Lesa meiraList, trú og dauði "/> Skip to content

List, trú og dauði

Ég er búin að fatta hvers vegna ég finn til svona mikillar samkenndar með listamönnum í umræðunni um listamannalaun, í fyrsta lagi er það vegna þess að í mínum augum er listin hreinlega andardráttur mannlífsins og hins vegar er það vegna þess að það eru talsverð líkindi milli umræðunnar um list og trú og listamenn og þjóðkirkjuna, það er stórkarlastemningin sem hljómar einhvern veginn svona “af hverju að ausa peningum í hindurvitni sem valda börnum bara heilaskaða eða listsköpun sem hver sem er gæti nú framkvæmt, ha! það þarf nú engan meistara til að sletta smá málningu á striga hahahaha, af hverju að fara á tónleika þegar maður getur hangið á kommentakerfinu?“ Í alvörunni, er þetta þjóðarsálin sem við viljum varðveita, þjóðarsálin sem sér ekki gæði í öðru en að draga fisk úr sjó og fara á Þorrablót?
Mér dettur í hug í þessu samhengi að dauðinn sem er nú viðfangsefni mitt flesta daga á það til að skilja hismið frá kjarnanum, þegar ástvinur kveður, hvað skyldi nú skipta eftirlifendur mestu máli við undirbúning minningarorðanna sem presturinn sér svo um að skrifa? Það er ekki hvað viðkomandi hafði í laun og hvenær hann fékk stöðuhækkun, heldur hvað viðkomandi var skapandi. Næstum hver einasta líkræða sem ég skrifa segir frá því hvað hinn látni var listrænn og skapandi, hvað hann var mikill dýravinur, hvað hann var mikið fyrir fjölskylduna, hvað hann naut þess að ferðast um landið og þó hann hafi ekki tjáð sig um trúna þá hafi hann sýnt hana í verki. Sumsé hvað list, trú og náttúra skiptu miklu máli í lífi hans.

Published inPistlar