Lesa meiraHugrökk en ekki heimóttarleg "/> Skip to content

Hugrökk en ekki heimóttarleg

Við erum spendýr með frumþarfir eins og önnur spendýr. Við þurfum að borða, sofa, stunda kynlíf, skila úrgangi og svo höfum við innbyggð varnarviðbrögð gagnvart þeim sem ætla að ráðast á afkvæmi okkar. Það sem hins vegar skilur á milli okkar og annarra spendýra er að við höfum hæfileika til að setja okkur í spor annarra, við finnum til samkenndar með öðrum. Þegar best lætur finnum við líka til samkenndar með okkur sjálfum sem er mjög gott meðal gegn þunglyndi og kvíða og öðrum andlegum meinum. Ég átti einu sinni kött sem ég náði engum tengslum við enda held ég að honum hafi verið skítsama um mig, svo framarlega sem hann fékk að éta og skíta í hreinan sand var hann sáttur við sambúð okkar. Ég var hins vegar ekki eins sátt enda hafði kötturinn þann leiða ávana að labba upp á eldhúsborði og yfir alla skápa og hillur eins og hann væri konungborinn og hefði óvart lent inn í þessu hreysi sem væri í besta falli sorglegt. Loks kom að því að kötturinn fékk einhvern vírus og hélt engu niðri, skeit og ældi út um allt eins og enginn væri morgundagurinn, þangað til að það raungerðist og enginn morgundagur rann upp í hans lífi. Ég get ekki sagt að ég hafi glímt við áfallastreitu eftir andlátið en auðvitað saknaði ég hans svolítið þegar mér varð ljóst að það var enginn lengur til að horfa á mig þóttafullum augum þegar ég borðaði hafragrautinn minn á morgnana. En nú á ég hund, sem mér þykir alveg óendanlega vænt um, það er vegna þess að við tengjumst, hundinum mínum þykir vænt um mig og sýnir það í verki, hann saknar mín þegar ég fer að heiman og gleðst þegar ég kem til baka og hann virðist líka skynja ef ég er illa upplögð eða döpur, þá kemur hann og leggur hausinn í kjöltu mína af því að hann veit að það er gott að strjúka eitthvað mjúkt þegar maður er dapur, hundar geta fundið til samlíðunar. Hundurinn minn getur hins vegar ekki vitað hvers vegna ég er leið og það sem meira er hann getur ekki sett sig í mín spor, þar skilur t.d. á milli hans og annarra fjölskyldumeðlima. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að Guð gerðist maður en ekki hundur þegar hann kom inn í þennan heim sem Jesús frá Nasaret, þetta er ástæðan fyrir því að tvöfalda kærleiksboðorðið um að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig er búið til fyrir manneskjur, við höfum þann eiginleika að geta sett okkur í spor annarra og fundið til samkenndar.
Við megum aldrei gera lítið úr þessum sérmennska þætti og tala um samúðarhræsni eins og hefur nú borið á í umræðunni um flóttafólk og neyðaraðstoð. Samkenndin er það fallegasta sem til er í mannlegu eðli og sú auðlind sem vert er að virkja sem mest því hún framleiðir réttlæti og frið sem er mjög vistvæn orka. Við þurfum auðvitað að sýna ábyrgð með því sem við bjóðum, ég skil mjög vel líðan þeirra sem vilja opna heimili sín og búa um stofusófann og auðvitað gæti það verið úrræði í skamman tíma meðan verið væri að finna varanlegri lausnir. Umfram allt eigum við sem þjóðfélag að styðja stjórnvöld í því að finna lausnir og taka þátt í þeirri umræðu, því betur sjá augu en auga. Við höfum rými, fjármuni og fagþekkingu til að bregðast við þessum mannlega harmleik og við vitum það öll, sú skelfing sem fólk á flótta undan stríði upplifir er ekki sambærileg vanda okkar hér. Þá er ég ekki að gera lítið úr aðstæðum þeirra sem glíma við vanheilsu og fjárskort hér á landi enda er það önnur umræða sem kirkjan á auðvitað að halda á lofti hvar sem hún starfar í orði og verki. Hjálparstarf kirkjunnar er reyndar sterkur málsvari þess hóps, bæði innanlands og utan. Og að lokum, verum hugrökk en ekki heimóttaleg, það eru ekki meiri tengsl milli íslam og hryðjuverka en kristni og kvenfyrirlitningar, öfgarnar munu hins vegar alltaf finna sér farveg og leita skjóls í sauðagæru hvar sem við búum í þessum heimi

Published inPistlar