Lítil barnshönd læðir sér í lófa gömlu konunnar um leið og dyrnar að Oddeyrargötu 6 leggjast aftur. Ég er 7 ára á leið með Gerði ömmusystur minni niður á Amtsbókasafn, hún heitir Gerður en er kölluð Dæja líkt og miðsystir mín en ég kalla hana líka nöfnu þó hún sé það ekki í raun, þá finnst mér ég eiga enn meira í henni. Svo kalla ég hana líka Dæju gömlu til aðgreiningar frá systur minni en ég geymi það lýsingarorð fyrir sjálfa mig, Dæja veit að hún er gömul enda komin yfir áttrætt, lítil og grönn með grátt fíngert hár, skarpa andlitsdrætti og augu sem virðast svo agnarlítil í gegnum þykk hornspangagleraugu. Í raun hefur mér alltaf þótt hún Nafna svipa til Nóbelsskáldsins okkar og þó veit ég ekki til þess að nokkur skyldleiki sé þar á milli. En þó augun hennar Nöfnu virki lítil endurspegla þau stóra sál.
Dæja gamla vann í mörg ár við að binda inn bækur í prentsmiðju Odds Björnssonar á Akureyri, hún hefur sagt mér frá því, hún talar af mikilli virðingu um bækur og ég sé aðeins fallega innbundin eintök í hillunum hennar,þar eru ýmsir titlar, „Anna Karenina“, „Veröld sem var“ ofl. Stórir bókatitlar í agnarsmárri íbúð sem rúmar ekki einu sinni baðkar eða sturtu, frænka baðar sig í sundlauginni, mér finnst það alltaf jafn skrýtið og skil ekki hvers vegna konan á efri hæðinni sem leigir frænku íbúðina skuli ekki leyfa henni að nota baðið sitt,þegar maður er barn sér maður heldur ekki slíkar hindranir. Þess vegna vel ég að leyfa þeirri ágætu konu að finna til tevatnsins eitt sinn þegar ég er í heimsókn hjá frænku. Ég kem hróðug niður eftir dálitla kurteisisheimsókn á efri hæðina og tilkynni Nöfnu að ég hafi sett alla Playmokallana hennar Boggu í bakaraofninn og stillt á hæsta straum. Aldrei hef ég séð litlu augun hennar frænku minnar verða eins stór og grönnu fæturna hlaupa eins hratt. Þegar hún kemur niður er hún ringluð af áreynslu og spyr hvernig í ósköpunum mér hafi dottið þetta í hug, því var fljótsvarað“ nú mér finnst bara að hún Bogga eigi að leyfa þér að nota baðkarið sitt.“ Um þetta var ekki frekar rætt það virðist heldur ekki vera sem Nafna hafi sagt mömmu og pabba frá hefndaraðgerðunum því þau minnast ekkert á þetta, ég held áfram að fara skjálfandi upp til Boggu að biðja um meira dót. Nafna á engan mann og engin börn, svo hún dekrar bara við okkur systkinin en dekrið hennar er ekki fólgið í mörgum orðum eða atlotum, ekki í dýrum gjöfum eða peningaseðlum, það er fólgið í öðru sem ég þekkti ekki þá en veit í dag að heitir fyrirhöfn. Þegar ég er lítil og kem til Nöfnu er alltaf sama marsipantertan frá Kristjáni bakara í ískápnum, hún hefur sjálf ekki snert á henni og ég veit ekki einu sinni hvort henni þykir hún góð en mér finnst hún góð og þess vegna er hún til. Í efri skápnum í svefnherberginu eru ópalpakkar, stundum bláir, alltaf rauðir en á hátíðisdögum grænir af því að grænn er bestur, mér finnst alltaf jafn fyndið að nafna skuli geyma pakkana svona hátt uppi því hún er svo lítil og þarf að hafa svo mikið fyrir því að ná í þá en það gerir líka hverja ópalstund að helgistund, fyrirhöfnin og ritúalið í kringum hvern pakka. Í litlum skáp við hliðina á sjónvarpinu í stofunni er alltaf til einn pakki af Faunavindlum, ekki fyrir Nöfnu, heldur mömmu sem finnst gott að kveikja sér stundum í vindli, sjónvarpið aftur á móti er svo gamalt að það teygir JR í Dallas lóðrétt upp skjáinn svo að kúrekahatturinn verður eins og viskýflaska á höfði hans en við systkinin engjumst um af hlátri, Nafna þykist ekkert skilja, hún ætlar ekki að fara að spandera í nýjan skjá.
