Lesa meiraLjósmæður í lífi og dauða "/> Skip to content

Ljósmæður í lífi og dauða

Í kveðjuræðu sinni í Jóhannesarguðspjalli veitir Jesús lærisveinum sínum virka sálgæslu vegna eigin aðsteðjandi dauða. „Hryggð ykkar mun snúast í fögnuð“ segir hann og síðan útskýrir hann sorgarferlið með myndlíkingu barnsfæðingarinnar, mynd sem margar mæður þekkja „ þegar kona fæðir, segir Jesús, er hún í nauð því stund hennar er komin en þegar hún hefur alið barnið minnist hún ekki framar þrauta sinn af fögnuði yfir því að maður er í heiminn borinn. Ég nota þessa myndlíkingu oft þegar ég mæti syrgjendum, það er að segja til að útskýra sorgarferlið og undirstrika hversu eðlilegt og náttúrulegt ferli það er, já rétt eins og fæðing barns. Að vísu er alltaf sá möguleiki fyrir hendi að eitthvað fari úrskeiðis við barnsfæðingu eins og í sorgarferlinu, stundum endar fæðing í bráðakeisara og sorg í djúpu þunglyndi eða fíkn en oftast nær gengur bæði sorgin og fæðingin eðlilega fyrir sig þótt mikið mæði á manneskjunni á meðan. Að syrgja er að vera með hríðar þar sem hver hríð er ígildi sorgartilfinningar og sorgartilfinningar krefjast krefst tíma og öndunar en eru um leið svo nauðsynlegar til þess að fæða ákveðna sátt eða aðlögun inn í breyttan heim.

Í báðum tilvikum þarf manneskjan á ljósmóður að halda, í mínum huga hefur kirkjan það hlutverk að vera ljósmóðir mannskjunnar í sorgarferlinu. Kirkjan mætir sorginni sem eðlilegu og náttúrulegu viðbragði við missi og gengur inn í það hlutverk að hjálpa fólki að anda út flóknum en líka fallegum tilfinningum, já allt frá sektarkennd til hins ómengaða söknuðar. Kirkjan mætir ekki með tangir eða spritt  í sorgarhúsið heldur með von, mannskilning og kærleikskompás í farteskinu. Hún mætir ekki með Biblíuna með sér eða guðfræðilega varnarræðu fyrir tilgangi þjáningarinnar heldur einungis samfylgd fólks sem sækir styrk og hugrekki til Jesú og býr að þekkingu og reynslu úr starfinu, það er í raun allt og sumt en samt svo magnað og máttugt og merkilegt. Kirkjan er nú orðin býsna vön því að fagmennska hennar sé dregin í efa, þegar talið berst að áfallahjálp í opinberri umræðu heyrast oft háværar raddir sem efast stórlega um að kirkjan hafi þar nokkuð gagnlegt fram að færa og þess vegna blasi við að þeir peningar sem fari til kirkjunnar eigi miklu fremur að fara í að niðurgreiða sálfræðiþjónustu. Í því samhengi langar mig að segja þrennt. Í fyrsta lagi væri mjög gagnlegt fyrir bæði kirkju og þjóð að fram færi endanlegur aðskilnaður ríkis og kirkju enda þráður þessa fyrirkomulags orðinn býsna þunnur og eðlilegt  að á hann sé skorið í fjölmenningarþjóðfélagi. Í öðru lagi á sálfræðiþjónusta að vera niðurgreidd af ríkinu og aðgengileg öllum óháð efnahag, það segir sig sjálft samfara aukinni vitneskju okkar um eðli geðkvilla og andlegra meina og þeirra bjargráða sem felast í góðri sálfræðiþjónustu. Í þriðja lagi langar mig svo að segja, ekki bara með fullri virðingu fyrir sálfræðingum heldur í raun aðdáun þess sem lifir sjálf við geðkvilla og hefur notið þjónustu þeirra að sálfræðingar eru ekkert endilega gagnlegasta stéttin í sorgarúrvinnslu. Sálfræðingar vinna með veikindi og raskanir og allt sem út af ber, þeir eru fæðingarlæknarnir með tangirnar sem koma til skjalanna ef ferlið gengur illa fyrir sig. Kirkjan er miklu betur til þess fallin að gegna ljósmóðurhlutverki í sorgarúrvinnslu fólks í raun burtséð frá trú eða trúleysi þiggjandans, þetta snýst einfaldlega um að nýta góða krafta og festast ekki í prinsippinu um að hafa eina algilda afstöðu til allra hluta heldur horfa á þörf manneskjunnar í hverju tilviki.

