Mörgum hjónaböndum lýkur vegna þess að annar aðilinn eða báðir telja sig ekki lengur elska makann. Þegar frá líður skilnaði undrar fólk sig á því að hamingjan láti á sérstanda svo þegar betur er að gáð kemur í ljós að það var ekki makinn sem svo erfitt var að elska. Auðvitað er hér aðeins dregin upp ein mynd af fjölmörgum þegar kemur að hjónaskilnuðum og stundum er ástæða þeirra mjög augljós og skýr og skilnaður hið eina rétta í stöðunni.
Ég hef alveg upplifað mig óhamingjusama í mínu hjónabandi og velt því fyrir mér hvort ekki væri einhver annar þarna út í veröldinni sem myndi skilja mig betur og styðja með markvissu hrósi og uppörvun að ég tali nú ekki um að gera líf mitt að einu samfelldu ævintýri , já einhver sem væri alltaf að koma mér skemmtilega á óvart.Ég man að ég hugsaði þetta stundum þegar ég var búin að sulla í mig nokkrum rauðvínsglösum við undirleik meistara Tom Waits sem er örugglega einn „bjartsýnasti“ tónlistarmaður sem gengið hefur um þessa jörð og þótt víðar væri leitað ,eða þannig, já ég kunni svo sannarlega að velja mér lífsstílsmeistara í þessu annarlega ástandi og það sem meira var, tónlistarsmekkurinn hafði ekkert breyst síðan ég var við sömu iðju í menntaskóla sem gerir þetta auðvitað enn dapurlegra. Dag einn tók ég því ákvörðun um að hætta að drekka og það er besta ákvörðun sem ég hef tekið um ævina og mikilvægari en til dæmis að verða prestur, vegna þess að edrú manneskja gerir lífinu meira gagn en blautur prestur.
Sjálfsagt myndi einhver segja að ég hafi nú ekki verið mjög drykkfelld eða allavegana farið vel með sopann en það er vegna þess að margir miða alkóhólisma við það magn áfengis sem fer inn fyrir varir neytandans en ekki hegðunina í kringum það. Ég hef kannski ekki notað meira vín á ársgrundvelli en margur sem telur sig hafa fulla stjórn en það breytir ekki því að áfengið var harður húsbóndi í mínu lífi og það sem verra var kom í veg fyrir að ég gæti elskað sjálfa mig af öllu hjarta, huga og sálu eins og hann Jesús hvetur okkur til að gera í öllum sínum orðum og verkum. Nú mun einhver hugsa, „hvað er málið með þessa manneskju er hún algjörlega athyglissjúk, fyrst talar hún um þessa kvíðaröskun þannig að enginn kemst hjá því að heyra og svo ætlar hún að fara að tala um alkóhólisma.“ Ég hef reyndar ákveðinn skilning á þessari hugsun og afstöðu, margir eru komnir með nóg af endalausum lífsreynslusögum og þolendarýni samtímans sem þeir telja í besta falli sjálfhverfu og barnaskap. En málið er bara að ef fólk er komið í kirkju til að hlusta á djúpvitran guðfræðing þá verður það að bíða þangað til einhver annar stígur í stólinn, ég er nefnilega enginn sérstakur fræðimaður. Ég er hins vegar prestur og manneskja, ekki þó fullnuma í þeim fræðum en böðlast þetta áfram eins og þið hin. Þess vegna leita ég gjarnan að guðfræði í sammannlegri reynslu og segi lífsreynslusögur því þær eru auðvitað ekkert annað en dæmisögur nútímans.
Ástæðan fyrir því að ég segi frá þessu með vínið er alls ekki til að uppskera lófaklapp, hrósyrði eða forsíðufrétt í dagblöðum heldur til að upplýsa um hvernig allt varð betra þegar ég sagði skilið við böðulinn hann bakkus. Það eru reyndar nokkrar milljónir manna sem hafa uppgötvað þetta á undan mér, þannig að ég er sennilega ekki að fara fá Nóbelinn.
