Lesa meiraHlutleysi er kjaftæði "/> Skip to content

Hlutleysi er kjaftæði

Guðspjall dagsins fjallar um lækningu. Um það þegar Jesús reisir tengdamóður Símonar á fætur er hún liggur með sótthita og í framhaldi segir frá því þegar menn færðu til hans alla þá sem sjúkir voru og haldnir illum öndum og Jesús læknaði marga er þjáðust af ýmsum sjúkdómum og rak út marga anda en illu öndunum bannaði hann að tala því þeir vissu hver hann var.

Og hér stend ég hárlaus í prédikunarstól, rúmlega hálfnuð með lyfjameðferð og að þjóna í minni fyrstu messu í langan tíma og þetta er guðspjallið………Og svo efast menn um heilagan anda. Heilagur andi er leið Guðs til að hjálpa okkur að styrkja okkar eigin trú og samferðarfólks okkar. Þegar við upplifum sem dæmi hrifnæmi, hrífumst af fallegri náttúru, heillandi fólki, fagurri tónlist og listsköpun, verðum gagntekin af töfrandi en þó algengum andartökum eins og þegar ungabarn hjalar eða brosir eða þegar kotroskin krakki segir eitthvað spekingslegt, þá erum við að meðtaka gjafir heilags anda. Hrifnæmi er geta okkar til að tengjast guði í gegnum heilagan anda, hrifnæmi eykur í raun andríki okkar svo mörg okkar finna sig knúin til að skapa eitthvað nýtt og merkingarbært fyrir tilstuðlan hrifnæminnar og gjafa heilags anda. Þannig heldur sköpunin áfram frá kynslóð til kynslóðar.

Þess vegna er svo mikilvægt að leyfa heilögum anda að leiða sig áfram við lestur Biblíunnar. Ég sá hreint ágæta tilvitnun í bandarískan prest að nafni Rich Villodas á samfélagsmiðlinum Instagram þar sem hann segir: Kristið fólk getur lesið Biblíuna hvern einasta dag en samt haft hjarta í mótsögn við ríki Guðs. Þetta raungerist einkum þegar við lesum Biblíuna til að vinna rökræður, safna upplýsingum, til að ganga í augun á Guði eða jafnvel til að særa aðra.

Ég held að Villodas hitti naglann á höfuðið þarna. Það er hægt að lesa Biblíuna sér og öðrum til töluverðs ógagns og mörg okkar gera það hreinlega ómeðvitað.

Það er svo mikilvægt að lesa Biblíuna í heilögum anda, í hrifnæmi, af þeim krafti sem fær okkur til að skapa eitthvað nýtt, merkingarbært og fagurt. Og þar kemur einlægnin svo sterk inn, að leyfa sér að lesa og skilja með hjartanu, jafnvel þó því fylgi berskjöldun og jafnvel afhjúpun á vissu þekkingarleysi, af því að einlægni getur í senn birt mikla viska en afhjúpað skort á áþreifanlegri upplýsingu sem okkur finnst jú mjög merkilegt að búa yfir. Í einlægninni leyfum við okkur að taka pláss þrátt fyrir ófullkomleika okkar.

Viskan birtist oft hvað sterkast í einlægninni en gáfur geta hins vegar birst án þess að við opnum endilega hjarta okkar. Heimurinn er fullur af gáfuðu fólki, en einlægni er fágæt. Stundum verða erfiðleikar og áföll til þess að skerpa á visku einlægninnar, það er oft í áföllum sem þol manneskjunnar gagnvart sýndarmennsku og hégóma minnkar verulega.

