Eins og ástin er andstæða haturs er friður andstæða óttans. Á dögunum hitti ég konu sem sagði mér að hún væri nýbúin að fá þær góðu fréttir að krabbamein sem hún hefur barist við undanfarna mánuði sé farið. Eftir að henni bárust þessar fréttir svaf hún meira og minna í heila viku. Hún var ekki lengur skelfingu lostin, taugakerfið slakaði loks á og friður færðist yfir hana. Ég tengdi vissulega við lífsreynslu hennar hafandi fengist við sama sjúkdóm og þekki einmitt þennan himneska frið blandinn óumræðanlegu þakklæti þegar góðar fréttir berast. Þetta er lognið á eftir storminum, það er sko allt annað logn en það sem hefur varað í langan tíma. Ég gleymi því ekki þegar ég var að fá góðar fréttir fyrst eftir mín veikindi hvernig slökunin og friðurinn sem færðist yfir mig kveikti á stórflóði ástarjátninga til barnanna minna og hvernig ég fylltist yfirþyrmandil löngun til að kafffæra þau í ást og umhyggju. Friður opnar nefnilega kviku ástar og ástin kviku friðar svo úr verður heilt eldgos kærleika.
Þegar við verðum hrædd höfum við í besta falli lítið að gefa en í versta falli verðum við vond eins og sýnir sig í átökum þjóða. Óttinn býr í okkur öllum. Oftast í saklausu formi en því miður einnig með hræðilegum afleiðingum.
Skoðum fyrst aðeins þessar saklausu birtingarmyndir sem margir tengja við. Mörg okkar hafa jú ýmsar fóbíur. Sumir eru til dæmis hræddir við að fljúga og þá hafa tölulegar, sannreyndar staðreyndir mjög lítið að segja við að sefa þann ótta. Sá sem er hræddur að fljúga getur þess vegna tekið ákvörðun um að setjast frekar upp í bíl og aka í glerhálku milli Akureyrar og Reykjavíkur í stað þess að stíga upp í flugvél og þjóta um heiðskíran himinn í rúman hálftíma með þrautreynt fólk í flugstjórnarklefanum og flugturninum sem hefur fengið minnst þúsund klukkustunda þjálfun við að koma farþegum á milli staða auk þess sem langþróað tölvukerfi bakkar á endanum upp allan mannskapinn. Annað dæmi getur varðað þá sem eru með sjúklegan heilsukvíða og vænta þess alltaf að hver hausverkur eða magapína sé illvígur sjúkdómur á lokastigi þó að ekkert bendi til þess að viðkomandi eigi slíkt á hættu. Þannig getur heilsukvíði orðið til þess að fólk leitar endalaust til lækna og undigengst jafnvel viðamiklar rannsóknir og myndatökur sem eru í raun aldrei alveg skaðlausar. Þannig geta ýmsar fóbíur eða ótti valdið skaða miklu fremur en viðfangið sjálft sem kveikir óttann. En þetta eru í raun bara saklausu birtingarmyndirnar. Þær hræðilegustu blasa nú við okkar frá Gaza, Úkraínu, Súdan, Sýrlandi, Jemen, Afganistan, Eþíópu að ógleymdum eiturlyfjastyrjöldum í Kólumbíu og Mexíkó svo fátt eitt sé nefnt. Stríð kvikna alltaf af ótta, aldrei af rökrænni hugsun. Græðgi er í rauninni ótti, óttinn við að vera dauðleg vera og halda að völd og eignir geri þig ódauðlegan.
Elskan er ekki í óttanum sagði Jesús sem er auðvitað ástæða þess að hann var alltaf að biðja okkur um að vera ekki hrædd. Alveg frá því engillinn hans birtist fjárhirðunum á Betlehemsvöllum og þeir bökkuðu aftur af ótta við hið óþekkta. „Óttist ekki, ykkur er frelsari fæddur“ sagði engilinn og hvatti þá til að halda göngunni áfram í gegnum myrkið og leita hans í stað þess að standa þarna stjarfir og aðgerðarlausir. Og þeir gerðu það blessaðir. Og af því að þeir tóku hvatningunni um að láta ekki óttann ráða för þá fundu þeir auðvitað frelsarann í fjárhúsinu og himneskur friður færðist yfir þá. Þeir hættu að skammast sín fyrir að vera fátækir fjárhirðar og sáu að þeir gátu svo margt ef þeir bara trúðu og treystu á Guð í sálinni sinni. Þeir voru miklu meira en samfélagið hafði sagt þeim að þeir væru, það sáu þeir í augum frelsarans. Þetta er sístæð saga um að leita ljóssins og trúa á virði sitt óháð ytri veruleika eða með öðrum orðum trúa á eitthvað stærra en það sem mennirnar skapa. Veistu hvaða fólk er oft afkastamest og lætur virkilega um sig muna í starfi? Það er fólkið sem óttast ekki missa starfið. Það er fólkið sem finnur að þótt það yrði rekið þá myndi það ekki þýða nein endalok né óhamingju fyrir það og þess vegna þorir það að leita fram á við í hugmyndum og starfi. Veistu hverjir lifa besta hjónabandinu? Það er fólkið sem treystir maka sínum og reynir ekki að stjórna honum og byggir ekki eigið virði á því að vera í hjónabandi heldur lítur eingöngu á hjónabandið sem gjöf sem auðgar lífið og stækkar hjartað. Sá sem óttast sífellt að missa eitthvað og er alltaf á varðbergi hjúpast tefloni gagnvart hinu góða en hinn sem hvílir í guðlegu æðruleysi finnur gjafir á hverjum degi, meira að segja á vondu dögunum þegar raunverulega dimmir yfir.
Frið læt ég ykkur eftir, minn frið gef ég ykkur sagði Jesús. Segjum já takk, því friður er dýrmætast auðlind lífsins sem dýpkar og stækkar fyrir elsku, trú og hugrekki. Amen.