Samfylgd kirkjunnar í sorg felst ekki í guðfræðilegum vangaveltum heldur getunni til að vera til staðar, ganga inn á heimili fólks, hjálpa því að undirbúa athafnir þar sem ástvinur er kvaddur í fegurð og með reisn, kalla saman fjölskyldur, vera fundarstjóri og skipuleggjandi í undirbúningi kveðjustunda, leiða kveðjustundir, rækta tengslin eftir útför og fylgjast með því hvernig syrgjendum reiðir af og það sem meira er hjálpa þeim svo til sálfræðings, geðlæknis eða hómópata ef sorgarferlið gengur ekki sinn vanagang. En síðan má ekki gleyma mikilvægu hlutverki fjölskyldu, vina og kunningja sem sinna oft aðal sálgæslunni og áfallahjálpinni því áfallahjálp er auðvitað í grunninn staðgóð samfylgd vel meinandi fólks sem nennir og þorir að hlusta og vera til staðar, kannski lengur og oftar en aðrir. Áfallahjálp er engin geimvísindi þótt vissulega sé nú betra að hafa nokkuð skarpa einstaklinga til að sinna henni. Þetta er ég að segja til að varpa ljósi á hvað úrræði geta í raun verið mörg og hvað vont er að festast í hugsuninni um að aðeins eitt geti dugað. Í þessu samhengi langar mig líka til að benda á Hugarafl sem berst nú fyrir tilvist sinni, geðræktarúrræði sem felst í jafningjastuðningi og valdeflingu einstaklingsins. Hugarafl er ekki geðdeild heldur eitthvað sem tekur til dæmis við þegar geðdeildinni sleppir og hvort tveggja er gríðarlega mikilvægt þótt þjónustan sé ekki sú sama og kannski einmitt vegna þess að þjónustan er ekki sú sama.

Að þessu sögðu langar mig svo til þess að víkja að hinum ljósmæðrunum, þessum sem styðja við fæðingu barnanna okkar inn í þennan heim, starfsstéttin sem sér til þess að tryggja það að til dæmis kona og barn lifi fæðinguna af. Nú hef ég ekkert sérstakt vit á kjarabaráttu og launamálum og kann ekki að vitna í söguna og þaðan að síður að nefna einhverjar prósentur til samanburðar, hef ekki farið í stjórnmálaskóla og heldur ekki lært flotta frasa en það sem ég hins vegar veit líkt og öll þjóðin er að fjölmargir hjúkrunarfræðingar lækka í launum við að verða ljósmæður eftir tveggja ára framhaldsnám og þarf nokkuð einhvern Nóbelshafa til að sjá hversu galið það er.

Í kjarabaráttu ljósmæðra hef ég ekki einungis áhyggjur af réttindum stéttarinnar sem þó eru augljóslega skert heldur velti ég jafnframt fyrir mér gildisvitund samtímans gagnvart raunverulegum lífsgæðum. Í hvers konar tíðaranda lifum við sem ekki virðir meira en svo starfið sem hlúir að framgangi lífsins? Hversu firrt erum við orðin ef það telst orðið margfalt merkilegra að höndla með peninga, hlutabréf og fasteignir en að hlúa að fæðingu barna? Því við erum raunverulega að senda út þau skilaboð með tveimur gerólíkum launaheimum sem ríkja meðal þessarar fámennu þjóðar. Og meðan þetta er staðan, meðan fasteignir og verðbréf toppa barnsfæðingar, er þá ekki bara ágætt að halda áfram að tala svolítið lengur um hann Jesús frá Nasaret við vaxandi kynslóðir í heimi þar sem guðinn mammon stækkar enn.

 

 

Published inHugleiðingar