Í sumarfríinu mínu í ár sem ég varði í Frakklandi og á Spáni las ég m.a. dagbók Leifs H Muller sem ber heitið Í Fangabúðum Nazista. Ég verð að viðurkenna að lestur þessarar bókar í sumarfríi á suðrænum slóðum þar sem mínar helstu áhyggjur sneru að því hvað ætti að vera í kvöldmatinn og hvort drykkirnir væru orðnir nógu kaldir, reyndist næstum súrrealískur. Mér leið eins og ég væri að ganga um fátækrahverfi Ríó De Janeiro í milljón króna pels með rjómatertu í kjaftinum. Það er hins vegar þannig með þessa bók að maður getur ekki lagt hana frá sér eftir að hún hefur verið opnuð. Lýsingar Leifs á aðbúnaði bæði í Grini, norsku fangabúðunum sem voru rétt utan við Osló og síðar í Sachsenhausen í Þýskalandi eru svo sláandi að maður getur ekki hætt. Frásögnin er bæði nákvæm og hispurslaus, það kemur fram í eftirmála bókarinnar sem er skrifaður af Halli Erni Jónssyni og Jóni Ingvari Kjaran að Leifur hafi gefið minningar sínar út aðeins þremur mánuðum eftir að hann losnaði úr Sachsenhausen fangabúðunum. Bókin er ekki síður merkileg fyrir þær sakir að hún er ein af fjórum minningabókum um Helförina sem komu út strax við stríðslok ( Muller,Í fangabúðum Nazista.231). Frásögn Leifs ber þess merki að hann sé að reyna að koma sem mestum upplýsingum til skila áður en fer að fenna í sporin, frásagnarstíllinn er svolítið eins og í Biblíunni og Íslendingasögunum, það er ekki mikið um tilfinningalegar einkunnir heldur nákvæmar lýsingar. Það kemur einmitt líka fram í eftirmálanum að Leifur ræði meira líðan sína og úrvinnslu í ævisögunni Býr Íslendingur hér sem hann skrifaði með Garðari Sverrissyni.
Leifur Muller var 22 ára gamall námsmaður í Noregi þegar hann var handtekinn af Gestapó haustið 1942 eftir ábendingar Ólafs Péturssonar sem hafði gengið nazismanum á hönd. Leifur var þá sakaður um að hafa ætlað að yfirgefa landið með ólöglegum hætti. Fjölskylda Leifs bjó á íslandi en foreldrar hans hétu Lorentz H. Muller og Marie Bertelsen, að uppruna norsk en höfðu flust til Íslands þar sem Lorentz stofnaði og rak verslunina L.H. Muller en hún var til húsa í Austurstræti 17 í Reykjavík ( Muller,Í fangabúðum Nazista.5). Saga Leifs er saga af afleiðingum illskunnar eins og hún getur birst í sinni verstu mynd. Hver dagur var barátta við hinn vomandi dauða. En dauðinn var kannski ekki það skelfilegasta heldur niðurlægingin, hungrið, óþrifnaðurinn, vinnuþrælkunin, sjúkdómarnir og þrengslin svo fátt eitt sé nefnt. Þarna var Golgata í allri sinni mynd eins og lýsir sér best í eftirfarandi sagnabrotum: „ Þá var mjög mikið vatn í líkama sumra fanganna svo að fætur þeirra stokkbólgnuðu. Var þetta eðlilegt þar sem svo mikið vatn var í mat okkar og feiti fékk maður enga. Eins og ég hef þegar sagt var aðalmaturinn lapþunnt súpugutl, raunverulega lítið annað en kálvatn. Þetta fengum við næstum því á hverjum degi allan ársins hring. Einu undantekningarnar voru aðalhátíðirnar og einstakir sunnudagar og fengum við þá svonefnt „Gullasch“. Var það brún sósa með örfáum kjötbitum-gamlir Úkraínar að sögn ( Muller, ÍFN. 129).“
Og svona var aðbúnaðurinn á sjúkrahúsi fangabúðanna : „ Sjúkrahúsið var yfirfullt svo að fjórir til fimm menn lágu oft í tveim kojum. Sumir voru svo veikir að þeir höfðu ekki þrek til að fara fram úr til að gera þarfir sínar svo að saur þeirra lenti í kojunum og rann úr þeim efri í hinar neðri. Í sjúkrasölunum lágur oft 70-80 menn, en matarílát voru ekki til handa fleiri en 25-30, svo að þegar margir voru búnir var bara hellt í handa þeim næsta án þess að nokkur þvottur færi fram á ílátunum. Þeir sem voru lítið veikir urðu þá að nota sömu ílát og dauðvona menn ( Muller, ÍFN. 126).“