Og svo förum við á Amtsbókasafnið og ég tek tvær bækur fyrir mig á meðan Nafna leitar sjálf að ævisögum til að lesa, hún er nefnilega þingeyingur og þarf að vita um ættir annara.
Á Þorláksmessu ekur pabbi inn á Akureyri að sækja Nöfnu, við systkinin þekkjum jólagjafatöskuna hennar og vitum að innihaldið er talsvert nýrra og fallegra en taskan sjálf sem mér skilst að þau Helgi magri og Þórunn hyrna hafi átt þegar þau námu fjörðinn.
Nafna sefur með mér í herbergi, mér finnst það gott, þá veit ég að einhver nennir að vakna með mér klukkan sex á aðfangadag. Undir rúminu geymir hún náttgagnið sitt sem hún losar strax í bítið, ég veit að hún er fædd 1906 og geri því engar athugasemdir við háttarlagið. Nafna skiptir um kjól þrisvar á dag alla jóladagana, fyrst er það morgunkjóll, þá miðdegiskjóll og loks kvöldkjóll þegar hún er komin í kvöldkjólinn er tímabært að setjast við orgelið og svo stígur hún pedalana og leikur Bjart er yfir Betlehem.
Síðustu jólin hennar í þessum heimi er ég orðin 12 ára og forvitnari en áður, ég spyr hana um langömmu og langafa og hvernig jólin hennar og ömmu Hlínar hafi verið, þegar þær voru litlar stúlkur. Það var þá sem ég sá Nöfnu fyrst gráta, hún sagði mér frá því þegar pabbi hennar, langafi minn varð mikið veikur á jólum og þurfti að dvelja á sjúkrahúsi, og hvað þær systur hafi verið hræddar og öryggislausar. Mér finnst frásögnin vissulega sorgleg og sé þessi dapurlegu jól hennar fyrir mér í huganum en um leið hríslast um mig sæluhrollur yfir því að einhver fullorðin skuli gera mig að trúnaðarmanni tilfinninga sinna.
Og svo dó hún Nafna og ég grét eins og ég ætti lífið að leysa, ekki af því að dauði hennar hafi verið óvæntur eða af því að ég ætti ekki aðra að í veröldinni, heldur af því að hún var svo mikil manneskja og þó ég hefði aldrei geta skilgreint það þá, þá sé ég það nú, orðin sjálf fullorðin hvað þessi hógværa hversdagslega frænka mín var mikil manneskja, ég man að þegar mamma og pabbi voru að fara í gegnum dótið hennar eftir andlátið og mamma opnaði litla sjónvarpsskápinn datt fullur Faunavindlapakki út úr skápnum og mamma fór að skæla af því að Nafna hafði alltaf gætt þess að þeir væru til.
Hvað er að vera manneskja annað en það að hafa fyrir öðrum? Þess vegna er einmitt svo mikill ábyrgðarhlutur að vera foreldri og uppalandi, og þess vegna er svo mikilvægt að eiga marga að í uppeldinu þegar maður er barn og ómótaður einstaklingur, já margar manneskjur sem sá frækorni fyrihafnarinnar í vitund manns og hjarta. Öll okkar grundvallarafstaða til fólks er fengin úr uppeldinu, þó svo að við höfum vissulega öll frelsi til að draga okkar eigin ályktanir á fullorðinsárum, sumir draga þær ályktanir að gott sé að viðhalda því sem var kennt aðrir vita að U beygju er þörf eftir efnislítið uppeldi. Það er svo mikill vandi að vera manneskja, alveg óskaplega mikill vandi. Margir lifa við þau forréttindi að hafa verið vel nestaðir út í lífið og þakka það með því að greiða náðinni veg á meðan aðrir kasta nestinu sínu á glæ, enn aðrir fara fátækir inn í framtíðina en kunna að afla sér tilfinningalegrar þekkingar og verða ríkir af eigin vinnu. En hvernig svo sem við erum nestuð í upphafi ferðar þurfum við öll á áttavita að halda. Boðskapur jólanna er slíkur áttaviti, skilaboðin um að allar manneskjur séu merkilegar og ómissandi og þess vegna hafi Guð valið að gerast maður.
Dæja frænka mín er ein af þessum manneskjum sem ég hugsa til þegar ég er að fara í gegnum sjálfa mig, hún er ein af þessum smávöxnu en stóru manneskjum í lífi mínu sem ég rifja upp sem prédikun þegar ég þarf að leita að mannlegum fyrirmyndum, hún lifði nefnilega svo undur fallega, hún umgekkst lífið af ómældri virðingu, já djúpri lotningu, ég hugsa til hennar um hver jól og mér fannst einhvern veginn ég skulda henni að segja fleirum frá því.