Af öllu því góða sem að mér var rétt í uppvexti mínum tel ég að bækur hafi verið með því besta. Foreldrar mínir voru óþreytandi við að finna handa mér bækur til að lesa og oft á tíðum voru það bókmenntir sem óþroskaður hugur minn þurfti nú svolítið að erfiða við að melta. Ég var kannski tíu ára þegar ég las Barn náttúrunnar eftir Halldór Laxness, hann var að vísu ekki nema sjö árum eldri þegar hann skrifaði þá sögu en pabbi gat heldur ekki beðið eftir að ég læsi um hann Bör Börsson sem hann hafði sjálfur hlýtt á í útvarpinu sem drengur ásamt stórum hluta íslenskrar æsku. Ég man að ég féll kylliflöt fyrir Bör og sat með hann í einu skúmaskoti gamla torfbæjarins heima í Laufási og bað til Guðs að engir túristar kæmu nú og trufluðu mig. Hundrað ára einsemd eftir Gabriel Garcia Margues var síðan lesin á unglingsárum og Svanurinn eftir Guðberg Bergsson varð mér ritgerðarefni í íslensku í sjöunda bekk enda var ekki til neitt vídeótæki á heimilinu og aðeins ein sjónvarpsstöð þannig að „af hverju ekki?“
Á þessum vetri leggjum við áherslu á að tala um tilfinningar við fermingarbörnin í kirkjunni. Í fyrsta tíma uppgötvaði ég að áður en ég færi að tala um eðli tilfinninga þyrfti ég að útskýra ýmis algeng tilfinningaleg hugtök eins og sektarkennd, skömm, kímni, æðruleysi og óþolinmæði svo fáein séu nefnd. Í fyrstu sáu krakkarnir ekki beint tilganginn með þessum orðskýringum mínum en þegar ég sagði að það gæti í raun reynst lífshættulegt að hafa ekki kunnáttu til að orða líðan sína urðu þau strax mjög alvarleg yfir þessu mikilvæga verkefni. Reynsla mín er nefnilega sú að þeir sem geta sett orð á líðan sína séu líklegri til að ná bata eða hafa sig upp úr ýmis konar áföllum, því hlýtur að fylgja mikil angist að geta ekki orðað erfiða líðan, kannski svolítið eins og að upplifa líkamlega verki sem engin skýring finnst á þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir. Þessi skoðun mín er heldur ekki úr lausu lofti gripin, hún raungerist í preststarfinu. Hjón sem geta sett orð á óhamingju sína, syrgjendur sem geta sett orð á sorg sína, kvíðið og þunglynt fólk sem getur sett orð á depurð sína, fíkillinn sem getur sett orð á fíkn sína er líklegra til að lifa af en annað fólk, þess vegna getum við ekki sætt okkur við það að tungumál okkar þróist út í broskalla og Gif myndir. Við verðum að lesa til að auka orðaforða okkar og málskilning. Sjálf var ég enginn sérstakur námsmaður í grunn eða framhaldsskóla, barðist um á hæl og hnakka við að læra stærðfræði og efnafræði en í dag skiptir það ekki öllu máli fyrir líðan mína og líf mitt, það gera hins vegar bækurnar sem foreldrar mínir réttu að mér í uppvextinum sem hafa hjálpað mér að lifa með og fyrir ofan geðkvilla og fíkn.