Guðspjall þessa dags, fjallar meðal annars um mikilvægi hins andlega lífs þegar áföll herja á. Í guðspjallinu kemur Jesús inn í líf hins sjúka vegna þess að hinn sjúki þarf á kærleika Jesú að halda í veikindum sínum, hinn sjúki þarfnast fyrst og síðast vonar og Jesús er holdgervingur vonar þá og nú. Fátt er jafn mikilvægt eins og að eiga andlegt líf þegar líkaminn gefur sig. Mannslíkaminn er þannig  gerður að eftir því sem bætist við árafjöldann hrörnar hann og líkurnar á því að frumurnar stígi feilspor í sinni daglegu rútinu eykst til muna. Heilbrigður lífsstíll er mikilvægur en hann getur þó ekki komið alfarið í veg fyrir þessa þróun. Því er svo mikilvægt að rækta með sér andlegt líf frá blautu barnsbeini. Ekkert hefur til að mynda styrkt mig meira mig dag frá degi í mínum veikindum en það að hafa verið alin upp í virku trúarlífi. Að hafa átt foreldra sem kenndu mér bænir og kenndu mér að sjá Guð í sköpuninni. Hver einasti göngutúr með pabba mínum var einhvers konar trúarjátning, hann sá ekki fugl öðruvísi en að hrífast eins og fuglinn væri Guð almáttugur og ef ég tók upp steinvölu átti hann til vísu eða einhvers konar skírskotun sem gaf steinvölunni gildi. Trúin var allstaðar, í gleði og sorg, í gestrisni, listum og menningu, náttúru og veðrabrigðum. Ég ólst upp við að Guð væri nálægur frá morgni til kvölds, að næturlagi og fram á næsta dag og það hefur hjálpað mér meira en orð fá lýst.

Við megum ekki verða svo sterílt þjóðfélag í pólitískum rétttrúnaði okkar að við rænum börn þessum krafti sem þau geta búið að hvort heldur sem er þegar lífið leikur við þau og mikilvægi þess að verða ekki firrt eða hrokafull í velgengninni sækir að eða þegar áföllin dynja á. Við megum ekki ræna þau krafti trúarinnar.  

Í guðspjalli dagsins segir að Jesús hafi rekið út illa anda en  bannað þeim að tala því þeir vissu hver hann var. Jesús kærði sig ekki um að illir andar bæru guðdómi hans vitni vegna þess að hið illa hefur tilhneigingu til að afbaka sannleikann sér í hag. Þess vegna einmitt er trú ekki einkamál, hún er ábyrgðarhlutur rétt eins og kynlíf og samskipti kynjanna og allt það sem viðkemur viðkvæmasta streng í sálarlífi okkar mannfólksins. Einkamálavæðing nútímasamfélagsins er gróðrarstía fyrir hið illa til afbaka sannleikann sér í hag.

Og það er erfiðara að uppræta lygina þega illskan hefur snúið sannleikanum sér í hag. Þess vegna eigum við að tala um trú á opinberum vettvangi og halda hvert öðru ábyrgu í túlkun okkar. Rétt eins og við eigum að halda hvert öðru ábyrgu í öllum samskiptum ekki síst í nánum samskiptum.

Einkamálastefnu nútímans er að takast smátt og smátt að ræna komandi kynslóðir möguleikanum á því að þróa með sér trú, því það má hvergi tala um hana. Eldri kynslóðir lögðu blátt bann við opinni umræðu um kynlíf og kynlífsmenningu og við sjáum hvað það hefur nú skilað okkur frábærum árangri eða þannig. Hlutleysi er kjaftæði. Í versta falli hættulegt, hlutleysi er í raun ekkert annað en þöggun og þöggun hleypir illum öndum á skeið í stað þess að reka þá á brott.

Það er ekki að ástæðulausu að Jesús gaf lærisveinum sínum fyrirmæli um að stofna kirkju um víða veröld vegna þess að í augum Jesú er trúin ekki einkamál heldur samfélag. Kirkjan er samfélag um trú þar sem okkur er ætlað að vera heiðarleg og hreinskiptin í túlkun okkar, kærleiksrík í nálgun okkar og elskandi réttlát í dómum okkar.

Það er svo óendanlega dýrmætt að eiga trú í erfiðum veikindum, ég fæ aldrei fullþakkað því fullorðna fólki, foreldrum mínum sem báru mig til skírnar og sögðu mér frá Jesú allt frá steinvölunni smáu til fuglsins í fjörunni.

 

Published inHugleiðingar