Lesa meiraForvitni gegn einelti "/> Skip to content

Forvitni gegn einelti

Við fæðumst forvitin. Ég held að það þýði að okkur sé ætlað að vera það. Stundum eru börn mjög óhefluð í forvitni sinni. Margir foreldrar hafa lifað pínlegar stundir í búningsherbergjum sundlauga þar sem barnið hefur t.d. bent og spurt hvort kallinn sé með barn í maganum. Þetta eru svona augnablik þar sem væri vel þegið að jarðskorpan myndi opnast og maður fengi að hverfa í móðurjarðarskaut, nakinn á líkama á sál. Við vitum samt að spurningar sem þessar eru ekki bornar fram af illsku heldur einlægum, óhefluðum áhuga fyrir lífsins undri. Þess vegna þurfum við bara að hjálpa börnunum okkar að stýra forvitninni í góðan farveg, því forvitni er svo mikilvæg, já eiginlega lífsnauðsynleg. Ekki skipta forvitni út fyrir skömm, það eru afleit býtti.
Forvitni er mikilvæg forsenda náinna tengsla, hún skapar nánd hjá fólki sem þarf, velur og vill vera samferða í þessu lífi. Þegar hriktir í stoðum hjónbandsins má gjarnan kjarna vandann niður í skort á nánd, fólk er hætt að vera forvitið um hvort annað,hætt að spyrja spurninga og sýna makanum áhuga og eftirtekt. Þá fer gremjan að krauma í iðrum sálar þangað til nýtt holuhraun verður til á stofugólfinu.
Forvitni er forsenda allrar framþróunar hvort heldur sem er í persónulegu eða opinberu lífi, forvitni er undirstaða menntunar, þroska og næmi fyrir líðan annarra. Við getum ekki skilið líðan fólks öðruvísi en að spyrja opinna spurning af hvöt til að vita meira, læra og þekkja. Þess vegna vil ég meina að forvitni sé ein besta forvörnin gegn einelti þ.e. þessi meðfæddi eiginleiki að finnast fólk áhugavert og langa til að vita meira um það, hvernig því líður og hvað það sé að hugsa. Ein helsta ástæðan fyrir því að einelti þróast er skeytingarleysi gagnvart líðan þess sem fyrir því verður. Ég held að það vakni enginn upp einn sólbjartan morgunn og ákveði að nú sé fyrirtaks dagur til að vera vondur við skólafélaga, vinnufélaga eða fjölskyldumeðlimi. Einelti er birtingarmynd nándarleysis, bæði hjá börnum og fullorðnum, hins vegar er það á ábyrgð okkar sem eldri eru að hjálpa börnunum okkar að snúa þeirri þróun við og vera þeim fyrirmyndir í því að láta sig annað fólk varða. Spurningarnar “hvernig líður þér” eða “hvernig hefurðu það “er t.d. góð byrjun, það eru opnar spurningar sem endurspegla þessa umhyggjusömu forvitni, “segirðu ekki allt gott” er hins vegar flóttaspurning, ekki illa meint en býður samt eiginlega aðeins upp á eitt svar “jú bara fínt.” Þetta er ekki spurningin um að breytast skyndilega í sálfræðing og auðvitað höfum við ekki alltaf tíma eða tök til að iðka þessa nálgun en það er engu að síður gott að hafa þessi samskiptagleraugu á nefinu ( Að halda forvitninni á lífi, Guðbrandur Árni Ísberg, Í Nándinni ,2013 s.191-3)
Einelti er mikið samfélagsmein. Í starfi mínu sem prestur er ég hvað eftir annað minnt á afleiðingar eineltis, í sálgæsluviðtölum kemur þessa sára reynsla svo oft í ljós. Hún eltir sjálfsmyndina og reynir hvað eftir annað að bregða fyrir hana fæti og það er svo vont því sjálfsmyndin er einhver mikilvægasti áttaviti okkar í mannlegum samskiptum, í ástarsamböndum, í vinnunni, í skólanum, sjálfsmyndin hefur mikil áhrif á hæfni okkar til að stjórna neikvæðum hugsunum og setja sjálfum okkur sem og öðrum mörk.
Barnaheill stendur nú fyrir forvarnarátaki gegn einelti í leikskólum þar sem lögð er áhersla á að efla vináttuna og kenna börnunum að virða fjölbreytileikann. Allir eru ómissandi og öll erum við nógu góð eins og við fæðumst inn í þennan heim, nakin með fálmandi hendur og hjarta sem treystir. Ég styð jólapeysuátak Barnaheilla gegn einelti og ef þú skorar á mig á jolapeysan.is mun ég messa í slíkri peysu á sjálfu aðfangadagskvöldi þegar við fögnum fæðingu barnsins sem um síðir var hrakið og smáð upp á Golgatahæð, einmitt vegna þess að menn spurðu ekki spurninga heldur ákváðu bara hver hann væri.

Published inPistlar