Lesa meiraÆtlarðu bara að hvílast þegar þú ert dauður? "/> Skip to content

Ætlarðu bara að hvílast þegar þú ert dauður?

Ertu útbrunnin? Spurði konan sem settist gegnt mér í matsalnum á fyrsta degi dvalar minnar hér á Heilsuhælinu í Hveragerði. “Nei nei ég er bara þreytt” svaraði ég afsakandi og hugsaði með mér að kannski hefði ég bara átt að svara spurningunni játandi og bæta síðan við að ég væri svo sjúklega útbrunnin að ég gæti alls ekki haldið uppi samræðum við ókunnuga en fannst það kannski helst til of harkaleg viðbrögð í garð konunnar sem eflaust vildi vel. Eftiráhyggja var reyndar ágætt að hún skyldi spyrja, þá neyddist ég til að segja upphátt og hnitmiðað hver ástæða dvalar minnar er, sem er einfaldlega sú að ég er þreytt. Ég verð fertug í næsta mánuði en er enn á þeim stað í lífinu að halda að ég megi ekki tala um eigin þreytu, eins og það sé bara eitthvað sem fólk geti orðað í fyrsta lagi um sextugt eftir tvö hjartaáföll og þrjár meðferðir á Vogi. Ég sleit barnsskónum í tíðaranda sem hló að tilhugsuninni um að ungt fólk  gæti orðið þreytt, ég man eldra fólk segja að maður gæti nú bara sofið þegar maður væri dauður og svo rifjaði það í sömu andrá upp vinnuhörkuna sem það mætti í sveitinni þar sem menn sváfu raunar bara til málamynd yfir blánóttina og dreymdi þá eflaust kýr og girðingastaura og fóðurblöndu svona til að vera ekki algjörlega verklausir í koju. Málið er að við þurfum ekki endilega að brenna út í starfi til að staldra við og hlusta á eigin andardrátt eins og ég geri þessa dagana hér á hælinu. Ég elska starfið mitt og hlakka til að takast aftur á við það þegar ég er búin að hvíla mig. Þreytan er eins og sorgin, eðlilegt viðbragð við of miklu líkamlegu, tilfinningalegu eða andlegu álagi. Þreytan á sér meira að segja ákveðnar birtingarmyndir ekki ósvipaðar sorginni þó svo að sorgin sé auðvitað í eðli sínu sárari og djúpvirkari enda afleiðing af óbætanlegum missi.

Doði, söknuður, reiði, depurð, sektarkennd, samviskubit og skömm eru þekktar sorgartilfinningar en birtast líka við langvarandi þreytu, þreyta er nefnilega ástand sem við megum ekki hundsa sama hversu ung eða gömul við erum og hvaða hlutverki eða starfi við gegnum. Þreyta er heldur ekki einkamál þess sem hýsir hana vegna þess að hún hefur áhrif á öll tengsl og samskipti, ég er nokkuð sannfærð um að þónokkrum hjónaböndum hafi í gegnum tíðina lokið einfaldlega vegna þess að fólk var of þreytt, ekki á hvort öðru heldur bara í og með sjálfu sér. Þreyta hefur líka áhrif á það hvernig við skilum vinnunni okkar, hvernig við ölum upp börnin okkar og þegar við erum þreytt erum við líka útsettari fyrir ýmiss konar fíkn. Þegar við verðum of þreytt er eins og hljóðeinangrandi gleri sé komið fyrir milli okkar og lífsins, við erum þátttakendur í lífinu en samt ekki, erum sýnileg bak við glerið en finnum ekki ilminn af sköpuninni, heyrum ekki hlátur barnsins þótt barnið hvíli í fangi okkar, sjáum makann breytast í stöðumælavörð hjónabandsins, matur verður að vana en ekki nautn, tónlist að hávaða en ekki tjáningu, náttúran að auglýsingaskilti, veðrið að álögum. Fólk breytist í fífl. Hrokinn þokast nær. Þreyta er dauðans alvara, jafnvel í bókstaflegri merkingu. Það er ekki eðlilegt hvernig við upphefjum vinnualkann hér á landi, að vinsælasta spurningin í kælinum í Bónus sé jafnan “er ekki brjálað að gera?” Eins og það sé einhvern tíma áhugavert umræðuefni. Næst ætla ég að svara spurningunni neitandi, það er markmið mitt með dvölinni á hælinu “ Nei veistu það er ekki brjálað að gera hjá mér, vegna þess að mig langar ekki lengur til að vera brjáluð en lífið er gott, ég sé liti, heyri hljóð og finn ilm af vori og mér finnst fólk fallegt, hvað segir þú annars gott?”

 

 

Published inHugleiðingar