Lesa meira“Hefurðu lesið alla Biblíuna?” "/> Skip to content

“Hefurðu lesið alla Biblíuna?”

„Hefurðu lesið alla Biblíuna?“ Er ein algengasta spurning sem ég hef fengið síðan ég hóf minn prestskap. Á fyrstu metrunum var svar mitt nokkuð loðið „ja svona næstum því“ en í dag er það mjög afdráttarlaust og satt„nei og hef heldur ekki hugsað mér það.“ Að lesa alla Biblíuna bara til þess að geta sagst hafa gert það er eins og að borða sig saddan í fjórtán fermingarveislum án þess rauninni að langa það. Þá er líka best að upplýsa að samlíkingin er ekki alveg úr lausu lofti gripin því undirrituð gerði þetta einmitt á barnsaldri, ekki vegna þess að hún væri svo svöng heldur vegna þess að hún var ekki búin að hugsa gjörninginn til enda og líka vegna þess að pabbi hennar var prestur í litlu samfélagi og þeim því boðið í allar þessar veislur.
Biblían er fjölmenningarsamfélag, hún býður ekki upp á ein algild siðalögmál frekar en sá heimur sem við lifum í og hún býður heldur ekki bara upp á fegurð frekar en veröldin sem við tilheyrum. Biblían er eins og Facebook þar sem fólk viðrar skoðanir sínar á Guði og mönnum, mannréttindum , trú og trúleysi án þess að vita í raun hver hefur á endanum rétt fyrir sér. Biblían er samtal fjölda fólks við Guð og menn, fólks með ólíkan bakgrunn og lífsviðhorf. Þess vegna er ég á efins um ágæti mannakorna, að fólk dragi sér daglega orð í þeim tilgangi að nærast af handahófskenndum línum úr Biblíunni, ég held að það sé svolítið eins og að borða bara einhvern mat og vita ekkert hvað hann inniheldur sem er einmitt það sem næringarfræðingar eru alltaf að brýna fyrir fólki að gera ekki, hafi það á annað borð hug á að lifa heilsusamlegur lífi. Við verðum að lesa Biblíuna í samhengi til þess að hún komi að raunverulegu gagni, við eigum heldur ekki að skauta framhjá óþægilegu köflunum sem eru býsna margir, ekki síst í Gamla testamentinu. Kaflar sem birta guðsmynd sem nútímamanninum hugnast síður. Við eigum að lesa Biblíuna með sagnfræði, félagsfræði, sálfræði, lífsreynslu og kynjagleraugu á nefinu. Biblían er ekki eins og nútíma sjálfshjálparbækur sem tala inn í okkar samtíma og segja okkur eitthvað sem við flest vitum en þurfum stundum hjálp til að horfast í augu við. Lestur Biblíunnar er meira krefjandi en svo, ekki síst ef við ætlum okkur ekki að falla í pytt bókstafstrúar. Bókstafstrúin er tvíþætt en báðir þættir eru að mínu mati ógagnlegir. Annars vegar er um að ræða þá trú að hvert orð Biblíunnar sé innblásið af Guði og beri að gleypa ótuggið án þess að spyrja sig spurninga og hins vegar er það bókstafstrúin sem velur að taka það sem sagt er í Biblíunni bókstaflega í þeim tilgangi að benda á ógagn hennar og illsku.
Lífsreynslugleraugun eru gríðarlega mikilvæg við lestur Biblíunnar, sumt ætti fólk ekki að lesa fyrr en það er komið til vits og ára, ég viðurkenni að hafa í gegnum tíðina stundað gegndarlausa ritskoðun á biblíusögum í sunnudagaskólanum og jafnframt í fermingarfræðslunni, það er nefnilega einhver ástæða fyrir því að ungabörn drekka sérstaka mjólk á fyrstu mánuðum ævinnar í stað þess að borða reykt kjöt, kartöflur og uppstúf. Þess vegna segi ég börnum þær sögur sem þau hafa forsendur til að skilja, vegna þess að það er ekki gagnlegt að segja þeim hinar sögurnar og lestur Biblíunnar á að vera til gagns. Þegar barn er fært til skírnar táknar lengd skírnarkjólsins það að barnið á eftir að vaxa og þroskast í trúnni og fylla upp í skírnarkjólinn sinn í andlegri merkingu, persónulega finnst mér ég enn vera að fylla upp í þennan skírnarkjól. Ég stend mig að því að skilja ritningarlestra á nýjan hátt eftir því sem árin líða og líf mitt tekur breytingum og ég sjálf tek breytingum. Aldrei hafði Davíðssálmur 139 haft neitt nýtt að segja mér fyrr en náinn ástvinur greindist með heilabilunarsjúkdóm en á sama tíma horfði ég á kvikmynd byggð á ævi bresku skáldkonunnar og heimspekingsins Iris Murdoch sem lést sjálf úr slíkum sjúkdómi en í lok myndarinnar fer hún með línur úr þessum sálmi og allt í einu varð hann mér svo mikil huggun í eigin sorg, sérstaklega þessar línur: Þótt ég lyfti mér á vængjum morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér. Og þótt ég segði „myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt, þá mundi myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér. Sálmurinn svaraði því sem ég var búin að vera spyrja Guð að í gegnum veikindi föður míns „ Guð er hann nokkuð einn í þessum óminnisdal, veit hann ekki örugglega af þér.“
Biblíulestur krefst þess ekki að maður sér búinn að læra guðfræði í fimm ár, hann krefst þess að maður rýni í orðið með sína lífsreynslu og skapandi huga að vopni, þannig verður Biblían jafn lifandi og sá sem les. Sumir kaflar hennar tilheyra fortíðinni, aðrir nútíðinni og enn aðrir bíða manns í framtíðinni. ( Fyrst birt í blaði Biblíufélagsins)

Published inPistlar