Ljósið í myrkrinu voru bögglarnir frá Rauða krossinum, Leifur segir raunar í bókinni að þeir hafi bjargað lífi hans og fjölda annarra samfanga, að öðrum kosti hefðu mun fleiri soltið til dauða. Saga Leifs er ekki bara harmsaga heldur líka saga um þrekvirki mannsandans, það er upprisa í þessari sögu. Flestir ef ekki allir sem komust lífs af úr þessu helvíti glímdu auðvitað við áfallastreitu en þó þykir manni ótrúlegt að manneskjur geti yfirhöfuð lifað af svona meðferð, snúið til baka stofnað fjölskyldu og fúnkerað sem þjóðfélagsþegnar líkt og Leifur gerði. Svefntruflanir sem rekja má til reynslunnar úr fangabúðunum fóru reyndar að lita líf hans um miðjan aldur, Leifur lét af störfum árið 1984 og lést þann 24.ágúst árið 1988, þá 67 ára að aldri ( Muller, ÍFN. 238) Síðastliðið föstudagskvöld frumsýndi Leikfélag Akureyrar leikritið Býr Íslendingur hér sem byggir á sögu Leifs, undirrituð fór á sýninguna sem er afar vel gerð og áhrifarík, leikgerðin er sögunni til sóma, leikur þeirra Arnars Jónssonar og Benedikts Arnar Gröndal fallegur, leikmyndin táknræn og öll vinna borin uppi af mikilli virðingu fyrir þessari merkilegu sögu.
Í umræðunni sem nú er uppi um móttöku flóttafólks frá stríðshrjáðum löndum er eitt sem á sér því miður samhljóm með reynslu Leifs Muller. Þannig var að þau sem lifðu af helförina skynjuðu stundum að fólk tryði ekki sögu þeirra. Leifur upplifði það sjálfur þegar hann kom aftur til Íslands eins og segir í eftirmála bókarinnar þá var „eins og reynsla hans af hörmungum fangabúðanna truflaði á einhvern hátt þá mynd af veruleikanum sem var ríkjandi á Íslandi“ (Muller,ÍFN. 232)
Fyrir utan það að lifa hörmungar þær sem hér er lýst þá hugsa ég að það sé ekkert verra en að mæta einhvers konar fálæti þegar kemur að úrvinnslu upplifunarinnar. Það er nefnilega þannig að við mannfólkið getum lifað ótrúlegustu hluti af en úrvinnsla reynslunnar sker hins vegar úr um hvernig framtíð okkar verður. Bakland okkar, félagslegur stuðningur og tækifæri til tjáningar er það sem öllu skiptir, að skynja að á mann sé hlustað. Uppistaðan í allri sálgæslu og meðferð áfallastreituröskunar er að gefa þolandanum tíma og næði til að fara yfir þá atburði sem lita líf hans, jafnvel þó hann þurfi að gera það oftar en einu sinni og jafnvel þó viðtakandinn geti ekki alltaf skilið hvað um er að ræða, það er viljinn til að skilja sem öllu skiptir.
Stundum þarf maður bara að fá að vita að upplifunin hafi, í fyrsta lagi verið raunveruleg því hún getur verið svo skelfileg að það er auðvelt að efast og svo þarf maður líka að fá rými til að losa um sektarkenndina sem er gjarnan fylgifiskur ýmiss konar áfalla. Þau sem lifðu af helförina þurftu mörg hver að takast á við sektarkenndina yfir því að hafa hreinlega lifað af meðan milljónir dóu, þetta er eitthvað sem hlustandanum getur þótt alveg fráleitt en verður engu að síður að gefa gaum og taka mark á.
Í umræðunni um móttöku flóttafólks frá Sýrlandi, Lýbíu ofl stöðum hafa m.a. heyrst raddir sem vilja draga úr bágum aðstæðum fólksins og gera flótta þeirra jafnvel tortryggilegan. Nú held ég að flestir séu búnir eða ættu að vera búnir að draga ályktanir af seinni heimsstyrjöldinni og afleiðingum hennar og ég held að sagan sjálf, bækur, kvikmyndir, leikrit ofl hafi komið því vel til skila hversu mikil grimmd var að baki og hversu mikilvægt það er að taka mark á reynslu fólksins.
Stríð verða kannski alltaf háð í þessum heimi en það þýðir ekki að við getum ekki lært að bregðast við afleiðingum þeirra því þau viðbrögð hafa allt að segja um framtíðina og svo er það nú einu sinni þannig að eftir því sem lífgefandi fórn í formi þess að deila kjörum og samkennd helst meira í hendur í þessum heimi verður upprisan víðar og ljósið myrkrinu yfirsterkara.
Í fangabúðum
Published inPistlar