Lesa meiraAð erfa áföll "/> Skip to content

Að erfa áföll

Mér liggur á hjarta að tala um vanvirk tengsl. Á nýrri plötu Bubba Morthens sem nefnist Regnbogans stræti er að finna samnefnt lag með eftirfarandi erindi:

Sumar manneskjur sannleikann þrá  

og aðrir þol’ann ekki vilj’ aldrei sjá.

Sumir erfa áföll forfeðra sinna

meðan aðrir hamingju í hjarta finna.

 

Já það er þetta með að erfa áföll forfeðra sinna.

Mér finnst mjög magnað að Bubbi skuli gera þetta að yrkisefni en þarf þó ekki að undra, komandi frá manni sem hefur eflaust unnið töluverða sjálfsvinnu í gegnum líf sitt.

Við vitum svo margt í dag um heilbrigt líferni, vitum að það er óhollt að reykja og drekka áfengi, vitum að gæði svefns skiptir miklu fyrir bæði andlega og líkamlega heilsu, að svefnleysi getur veikt ónæmiskerfi okkar, valdið kvíða og depurð og ýtt undir offitu. Við vitum að sykur er óhollur og að góð fita er bráðnauðsynleg. Við vitum að streitan er varhugaverð og kulnun er nokkuð sem hægt er að koma í veg fyrir með því að virkja innsæi sitt og forgangsraða til hamingjuríkara lífs. Við vitum svolítið um tengsl áfalla og líkamlegrar heilsu og svo vitum við að sterk félagsleg tengsl ýta undir langlífi og að einmanaleiki er óhollur, svo dæmi séu tekin.

Það sem við hins vegar kannski tölum minna um, hugsanlega vegna þess að það er erfitt og viðkvæmt eru einkenni og áhrif vanvirkra samskipta innan fjölskyldna.

Hvað eru vanvirk tengsl?

Það er til dæmis þegar fjölskyldumeðlimir geta ekki talað saman um ágreinining eða vandamál sem upp koma í samskiptum þeirra á milli heldur tala við aðra í fjölskyldunni sem ekki eiga hlut að máli og safna þannig liði, þar með leysist ekki vandamálið en í staðinn verða til meðvirkar fylkingar innan fjölskyldunnar og sársaukafull samskipti eða sársaukafullt samskiptaleysi.

Vanvirk tengsl eru mjög algeng þar sem alkóhólismi er við völd og þegar ég segi við völd þá meina ég þar sem alkóhólismi er ómeðhöndlaður hvort sem áfengi er yfirhöfuð inn í menginu eða ekki. Vanvirk tengsl geta þess vegna verið afleiðing þess að ömmur eða afar voru alkóhólistar, jafnvel þótt þau séu löngu horfin á braut úr þessum heimi.

Vanvirk tengsl eru yfirleitt skammarmiðuð, fjölskyldumeðlimir sem eiga í vanvirkum tengslum upplifa oft að þeir gangi með stútfullan bakpoka af skömm um lífið án þess að vita í raun ástæðuna, því ástæðan getur þess vegna legið í áföllum forfeðranna eins og Bubbi syngur um í Regnbogans stræti. Kannski missti langamma barn og fann aldrei góðan farveg fyrir sorgina sína, kannski mátti hún ekki syrgja, kannski var það tíðarandinn eða hún átti tólf önnur börn sem hún þurfti að hugsa um. En langamma missti samt barn og sorgin við að missa barn er ekkert minni við að vera fædd árið 1884 og eiga tólf önnur börn, barnsmissir er alltaf barnsmissir og fátt sem skekur tilveru manneskjunnar meira en slíkt áfall.

Kannski vegna þess að langamma fékk aldrei rými til að syrgja ofverndaði hún hin börnin svo þau urðu sjúklega hrædd eða kvíðin eða þá að hún var svo dofin að hún gat ekki tengst þeim eins og þau þurftu á að halda. Og svo urðu börnin hennar langömmu fullorðin og skyldu ekkert í því hvað þau áttu eitthvað erfitt með að treysta eða eiga nánd í samskiptum við maka, upplifðu sig alltaf eins og vannærð börn, jafnvel þótt þau væru harðfullorðin. Og svo urðu börnin þeirra fullorðin og þoldu ekki sína eigin foreldra af því að foreldrarnir voru svo tilætlunarsamir við börnin. Og svo urðu börn þeirra barna fullorðin og  undarlega félagsfælin með lamandi fullkomnunaráráttu af því að foreldrar þeirra höfðu verið svo fjarlægir í uppeldinu sem kom til að því að þeir áttu sjálfir svo tilætlunarsama foreldra. Og í öllum þessum ættliðum valdi einhver að drekka til að deyfa tilfinningar sínar þannig að ofan í alla vanvirknina skapaðist líka meðvirkni. Já þið sjáið að það er sko fjári dýrt að erfa áföll forfeðra sinna.

Og svo fer fólk inn í hjónabönd með allan skortinn sem til varð í uppeldinu og þráir ekkert heitar en að hinn aðilinn næri skortinn en sá aðili er þá kannski líka tilfinningalega vannærður úr sínu uppeldi og þráir það sama frá hinum aðilanum og þá skapast togstreita vegna þess að það er ekki hlutverk maka að uppfylla eitthvað sem ekki var veitt í uppeldi. Maki er maki makans en ekki foreldri.

Eitt það gáfulegasta sem maður getur gert sem fullorðinn einstaklingur er að skoða fjölskyldusögu sína, rannsaka áföll forfeðranna, ekki til að finna sökudólg enda erum við öll fólk sem erum að reyna okkar besta, heldur einfaldlega til að rjúfa vítahring og skapa nýja tegund af tengslum. Ný og heilbrigð tengsl þar sem hver einstaklingur má hafa sínar skoðanir og lífssýn og sitt göngulag án þess að það skapi gremju eða reiði innan fjölskyldunnar, þar sem við samþykkjum ólíkt göngulag og elskum um leið. Þar sem við óttumst ekki ágreining heldur ræðum hann beint við þann eða þá sem málið varðar og síðast en ekki síst þar sem við erum til staðar í sorg ástvina okkar án þess að dæma eða stilla upp samanburði á ólíkum áföllum eða þrengingum.

Við þurfum ekki að vera leiksoppar áfalla, hvorki gamalla né nýrra. Ef við á annað borð erum  fullorðin höfum við alltaf val um úrvinnslu og hugarfar. Það eru góðu fréttirnar í allri þessari þjáningu sem annars getur fylgt því að vera manneskja.

 

Published inHugleiðingar