Orðið ábyrgð virðist verða mér hugleiknara með aldrinum. Þegar ég var yngri olli það mér fremur óeirð, fannst það kannski hljóma eins og eldhúsdagsumræður á Alþingi, nokkuð sem varð víst að gerast en gat aldrei orðið skemmtilegt.
Samt tók ég snemma töluverða ábyrgð þó ekki væri nema bara fyrir það eitt að flytja að heiman sextán ára gömul og sjá um mig sjálf eins og raunar svo margir af minni kynslóð gerðu sem þurftu að sækja menntun í önnur byggðarlög.
Þegar maður er ungur er ábyrgð oft eitthvað sem virðist hefta möguleika manns á að gera það sem er skemmtilegt. Maður upplifir nám jafnvel sem töluverða truflun á félagsslífi og hollt mataræði og hreyfingu sem óþarfa inngrip í notalega hvíld, vinna virkar jafnvel sem afplánun. Með öðrum orðum þá einkennir ungdómsárin oft sú þrá að lifa góðu lífi án teljandi fyrirhafnar. Þetta er vissulega ekki einhlítt og margt ungt fólk sem leggur auðvitað mjög hart að sér í námi og starfi. Hver kannast samt ekki við þá tilfinningu að hafa verið tvítugur og langað kannski helst að lifa nokkuð þægilegu lífi. Spurningin „ þarf ég?“ Er alls ekki óalgeng á aldursbilinu fjórtán til tuttugu og fjögurra ára, jafnvel þótt maður vissulega geri það sem ætlast er til af manni.
Þetta er í raun fullkomlega eðlilegt, af hverju ætti maður ekki að velta fyrir sér spurningunni „þarf ég?“ þegar maður stendur í fordyri ævinnar og réttindi og skyldur ekki enn farnar að birtast manni í einhverju samhengi.
Þegar maður eldist og þroskinn reynist með felldu skýrist svo margt varðandi þessa gullvægu spurningu „þarf ég?“ Með hverju árinu sem líður verða svörin meira áberandi og ekki nóg með það spurningin „þarf ég?“ hættir jafnvel alveg að poppa upp í huga manns. Það er einmitt þá sem maður uppgötvar að það eru hrein forréttindi að fá að að taka ábyrgð á lífi sínu.
Á dögunum var áhugaverð umræða í fjölmiðlum um áhættu þess að leita sálrænnar hjálpar annað en til fagmenntaðs fólks. Sálfræðingurinn Hafrún Kristjánsdóttir reið á vaðið og benti á að ófagleg áfalla og geðhjálp gæti jafnvel gert skjólstæðingum illt og verra um leið og hún hvatti fólk til að vera gagnrýnið á þá aðstoð sem það þiggur, gegn greiðslu. Ég er alveg hjartanlega sammála Hafrúnu um að fólk eigi að vera gagnrýnið þegar það leitar sér hjálpar hvort heldur er vegna sálrænna eða líkamlegra kvilla. Að sama skapi er maður meðvitaður um að menntun skiptir gríðarlegu máli, þá ekki hvað síst í því að gera fagaðila auðmjúkari gagnvart starfi sínu, ábyrgð sinni og takmörkunum. Í raun er mjög margt ef ekki flest sem fagaðilar læra fyrst þegar skóla sleppir en í náminu vex auðvitað gagnrýnin hugsun og auðmýkt, það er að segja ef fólk á annað borð er móttækilegt fyrir menntun en ekki bara tæknilegri þekkingu. Menntun er í raun það að uppgötva og skilja að maður veit fjandakornið ekki neitt. Þess vegna er oft öruggara að leita sálrænnar aðstoðar til vel menntaðs fólks. Ekki vegna þess að sálræn aðstoð sé svo tæknilega flókin heldur vegna þess að sá sem fer að höndla með sálræna aðstoð eins og töframaður eða skemmtikraftur er augljóslega ekki nógu meðvitaður um að aðstoðin snýst um þann sem þiggur en ekki þann sem veitir.
