Lesa meiraGuð býr í seiglunni "/> Skip to content

Guð býr í seiglunni

Fáar lýsingar á trúartrausti hafa haft jafn mikil áhrif á mig og sú sem ég upplifði á dögunum í samtali við uppkomin börn manns sem mér var falið að jarða.

Eitt barna hans fékk að gjöf í æsku bókina Bróðir minn Ljónshjarta sem pabbinn vildi þá endilega fá að lesa og það var einmitt svo lýsandi fyrir hann að staðnæmast við lokasetningu bókarinnar þar sem Snúður kallar á bróður sinn Ljónshjarta og segir „ Já Jónatan ég sé ljósið, ég sé ljósið“ því án þess að hafa um það mörg orð sáði hann trúarvissu í hjarta barnsins með því að vera sjálfur upptekin af einmitt þessari setningu, sem í einfaldleika sínum lýsir svo mikilli von.

Börnin lýstu því svo að faðir þeirra hefði átt  náttúrulega og áreynslulausa trú. Hann var ljóðelskur og oftar en ekki skynjuðu börnin trúarsannfæringu föðurins í gegnum ljóðin og textana sem hann unni og kunni vegna þess að hann lagði sérstaka áherslu á þau orð og setningar sem höfðu einhverja von og huggun að geyma. Það var ekki meðvitað trúboð heldur náttúrulegt. Það sem varð þess valdandi að lýsing þeirra snerti mig jafn djúpt og raun bar vitni, var að faðir þeirra hafði glímt við mjög erfiðan geðsjúkdóm til margra ára, sjúkdóm sem varð þess valdandi að oft var hann ekki  sjálfum sér og öðrum sinnandi. Einhvern veginn tókst þessum manni samt að halda utan um sín persónulegu mál svo sem fjárhag, matseld, þrif og annað slíkt sem oft fer forgörðum í geðrænum veikindum. Hann bjó nefnilega yfir ómældri seiglu sem ég er persónulega farin að halda að sé ein stærsta gjöf sem hægt er að eignast í lífinu. Öll eigum við hana og öll búum við yfir styrk til að ávaxta hana og virkja eins og hverja aðra andlega auðlind, því Guð býr í seiglunni

Það er tvennt sem samtalið við börn hins látna skildi eftir í huga mínu hjarta, annars vegar þetta með hið náttúrulega trúboð og hins vegar seigluna.

 

Ég held að þegar öllu er á botnin hvolft sé trú manneskjunnar á æðri mátt og guðlega forsjón ekkert minni nú en áður, jafnvel þótt hlutverk kirkjunnar sé breytt og hún hafi ekki sömu stöðu í þjóðfélaginu og áður.

Ég held að mjög margir boði trú með náttúrulegum hætti, til dæmis með því að sýna seiglu í lífi sínu, því hvaðan kemur seiglan? Ef ekki með þeirri trú að það birti til um síðir, af hverju að sýna seiglu ef maður trúir því ekki að eitthvað betra sé framundan, að þrátt fyrir vonda líðan hér og nú sé upprisa í nánd og því sé vert að halda áfram skref fyrir skref þangað til maður getur tekið á rás og hlaupið frjáls í líkama og eða anda.

Ef þú heldur að það sé Biblían sem blási mér sem presti mesta trúarvissu í brjóst, þá er það raunar misskilningur. Biblían hefur aldrei verið mér persónulega uppspretta trúar enda hvernig mætti það vera, ég átti trú áður en ég kunni að lesa. Biblían hefur hins vegar kennt mér að þekkja betur afstöðu Jesú Krists og stutt við speglunina sem maður þarf á að halda í því daglega streði að vera sæmilegur náungi. Trúin hefur birst mér í sköpun Guðs, í mannfólki og náttúru, þar er Jesús á jörðinni. Ég hef til dæmis séð Jesús í pontu á AA fundi, hann talaði þannig að ég fór að gráta og vissi þá um leið að ég væri á réttum stað, það var mjög magnað, ég sem græt nánast aldrei fyrir framan ókunnugt fólk. En þar sem Jesús birtist manni þar á maður heima og þar sem maður finnur sig eiga heima getur maður grátið. Kannski líður þér aldrei eins og þú eigir heima þar sem þú ert til húsa en svo ertu allt í einu staddur/stödd innan um ókunnugt fólk sem deilir með þér tilfinningum og berskjöldun þannig að varnamúrinn þinn fellur. Og þar er ekki bara gott, það er hreinlega Guð að verki.

Veistu það hljómar kannski undarlega en Guð hefur líka mætt mér í hundinum mínum, þó ekki holdtekinn, heldur einmitt í seiglunni sem hundurinn minn hefur sýnt mér í mínum vanmætti, hvernig hann hefur slakað á kröfunum gagnvart mér,  hann sem þráir ekkert heitar en reglu og rútínu sem hefur alls ekki verið í boði síðustu mánuði. Á morgnana hita ég þó handa okkur hafragraut ,hann kann að meta þá viðleitni mína, í gær stökk hann meira að segja upp á mig og það hefur hann ekki gert lengi, hann skynjar hvenær það er góð hugmynd. Hann fylgir tilfinningalífi mínu eftir eins og gps tæki, ég vil ekki meina að það sé meðvirkni, bara skilningur, ást og umhyggja. Guð er í sköpuninni gott fólk, hann er alltaf að birtast okkur þar sem við finnum okkur elskuð. Ef þú finnur þig hvergi elskaðan þá skil ég vel að þú látir af trúnni, að minnsta kosti um stund, þangað til þú sérð og skilur hvaðan elskan kemur. Að trúa er sem sagt að vita að maður sé elskaður, það er í raun ekki flóknara, þarf ekki að vera flóknara, á ekki að vera flóknara.

 

 

Published inHugleiðingar