Lesa meira“Þetta er hrein ást” "/> Skip to content

“Þetta er hrein ást”

Þessi páskahugleiðing var skrifuð á föstudaginn langa. Ef til vill finnst einhverjum skrýtið að velja þann dag til að hugleiða lífið og upprisuna en mér finnst það ekki,  mér finnst eiginlega enginn dagur á árinu jafn góður til að hugleiða og fagna lífinu eins og föstudagurinn langi.

Í huga mínum er upprisa frelsarans Jesú Krists hin hreina, sanna ást. Ástin getur nefnilega verið hálfgert kamelljón, ástin getur verið grunn og heimsk, eigingjörn og sjálfhverf. Ástin getur líka verið þroskaþjófur þegar  hún er hrædd, kvíðin og stjórnsöm. Ástin getur verið óvægin og köld, þegar hún er ekki endurgoldin. Ástin ein og sér sigrar ekki allt, aðeins ást upprisunnar fær sigrað allt og dauðann líka.

Í liðinni viku stóð ég við opna kistu vinkonu minnar sem lést á miðjum aldri úr krabbameini. Við stóðum þarna fjórar yfir henni, ég og dætur hennar þrjár. Um morguninn höfðu þær farið upp í kapellu að punta mömmu sína fyrir kistulagningu. Þær settu fallegasta klútinn sem hún sjálf hafði svo listilega hnýtt  um höfuð hennar, á andlitið báru þær farða, á augnlokin eftirlætis augnskuggann, túrkisbláan, sem hún hafði alltaf borið við rauða, krullaða hárið sitt. Þar sem við stóðum yfir kistunni og virtum hana fyrir okkur fallega og friðsæla og tárin streymdu niður vangana sagði ein dóttirin „ þetta er hrein ást“ svo krupu þær allar þrjár, lögðu hönd á hönd hvor annarar þvert yfir móður sína og sungu Lífsbókina hennar Bergþóru Árna fyrir hana. Hádegissólin skein inn um glugga kapellunnar og dauðinn virtist allt í einu mega sín svo lítils gagnvart allri þessari hreinu ást sem lá yfir stundinni.

Þar sem er dauði þar er líka upprisa. Það er ekkert til sem heitir bara dauði, ég fullyrði það, eins og um annað lögmál Newtons væri að ræða, hvar eðlisfræðingurinn færir  rök fyrir því að breyting hreyfingarinnar sé í réttu hlutfalli við hreyfikraftinn sem verkar. Upprisan er hreyfikrafturinn sem hefur áhrif á dauðann en ekki öfugt, þess vegna upplifum við hina tæru, hreinu ást oft svo undursterkt í mikilli sorg, hún er hádegissólin sem smýgur gegnum gluggann og baðar andlit okkar móðurlegri hlýju.

Aðeins örfáir dagar frá því ég stóð með unnusta mínum sem er ekkill, við leiði eiginkonu hans, fylgdist með honum róta í moldinni og hagræða rósarvendinum sem hann setti niður í tilefni af afmæli hennar, loks kveikti hann á kertinu í luktinni og þó var miður dagur og sólin skein, ég stóð álengdar og fylgdist með atferli hans, hugsaði „ þetta er þá ástin“ við  gengum bæði þögul úr garði. Upprisa Jesú er þessi ást. Máttugri en dauðinn, stærri en dauðinn, stærri en við öll, hreyfiaflið sem stjórnar lífinu, þess vegna er okkur öllum óhætt, sama hvað hendir.

Svo getum við öll verið konurnar sem komu þarna að gröfinni við sólarupprás, getum öll gengið þeirra veg, ættum að leggja okkur fram um að  vera þær til að stuðla að farsæld okkar og annarra í kringum okkur, til að næra ástina.  Ef við setjum það að ganga að gröfinni í samhengi okkar daglega lífs má segja að það þýði að vera til staðar fyrir annað fólk, rækta manneskjurnar sem lífið hefur trúað manni fyrir, mæta samferðarfólki af virðingu, væntumþykju, sanngirni og skilningi en einnig það að ganga um náttúruna og dýraríkið af hugsjón og lotningu, það er hin raunverulega þjónusta við frelsarann frá Nasaret, ekki kennisetningar, ekki kirkjubyggingar, vegna þess að líkami og sál hverrar manneskju, líkami og sál náttúrunnar er líkami og sál hins krossfesta og upprisna Jesú. Já ástin er ganga upp að tómri gröf. Gleðilega páska.

 

 

Published inHugleiðingar