Með því að hætta sá ég til dæmis að að ég hafði aldrei verið neitt óhamingjusöm í mínu hjónabandi enda á ég alveg einstaklega vel heppnaðan maka, ég hafði bara oft verið óhamingjusöm vegna þess að í áfengisneyslunni var ég að lifa undir getu og þá vildi svo til að í því ástandi var ég líka í hjónabandi. Ég uppgötvaði líka að ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hafði ekki úrslitaáhrif á lífshamingju mína ekki frekar en þær ríkisstjórnir sem á undan hafa setið, þetta er bara fólk sem er að reyna að finna út úr hlutunum með sínar mannlegu takmarkanir eins og ég og þú. Ritstjórnarstefnur dagblaðanna voru heldur ekki ástæða óhamingju minnar, fréttir af endalokum þjóðkirkjunnar sem birtust á forsíðu Stundarinnar urðu mér ekki áhyggjuefni og þaðan af síður til gremju af því að ég veit að kirkjan verður alltaf til sama hvernig rekstrarformi hennar verður háttað, rétt eins og fjölskyldur verða alltaf til þó að fjölskylduformið taki á sig nýjar myndir. En um leið og ég fékk þessa nýju sýn á minn innri veruleika fór ég að velta fyrir mér hvort lífshamingja heimsins sé jafnvel í gíslingu deyfiefna sem deyfa ekki bara vondu tilfinningarnar heldur líka þær góðu sem okkur er ætlað að byggja farsæld okkar á, já sem hjálpa okkur að elska án tvöhundruð skilyrða. Ég hjó til dæmis eftir því í fréttum að einn af höfuðpaurum nýliðinna hryðjuverka árása í París sást inn á einhverjum bar að reykja hass þennan dag, hann var sem sagt ekki inn í mosku að lesa kóraninn til að peppa sig upp í dagsverkið.
Ég er sannarlega ekki orðinn einhver fanatíker því ég veit að margt fólk hefur gott lag á neyslu áfengis eins og á sykri, kaffi og öðrum ávanabindandi efnum. Ég horfi svo sannarlega ekki með vanþóknun á fólk með rauðvínsglas í hendi heldur gleðst yfir því að geta tekið þátt í stundinni án þess að vakna daginn eftir með þá tilfinningu að hafa orðið manni að bana eða gengið nakin um miðbæ Akureyrar. Ég verð að segja að það eru talsverð lífsgæði að losna undan þeirri áþján.
Skortur á sjálfselsku er hæsti hamingjuþröskuldur mannkynsins og sjálfshatur er helsta ástæða ófriðar í heiminum í dag, bæði innan veggja heimilanna sem og milli þjóða. Í mínu starfi sé ég þetta best innan fjölskyldna og milli hjóna, þegar farið er að grafast fyrir um ástæður óhamingjunnar og vanlíðunar í samskiptum er það brotin sjálfsmynd eða skortur á sjálfselsku og trú á eigið gildi sem kemur í veg fyrir að fólk geti ræktað tengsl. Þá skiptir það yfir í bakkgír eða fórnarlambsgír gagnvart sínum nánustu þar sem það kemur ekki auga á aðal gerandinn sem er fastur við hálsinn á því og stýrir öllum tilfinningum. Ef við hlypum ekki í bakkgírinn eru nefnilega góðar líkur á því að við myndum takast á við bæði minniháttar og meiriháttar ágreining með það fyrir augum að leysa hnúta en ekki binda þá enn fastar. Og af því að fjölskylduformið er bara smækkuð útgáfa af þjóðfélaginu og skipulagi þess þá gilda sömu lögmál um samskipta þeirra sem fara með völd og þeirra sem eiga mikið undir því að ákvarðanir valdhafa séu teknar af „sjálfselskandi“ fólki. Fólki sem upplifir sig ekki sem fórnarlömb í mótbyr heldur sem ábyrgðarfulla leiðtoga sem valdir hafa verið til forystu vegna hæfileika sinna og getu. Sá eða sú sem er valin í ábyrgðarstöðu í þjóðfélaginu þarf fyrst að taka ábyrgð á eigin líðan,viðkomandi þarf að vera edrú á allan mögulegan máta og þegar ég tala um ábyrgðarstöður á ég ekki bara við stjórnmálin heldur líka kirkjuna, fjölmiðla, menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir, fjármálastofnanir, forsetaembættið osfrv. Alls staðar þar sem fólk leggur trúnað á þjónustu og upplýsingar og treystir því að framlag stofnunar og einstaklinga sé ekki á valdi kvíða og sjálfshaturs.
Í dag er fyrsti dagur nýs árs, spádómar um framtíðina eru jú vinsæl dægradvöl við þessi tímamót en það skiptir bara óskaplega litlu máli hvað framtíðin ber í skauti sér, hverjar sorgir hennar og sigrar verða ef við erum ekki við stjórn í eigin lífi, þá munum við hvort eð er aldrei trúa því að við komumst í gegnum erfiðleika og þaðan af síður að við eigum sigrana skilið. Því er mín hvatning til þín á nýju ári sú að þú stundir meiri sjálfsást, þannig sköpum við frið í þessum heimi.
Dæmisaga nútímans
Published inPistlar