Aldrei hefði mig grunað þegar ég lauk guðfræðiprófi fyrir um áratug síðan með kandidatsritgerð um samskipti Jesú við samversku konuna sem hann leysti úr ánauð fordóma og kynjamisrétti, að þegar ég færi út í starf sem prestur ætti mér stundum eftir að líða eins og ég ynni í klámiðnaðinum.
Ég var innblásin af nýrri guðfræði sem dr.Jón Ma Ásgeirsson og dr.Arnfríður Guðmundsdóttir ofl kennarar við deildina höfðu kynnt okkur nemendur fyrir. Jón heitinn sneri við öllum steinum í fjörunni og stillti okkur upp við vegg, spurði hvernig við ætluðum að boða upprisu í samfélaginu þannig að upplýstur nútímamaðurinn gæti fundið þar merkingu, kinnroðalaust. Hjá Jóni fór ég fyrst að sjá upprisuna í margbreytilegu ljósi, ekki bara sem von um að lífið hefði ríkan tilgang þrátt fyrir þjáningar og dauða, heldur fór ég líka að sjá þennan undarlega atburð sem von um að baráttu fyrir félagslegu réttlæti væri alltaf þess virði að heyja, jafnvel þótt manni entist ekki aldur til að njóta eða sjá afrakstur erfiðisins. Þannig fór ég að líta á upprisuna sem takmark alls sem ég geri með manngildishugsjónir að leiðarljósi, upprisan varð mér hvatning til að halda áfram og meira að segja hvatning til að finna tilgang í mínum eigin persónulegu áskorunum þannig að þær gætu jafnvel orðið samfélaginu til blessunar.
Svo fór ég að vinna í kirkjunni og það var gott og gefandi og sem betur fer uppgötvaði ég eftir fimm ára háskólanám að ég hafði valið rétt og varið tímanum til góðs, sú skoðun hefur ekki breyst. Að starfa sem prestur er ekki meiri fórn en önnur störf, í preststarfinum fær maður mikið til baka og upplifir ríkan tilgang með því sem maður gerir, í starfinu myndast oft mjög sterk tengsl við annað fólk, bæði í gegnum gleði og sorg.
Þegar kemur að opinberri orðræðu líður mér hins vegar svolítið eins og ég sé starfandi í klámiðnaðinum.
Það er stundum eins og kirkjan sé að bjóða upp á eitthvað sem má svo sem vera til en er best að hafa undir borðum. Ef samtíminn væri vídeóleiga þá væri kirkjan í bláu möppunni undir borði sem þú getur fengið að skoða ef þú biður afgreiðslumanninn fallega og þá borgar sig líka að hvísla svo að hinir viðskiptavinirnir sjái ekki hvurslags týpa þú ert. Í fjölmiðlum eru sérstakar rásir eða stöðvar fyrir kristilegt efni sem eru reyndar ekki læstar en það er auðvitað næsta skref. Á Rúv er reynt að koma til móts við þennan hóp sem ánetjast þessu efni og er þá útvarpað á þeim tíma sem venjulegt fólk er ekki á fótum, bara eldri borgarar sem eru alveg blygðunarlausir neytendur efnisins og rífa sig upp fyrir klukkan sex á morgnana til þess að keyra sig í gang fyrir daginn.
Það væri í besta falli hroki að halda því fram að maður þurfi að þekkja Jesú og eiga trú á hann til að vita hvað skiptir máli í þessu lífi og til að forgangsraða rétt, mér dytti ekki í hug að halda því fram enda á ég marga góða vini og samferðarfólk sem trúir ekki á Jesú en lifir mjög fallega og tileinkar sér hluti sem væri frelsaranum að skapi. Ástæðan fyrir því að ég persónulega trúi á Jesú er sú að ég mér finnst ég alltaf og undantekningarlaust geta leitað leiðsagnar hjá honum, auðvitað mæti ég honum í mörgu fólki sem veitir mér mikilvæga leiðsögn með framkomu sinni og lífsafstöðu en við erum öll manneskjur sem þýðir að við erum öll takmörkunum háð, sem er í lagi svo framarlega sem við gerum okkur grein fyrir því. Mér finnst samfylgdin við Jesú hjálpa mér svolítið að muna það að ég hef t.d. ekki alltaf rétt fyrir mér og að ég hafi ekki höndlað hinn endanlega sannleika og beri þess vegna skylda til að hlusta á önnur sjónarmið og virða margbreytileikann. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að þjóðin hafi rými til að gagnrýna kirkjuna, kirkjan er borin uppi af fólki og þess vegna þarf hún líka aðhald frá fólki. Heilbrigði kirkjunnar er háð því að við séum öll á vaktinni og þorum að snúa við steinunum í fjörunni eins og kennararnir mínir í guðfræðideildinni hvöttu okkur nemendurna til að gera þegar ég stundaði þar nám enda er guðfræðin akademískt nám þar sem áhersla er lögð á gagnrýna hugsun.Ég vil að kirkjan fái aðhald frá samfélaginu alveg eins og ég vil sjálf fá uppbyggilega gagnrýni svo ég geti haldið áfram að gera eitthvert gagn. Heilbrigði kirkjunnar og gagnsemi er háð því að hún fái að þroskast eins og persóna og það verður ekki gert með því að ýta henni út í horn eða segja henni að skammast sín.