangan er ekkert alltaf auðveld eins og við öll vitum. Það er svo merkilegt með tónlistina að hún hefur einhvern allsherjar aðgang sem orð hafa ekki, tónlistin er eiginlega masterlykill að lífinu. Ef við tökum bara kirkjuna sem dæmi og kirkjulegar athafnir þá er það einfaldlega þannig að við myndum aldrei lesa eða flytja hvaða texta sem er við kirkjulegar athafnir, það sem við segjum verður að hæfa tilefninu og má ekki særa, við förum ekki með Hafnfirðingabrandara í stað ritningarlesturs við guðsþjónustu sunnudagsins, við segjum ekki klámbrandara við brúðkaup eða tölum um verðtryggingu við skírn og erfðamál við útför. Nei þegar kemur að orðum verðum við að vera á tánum og hugsa hvert skref og gæta þess að særa ekki mannshjartað eða vanhelga viðkvæmustu og gleðiríkustu stundir í lífi fólks.

Þegar brúðhjón koma til mín í undirbúningsviðtal fyrir stóra daginn ræðum við að sjálfsögðu um tónlistina sem á að hljóma við hjónvígsluna og þá segi ég alltaf það sama vegna þess að það er bara mín reynsla: Öll tónlist á rétt á sér í kirkju, öll tónlist er Guði þóknanleg en textar  verða að hæfa tilefninu og þá þarf að lesa og íhuga. Stundum er það þannig að við eigum okkur eftirlætis lög en höfum aldrei spáð eitthvað í textann. Ég held að í augum Guðs sé tónlistin eins og við mannfólkið, öll jafn merkileg og mikilvæg og elskuð og einmitt þess vegna á allt fólk líkt og öll tónlist erindi inn í kirkjuna. Tónlist er framlenging á sálarlífi okkar, hún er tilfinning án orða, huggun án orða, líkn án orða, gleði án orða. Tónlistin fer ekki í manngreinarálit, spyr ekki um stétt né stöðu, afrek eða mistök. Tónlistin spyr ekki um gróða, mætir engum af græðgi heldur umvefur þig og þína, kærleikurinn er tónlist, Guð er tónlist.

 

 

Published inHugleiðingar