Lesa meiraLíf eftir skilnað "/> Skip to content

Líf eftir skilnað

Mikið óskaplega er nú gott að maður skuli ekki geta séð inn í framtíðina, ég hef raunar aldrei skilið þörf fólks fyrir  að láta spá fyrir sér, ef það er eitthvað sem lífið hefur nú þegar kennt mér er að það er mikil blessun að þekkja ekki morgundaginn. Samt á maður alltaf að gera ráð fyrir morgundeginum og það sem meira er, gera ráð fyrir að hann verði býsna góður, sú von bætir nefnilega daginn í dag  sama hvernig hann nú annars er. Sautján ára gömul kærasta sonar míns spurði mig á dögunum hvort það væri ekki vont að fæða barn, ég hugsaði mig um, horfði í sautján ára augu hennar og svaraði „ ekki svo mjög því sársaukinn hefur jákvæðan tilgang.“  Svar mitt var auðvitað hvít lygi, allar konur sem fætt hafa barn vita að það er engin spameðferð að þrýsta heilli manneskju út um klofið á sér, nákvæmlega á meðan á því stendur myndu flestar mæður fremur kjósa að sitja við sundlaug á Tenerife, drekka Mojito og fletta nýjasta Vogue. Um leið og barnið er fætt vildu þær hins vegar hvergi annarstaðar vera en á hrárri fæðingarstofu með ávaxtajógurt á bakka og barnið skorðað við brjóstið í fyrsta sinn.

Það þarf hins vegar ekki að segja sautján ára stúlku allan sannleikann um það hversu vont sé að fæða barn. Það hjálpar lítið, auk þess sem hvert og eitt okkar upplifir bæði líkamlegan og andlegan sársauka á ólíka vegu. Sjálf þekki ég sorgina og sársaukann við að missa náinn ástvin í dauðann, sem prestur sé ég hins vegar fólk bregðast við þeirri sorg á ólíka vegu þótt ýmsir samnefnarar eigi sér þar stað.

Fram til þessa hef ég talað við fjölda fólks eða fjölda para um sorgina vegna skilnaðar án þess að búa sjálf yfir þeirri reynslu. Hef setið gegnt fólki og farið í gegnum þær tilfinningar sem það má búast við í slíku ferli án þess að hafa í raun hugmynd um hvað raunverulega ræðir. Það er líka allt í lagi, maður þarf ekki sem fagmaður að hafa prófað allt sem kemur inn á borð til manns, læknir þar ekki að hafa fengið krabbamein til að geta læknað krabbamein og ljósmóðir þarf ekki að hafa fætt barn til að geta tekið á móti einu slíku. Ég er raunar mjög fegin að hafa ekki vitað fyrirfram hversu mikill sársauki það er að ganga í gegnum hjónaskilnað. Nú nokkrum mánuðum eftir að ég stóð sjálf frammi fyrir þeim tímamótum er ég guðslifandi fegin að geta einmitt ekki séð inn í framtíðina, það væri alltof ógnvekjandi. Ég hefði til dæmis ekki getað ímyndað mér að ég gæti frosið í jafn langan tíma og raun ber vitni og ég hefði heldur aldrei getað ímyndað mér að sá dagur myndi renna upp að ég hreinlega fagnaði sjálfri sorginni af því að hún er svo miklu manneskjulegri en doðinn. Doðinn gerir mann eitthvað svo kaldan, sorgin gerir mann hlýrri og viðkunnanlegri, sorgin er svo mikið Guð að verki innra með manneskjunni. Það er svo miklu betra að finna til en finna ekkert. Svo miklu betra að geta látið annað fólk loks vita að maður þurfi á því að halda. Í sorginni svarar maður einlæglega spurningunni „hvernig líður þér?“ Í doðanum hefur maður alls ekkert svar.

Að upplifa umhverfi sitt eftir skilnað er mjög sérstakt, oft hef ég upplifað þá tilfinningu að ég þekki í raun ekki fólk sem ég áður taldi mig þekkja, finnst margir mér nærstaddir allt í einu svo framandi. Í sorginni er ég hins vegar smátt og smátt að uppgötva að það er ekki annað fólk sem er mér framandi, það er ég sjálf, ég er sjálfri mér framandi. Sorgin er mætt til að leiða mig til fundar við nýja manneskju sem heitir Hildur Eir, það er ógnvekjandi en líka spennandi og fallegt.

Published inHugleiðingar