Í dag langar mig að ræða um það hvað hann Jesús frá Nasaret er oft vandræðalega óviðeigandi. Eiginlega er hann mest óviðeigandi maður sem ég hef kynnst. Honum datt til dæmis í hug að drekka úr sömu vatnsskjólu og samversk kona, vitandi það að gyðingar og samverjar ættu aldrei undir neinum kringumstæðum að drekka úr sama íláti.
Svo var hann líka ótrúlega óviðeigandi þegar hann leyfði konunni sem var á blæðingum að snerta sig, í stað þess að ávíta hana sem óhreina konu eins og búist var við, þá sagði hann bara „ Dóttir trú þín hefur bjargað þér, far þú í friði ver heil meina þinn“ en konan hafði semsagt haft blóðlát samfleytt í tólf ár líklega vegna þess að það fannst engum viðeigandi að vera eitthvað að koma við hana og lækna.
Svo var hann líka alveg ótrúlega óviðeigandi þegar hann leyfði henni Maríu frá Betaníu að sitja bara á rassinum og spjalla við sig um lífsins gildi í stað þess að hjálpa systur sinni að útbúa mat handa honum fram í eldhúsi eins og konur áttu að gera og þótti við hæfi, nei hann var bara eitthvað að spjalla við hana eins og jafningja og leyfa henni að vera í hálfgerðu karlahlutverki.
Þá tók nú steininn úr þegar hann fór að standa með einhverri vændiskonu gegn fræðimönnum úr musterinu, málsmetandi aðilum úr samfélaginu sem voru vandir að virðingu sinni íklæddir síðum helgiklæðum þar sem engar skorur skárust í leikinn. Þar segir:
Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra
og sögðu við hann: Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór.
Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?
Þetta sögðu þeir til að reyna hann, svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.
Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana.
Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum.
Hann rétti sig upp og sagði við hana: Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig? En hún sagði: Enginn, herra. Jesús mælti: Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.
Og svo er það náttúrlega guðspjall dagsins þar sem að bersynduga konan fer að væta fætur Jesú með tárum sínum og þerra með síða hárinu sínu og kyssa fætur hans og smyrja með dýrindis smyrslum og Jesús er svo óviðeigandi að hann sér ekki hvað þetta er skammarlegt, samt á hann að vita þetta er kona sem hefur ekki fylgt uppskrift samfélagsins að hinni heiðvirðu konu sem þekkir sínar takmarkanir og heldur sig á mottunni eða moppunni ef þær hafa þá verið til.
Já gott fólk við skulum nú heldur ekki gleyma hneykslinu á sjálfan páskadagsmorgunn þegar honum Jesú datt í hug að fara að gera þrjár kerlingar á miðjum aldri að fyrstu kristniboðum sögunnar, ef það er ekki óviðeigandi þá veit ég ekki hvað, maður kallar náttúrlega einhver karlkyns nöfn til sögunnar þegar slík tímamót eiga sér stað, ekki satt?
Það er reyndar svolítið sérstakt hvað hann Jesús er oft óviðeigandi sérstaklega þar sem konur eiga í hlut, ekki þó gagnvart konunum sjálfum sem hefði náttúrlega þótt miklu eðlilegra og meira viðeigandi, heldur samfélaginu sem þær eiga að tilheyra, án þess náttúrlega að tilheyra. Ég uppgötvaði allt í einu þar sem ég var að tína til rök fyrir óviðeigandi framkomu Jesú að það voru allt sögur sem tengdust konum og hneykslanlegum skilningi Jesú á mannréttindum þeirra.
Og eftir því sem ég átta mig betur á því hversu dæmalaust óviðeigandi hann Jesús frá Nasaret er þá elska ég hann meira og eftir því sem samfélagið hneykslast meira á viðbrögðum hans finn ég meira öryggi í návist hans, í trú minni á hann, krossfestan og upprisinn.
Það er einmitt þessi óviðeigandi Jesús sem hefur veitt mér hvað mesta von í gegnum lífið, ekki síst á ögurstundum þess þegar maður er alls ekkert viss um hvernig hlutirnir fara þó svo að þeir hafi tilhneigingu til að fara einhvern veginn eins og hann Laxness benti réttilega á.
Ég er ekki viss um að ég hefði nokkurn tímann haft hugrekki til að segja alþjóð frá eðli og umfangi geðkvilla míns og það í heilli bók ef þessa óviðeigandi Jesú nyti ekki við.
Þá hefði ég heldur ekki horfst í augu við eigin veikleika gagnvart áfengi og fundið leið til að tala um hann og viðurkenna án þess að óttast það að tapa virðingu minni af því að sú virðing sem óviðeigandi Jesús leggur áherslu á snýr að því að leita sannleikans þó hann sé bæði óþægilegur og vandræðalegur af því að sannleikurinn gerir mann frjálsan en ekki ímyndin.
Það er svolítið þannig að þegar maður þarf að vera hugrakkur þá er best að leita til þessa óviðeigandi Jesú, það er sá Jesús sem er líklegastur til að gefa manni kraft og þor til breytinga, hann nennir ekki að skýla manni fyrir manns eigin nekt.
Vitri Jesús er allstaðar í öllu því sem hann segir og gerir en óviðeigandi Jesús er bara þar sem hin nakta mennska mætir íklæddri hneykslan en þó þar sem allir eru að þrá það sama, að vera elskaðir, virtir og frjálsir.