Að þessu sögðu langar mig að snúa mér aftur að ábyrgðinni. Það er nefnilega fátt ef nokkuð sem fær hár mín til að rísa meira en umræða sem grefur undan sjálfsábyrgð einstaklingsins. Ef manneskjan er ekki barn eða með hömlun sem gerir það að verkum að hún verður að treysta á umönnun, dómgreind og handleiðslu annarra, þá er í raun ekki ástæða til að hafa uppi hræðsluáróður. Í raun er miklu mikilvægara að höfða alltaf og ítrekað til ábyrgðar fullorðinna einstaklinga, jafnvel þótt þeir glími við veikindi og erfiðleika og jafnvel enn mikilvægara að einstaklingar í slíkri stöðu viti og skilji að þeir hafi allt um líf sitt að segja. Á sama tíma ber þeim sem gefa sig út fyrir að veita sálræna aðstoð skylda til að sýna ábyrgð í störfum sínum og vera meðvituð um að líf og farsæld annarrar manneskju er í húfi. Með öðrum orðum þá er ábyrgðin bæði hjá þeim sem leitar aðstoðar og þess sem veitir og það er í raun valdhefting en ekki valdefling að halda öðru fram.
Ég upplifi oft í starfi mínu sem sálgætir að fólk sem til mín leitar segir mér frá allskonar óhefðbundnum aðferðum sem það telur hafa gagnast sér í leit að bættri andlegri eða líkamlegri heilsu. Það hvarflar ekki að mér að leggja mat á það í samtölum við fullorðið sjálfráða fólk, ég bara hlusta og meðtek vanþekkingu mína á því sem er til umræðu, það er að segja ef ég hef enga þekkingu eða reynslu af aðferðinni. Að lokum minni ég bara fólk á að það sé sjálfs sín ráðandi og verði að læra að meta hvað hjálpar og hvað ekki. Og ástæðan fyrir því að ég persónulega legg áherslu á þetta fremur en að beina fólki í þær áttir sem teljast viðurkenndar er að við lifum í samfélagi sem leggur alltof mikla áherslu að mínu mati, á réttindi manneskjunnar en ekki skyldur. Samfélagið er gegnsýrt af valdheftingu þar sem fólk lítur á fagaðila sem frelsara, lækna sem Guði og heilbrigðiskerfið sem töfralampa. Og þess vegna eru margir sem deyfa vanlíðan sína með botnlausri reiði yfir því að ekkert gott gerist í lífi þeirra. Reiðin virkar oft eins og sykur, áfengi eða önnur vímuefni. Það er raunverulega hægt að deyfa rökhugsun sína, sjálfsábyrgð og tilfinningar með því að vera stöðugt reiður út í allt og alla, í stað þess að horfast í augu við ábyrgð sína og taka aftur við stjórninni á eigin lífi, heill og hamingju.
Hin síðari ár hafa kraftaverkasögurnar hans Jesú orðið mér sífellt hugstæðari. Hvað var hann Jesús í rauninni að gera þegar hann læknaði lamaði og veika og gaf blindum sýn? Var hann að velja úr hópnum nokkra heppna einstaklinga til að sanna fyrir hinum guðdóm sinn eða var hann að rétta fólki aftur ábyrgðina á eigin líf. Var þetta fólk kannski ekki bókstaflega lamað eða blint sem sagt er frá heldur bara lamað af ótta, reiði, biturð og blint á eigin ábyrgð? Eftir því sem ég eldist og kynnist lífinu betur hallast ég að hinu síðarnefnda og þess vegna verður trú mín á Guð alltaf sterkari og sterkari, hún er nefnilega engin töfralausn né forræðishyggju. Trúin á Jesú Krist er valdefling en ekki þroskaþjófur. Við megum hvíla í skilyrðislausri ást Guðs og sækja okkur þangað hugrekki, kraft, von og leiðsögn en á endanum verður hver fullorðinn sjálfráða og sjálfbjarga einstaklingur að bera ábyrgð á lífi sínu. Ábyrgðin er eins stærsta gjöfin og hamingjuvaldurinn sem mannfólkinu hlotnast, þess vegna megum við aldrei vísa henni frá og afhenda hana öðrum. Svarið við spurningunni: Þarf ég? Er vissulega, oftast nær já.