Lesa meiraAð halda jól en ekki andliti "/> Skip to content

Að halda jól en ekki andliti

Jólin nálgast og við prestar þekkjum vel samtöl við syrgjendur í aðdraganda þeirra. Jólin eru eins og fyrsta varðan á ferð um hálendi sorgarinnar. Hálendið er fagurt en stundum einmanalegt og yfirþyrmandi eins og sorgin. Vörðurnar fá okkur til að staldra við og það er gott og nauðsynlegt en líka fjári erfitt. Þegar við göngum í gegnum áföll, ástvinamissi og sorg reynir á allt sem við höfum grundvallað líf okkar á frá fyrstu tíð. Lífsafstaða sem hefur mótast í uppvexti hefur þar mikið að segja. Við ástvinamissi er ekkert til sem getur tekið burt hið sára en lífsafstaða og lærð og reynd bjargráð geta hins vegar haft mikið um það að segja hvernig við förum í gegnum sársaukann. Manneskja sem hefur fram að missi haft jákvæða og vonarríka lífsafstöðu og fundið sig geta treyst á samfélagið í kringum sig er líkleg til að vinna vel úr sorginni þótt sorg hennar sé auðvitað ekkert léttari fyrir vikið. Sorgin er hins vegar líklegri til að renna eftir árfarveginum. Þess vegna á við uppeldi barns að hafa í huga að ekki aðeins er maður undirbúa barnið undir að fúnkera í vinnu og skóla heldur ekki síður í áföllum lífsins.

Jólin eru syrgjendum oft hugleikin og jafnvel kvíðvænleg. Þau eru jú hátíð fjölskyldunnar og ef einhvern vantar í fjölskylduna þá finnur auðvitað hjartað fyrir því í hvert sinn sem komið er saman til að eiga gæðastund og efla tengslin. En um leið og það er sárt er það líka svo mikil líkn að vera innan um elskandi fólk sem maður tilheyrir. Þar finnur maður andrýmið til að vera eða ekki vera án þess að þurfa gefa nokkrar skýringar. Ég hvet oft syrgjendur til að gera jólin að sinni eigin sálgæslu. Í grunninn eru þau jú saga af fjölskyldu á ferð í óvissu og töluverðri angist. Þannig býr grunnsaga kristinna jóla alls ekki yfir ólíkri líðan og syrgjandans sem er að halda hátíð í breyttum veruleika.Sagan af Maríu, Jósep og Jesúbarninu verður töluvert góður spegill á líðan þess sem syrgir og fjárhúsið breytist í sorgarsamtök. Jólin eru líka tími þar sem fólk á oft notalega samveru við kertaljós, góðan mat og fagra tónlist sem er ekkert ósvipað því sem á sér stað við útför sem er líknarstund, nema um jól er maður oftast bara með sínum nánustu. Það þýðir jafnframt að þú þarft ekki að halda andliti, eða öllu heldur átt ekki að þurfa þess. Ekki að maður þurfi þess nokkurn tíma en það hentar okkur jú misvel að fella grímuna hér og þar. Þannig má ákveða að gera jólin að huggunarhátíð þar sem við njótum þess að vera með okkar fólki en gefum missinum líka rými. Við rifjum upp minningar af látnum ástvini og hreinlega höfum hann með í jólahaldinu og erum meðvituð um að það að fella tár er ekki barasta í lagi á jólum það er hreint og beint í anda þeirra. Því hvað er sorgin annað en það sem Jesúbarnið bar í heiminn? Ástin í sinni tærustu mynd.

 

Published inHugleiðingar