Flestir foreldrar geta verið sammála um það að tíminn þar sem börnin ung og ómálga veikjast sé mjög erfiður og kvíðavekjandi. Það er svo vont að horfa upp á vanlíðan ungbarns og vita ekki hvað amar að, það er á þeim stundum sem maður væri tilbúinn án umhugsunar að skipta við barnið og taka á sig þjáningar þess. Ég minnist þess einmitt sem móðir hvað mér var létt þegar drengirnir mínir voru komnir á þann aldur að geta tjáð sig og ég þurfti ekki lengur að mála skrattann á vegginn í hvert skipti sem þeir fengu smá hitavellu og skældu af vanlíðan.
Í síðasta fermingartíma í kirkjunni gerði ég dálitla könnun þar sem um var að ræða hóp fjörutíu unglinga. Ég bað þau sem ættu auðvelt með að spjalla um íþróttir að rétta upp hönd og er skemmst frá því að segja að næstum allur hópurinn rétti upp hönd. Næst bað ég þau sem ættu auðvelt með að spjalla um veðrið að rétta upp hönd, allir nema þrír réttu upp hönd. Þá bað ég þau sem ættu auðvelt með að tala um annað fólk að rétta upp hönd, flestir réttu upp hönd, ja ef ekki allir. Að lokum bað ég þau sem ættu auðvelt með að tala um tilfinningar sínar að rétta upp hönd en þá brá svo við að aðeins fjórir af fjörutíu réttu upp hönd, reyndar ekki bara stelpur. Í framhaldinu sátum við í hring og krakkarnir fengu úthlutað einu spjaldi hvert með einni tilfinningu og svo héldum við hringinn og ræddum hverja tilfinningu fyrir sig, hvað hún þýddi, hvernig hún gæti hugsanlega birst okkur, hvort hún væri neikvæð eða jákvæð eða jafnvel bæði og hvernig við gætum tekið skynsamlega á móti henni. Mörg heiti eða nöfn tilfinninga voru krökkunum framandi, það var til dæmis ekki almenn vitneskja um það í hópnum hvað tilfinningin sem við köllum, fyrirlitning, merkir en þegar við fórum að ræða hana og jafnvel leika hana voru flestir sem könnuðust við kauða, fyrirlitning á sér auðvitað stað bæði á skólalóðinni og á samfélagsmiðlum, einmitt þar sem börnin okkar dvelja sem mest. Tilfinningar eins og skömm og sektarkennd voru heldur ekki á allra vitorði og því ærið verkefni að tala um þær systur tvær. Hamingjuna töldu þau sig hins vegar flest þekkja en þó skapaðist áhugverður vettvangur að ræða muninn á stundaránægju annars vegar og hamingju hins vegar. Það er skemmst frá því að segja að allur fermingartíminn fór auðvitað í þetta, að tala um alls konar tilfinningar líkt og um náttúruvísindi væri að ræða, hreinlega eins og við værum að ræða heiti á blómum og plöntum í kjölfar þess að þekkja útlit þeirra, ilm og áferð.
Það fæðist nefnilega enginn maður með mótaða vitneskju um tilfinningar sínar, við þurfum að læra að þekkja þær, rétt eins og líkamann. Við fæðumst ekki með vitneskjuna um að nef sé nef og heiti nef, einhver kennir okkur að þekkja það sem og augun og hökuna, eyrun og ennið. Samt væri í raun kannski minni skaði skeður að þekkja ekki nefið en til dæmis kvíðann svo við þyrftum ekki að lifa þá skelfingu að halda að við værum í alvöru lífshættu þegar kvíðinn kveður fyrst dyra. Eða sorgin, að við vissum hvernig hún getur litið út og ilmað og hversu mannlegt og eðlilegt ferli hennar er. Það eru engar lífshættulegar tilfinningar, til það er aðeins lífshættulegt að þekkja þær ekki, framandleiki þeirra getur ógnað okkur og þögnin sem umlykur þær einnig.
Þegar við tölum um úrræðaleysi í geðheilbrigðiskerfinu sem vissulega er ekki gallalaust enda fjársvelt og hefur ekki verið í forgangi undanfarna áratugi, er samt mikilvægt að horfa líka á það sem við sjálf getum gert, hvert og eitt. Sem foreldrar getum við til dæmis gengist við því að það sé jafn mikilvægt að börnin okkar læri að þekkja tilfinningar eins og margföldunartöfluna og því hlýtt þeim reglulega yfir þær. Hlýtt börnunum okkar yfir tilfinningar en það getur skólinn líka gert með allt sitt öfluga og vel menntaða fagfólk í kennslu og uppeldisfræðum. Staðreyndin er nefnilega sú að unglingur sem er sendur til sálfræðings vegna erfiðrar hegðunar fær aldrei það sem hann þarf á að halda ef hann þekkir ekkert til tilfinninga og veit ekki hvað þær heita. Sálfræðingar eru frábær starfsstétt en þeir vinna með fólki í gegnum samtal og ef börnunum okkar hefur ekki verið kennt að þekkja tilfinningar sínar þá fækkar auðvitað verulega verkfærunum í kistu sálfræðingsins eða ráðgjafans. Sama gildir um okkur fullorðna fólkið og það verð ég raunar áþreifanlega vör við í mínu starfi, hjónaviðtöl verða til dæmis oft mjög ójöfn þegar aðeins annar aðilinn getur borið kennsl á tilfinninga og rætt þær, þá hallar verulega á hinn þótt ábyrgð hans sé hvorki minni né meiri. Eins er um syrgjendur, þótt sorgin flokkist hvorki undir sjúkdóm né vandamál þá er það að vinna sig í gegnum sorg grundvallað á því að geta tjáð sig þannig að erfiðu tilfinningarnar sem láta á sér kræla taki ekki yfir allar þær góðu og hlýju og fallegu sem sorgin framleiðir innra með okkur. Það er svo mikil synd þegar það gerist að til dæmis sektarkennd byrgi öllum góðum minningum sýn, sérstaklega þar sem sektarkennd í sorg er oftar en ekki sjálfsprottin og algjörlega tengd okkar eigin skynjun og hugarburði en ekki raunveruleikanum.
Ég myndi ætla að stærsta lýðheilsumál aldarinnar væri að kenna tilfinningar, bæði börnum og fullorðnum í grunn og endurmenntun. Hugsaðu þér hvernig stemningin í opinberri umræðu, að ég tali nú ekki um á samfélagsmiðlum myndi breytast ef við gerðum gangskör að því að kenna tilfinningar af sama krafti og stærðfræði og tungumál. Þá myndu margir skynja betur hvaðan til dæmis gremjan eða óttinn kæmu og hvert eðlilegast og sanngjarnast væri að beina þeim tilfinningum, af því leiddi sanngjarnari, betri og fallegri samskipti sem þýðir aðeins eitt, bætt lýðheilsa.