Skaðlegasta lífsafstaða sem hægt er að tileinka sér er að vera fórnarlamb. Og taktu eftir þegar ég segi, að tileinka sér. Við tölum réttilega um fórnarlömb ofbeldis, náttúruhamfara og stríðsógna til að undirstrika hversu miklar þjáningar þau hafa upplifað. Þannig er orðið fórnarlamb mjög gagnlegt og gagnsætt orð. Þegar við tölum um fórnarlömb utanaðkomandi ógna erum við að vísa til saklausra einstaklinga sem eiga sér einskis ills von en eru allt í einu lentir í skelfilegum aðstæðum og þjáningum sem okkur hryllir við að fólk líði. Að þessu leyti er hugtakið fórnarlamb eðlilegt og réttmætt hugtak. Þó er alls ekki samasemmerki milli þess að vera annars vegar raunverulegt fórnarlamb aðstæðna og hins vegar að upplifa sig vera fórnarlamb lífsins. Vart hef ég tölu á þeim manneskjum sem ég hef þjónað í preststarfinu, fórnarlömbum skelfilegra aðstæðna sem samt sem áður upplifa sig ekki í því hlutverki, þrátt fyrir sorgir sínar og þjáningar.
Sem prestur þjóna ég fólki sem glímir til dæmis við miskunnarlaus veikindi þar sem batahorfur eru engar, fólki sem þolað hefur ofbeldi eða horft á eftir börnum sínum í dauðann. Sem prestur hef ég þurft að tilkynna börnum andlát foreldra og ungu fólki andlát maka og þannig mætti lengi telja. Ég hef eins og margir kollegar mínir upplifað hreint óbærilegar sorgir fólks sem myndi samt aldrei skilgreina sig sjálft sem fórnarlömb vegna þess að í huga þess er engin fró í því. Auðvitað á engan að langa til að vera fórnarlamb þótt eðlilegt sé að leita samkenndar í umverfinu þegar eitthvað bjátar á en það er líka allt annar hlutur.
Það sem skilur á milli þeirra sem rísa upp úr þjáningunni og þeirra sem ekki gera það er viljinn til að hafna fórnarlambshlutverkinu. Tökum sem dæmi hjónaviðtöl sem við prestar þurfum að sinna í nokkru mæli í viku hverri. Einu sinni hélt ég að ég væri alveg rosalega flínk í svona hjónaviðtölum, ímyndaði mér að væri hreinlega bara næsti Dr Phil Íslands þegar kæmi að því að leysa úr vandamálum sambúðarfólks, var bara svolítið góð með mig þar til skellurinn kom. Ég uppgötvaði sem sagt að þetta hefði fjandakornið bara ekkert með mig að gera ekki frekar en gæði giftingaahafnanna sem ég sá eftir nokkurn tíma að voru hvorki bundin frammstöðu Páls Óskars að syngja Ást við fyrstu sýn eða ræðusnilld minni heldur einfaldlega afstöðu brúðhjónanna til stundarinnar, hvort þau/þær eða þeir væru andlega á staðnum og með hjörtun samstillt í elsku sinni. Ég uppgötvaði sem sagt að ég gæti talað milli tvennra hjóna á einum degi, verið algjörlega jafn vakandi í báðum viðtölum þar sem eðli vandans væri svipað, samskiptaleysi og nándarleysi sem er í raun vandi allra hjóna sem líður illa, með dass af alkahólisma hér og hvar, en samt náð engum árangri með önnur hjónin en alveg sprúðlandi með hin. Og þá sá ég að þetta snerist ekkert um mig heldur getu hjónanna til að hjálpa sér sjálf. Ég tek það fram að það eru alveg nokkur ár síðan ég uppgötvaði þetta í starfinu og það var einmitt þá sem ég fór fyrst að slaka á og njóta þess að vera í þjónustu. Þess vegna er það fyrsta sem ég segi við fólk þegar það sest niður á skrifstofunni minni eftirfarandi: „ Sæl og velkomin, ég mun ekkert leysa fyrir ykkur hér, mitt hlutverk er aðeins að halda uppi spegli á aðstæður ykkar með spurningum og virkri hlustun, þið vitið betur en ég hvernig ykkur líður en með því að sitja hér með mér í trúnaði eru líkur á að ókláruð samtöl verði loks kláruð og ósagðar tilfinningar lagðar á borðið og þá munu þið kannski vita hvert leiðin liggur en ég er ekki að fara að taka neina ákvarðanir fyrir ykkur fullveðja fólkið.“
Munurinn á þeim sem komast áfram hver svo sem niðurstaðan verður og hinna sem festast á sama stað er afstaðan til fórnarlambshlutverksins, með öðrum orðum þá er ekki hægt að hjálpa fólki sem vill vera fórnarlamb. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að sá sem byggir sjálfsmynd sína á að vera fórnarlamb og lifir sig inn í það hlutverk, heyrir öll ráð, alla nærveru, velvild, umhyggju, uppörvun og hvatningu sem ásökun og þegar maður heyrir allt sem ásökun þá festist maður eðlilega í sársaukanum, þá eru allir á móti manni, enginn skilur mann, enginn sem vill hjálpa.
Veistu ég hef alveg verið þarna og þú líka og við vitum bæði/báðar að þetta er vondur staður að vera á. Veistu annað, það er ekki til neitt fólk, engir læknar, sálfræðingar, félagsráðgjafar né prestar sem eru að fara að vinna á þér einhver kraftaverk, þetta er bara fólk eins og ég og þú með ákveðna þekkingu og starfsreynslu í farteskinu sem að getur liðsinnt þér ef þú ert sjálfur/sjálf tilbúinn að taka ábyrgð á líðan þinni og heilsu. Þetta er bara fólk sem verður líka skíthrætt og kvíðið og lifir við sitt sveiflótta sjálfstraust. Ég hef sjálft fylgt nokkrum ástvinum mínum eftir í erfiðum veikindum og vitnað að enginn gerir neitt meira fyrir þá en þeir eða við sem næst þeim stöndum erum tilbúin að biðja um og þiggja, sem ég skil mjög vel, jafnvel þótt sumir þeirra séu nú horfnir á vit feðra sinna og ég sakna.
Staðan er þessi og hún mun aldrei breytast, sama hversu miklu fé verður varið til heilbrigðismála, sama hversu margir fagaðilar verða kallaðir á vettvang, farsæld þín sem fullveðja manneskju verður ætíð bundin vilja þínum til að lifa af og rísa upp til nýs dags.