Ég hef verið svo upptekin af orðinu innblástur undanfarna daga, ástæðuna má rekja til ráðstefnu sem ég sat um liðna helgi þar sem heimspekingur einn færði haldgóð rök fyrir því að þetta hugtak, innblástur, hefði misst gildi sitt í notkun tíðarandans. Heimspekingurinn dró meðal annars fram auglýsingu frá sænska húsgagnrisanum Ikea þar sem stóð “ Ikea innblástur fyrir heimilið?” Með réttu hefði átt að standa “hugmyndir fyrir heimilið” því innblástur er auðvitað ekki eitthvað sem maður verslar líkt og pylsu með öllu, ekki eitthvað sem maður bara sækir sér eftir þörfum. Innblástur er nefnilega svo margbrotið og merkilegt fyrirbæri sem við þurfum að tala um af einlægni og þakklæti, innblástur er ekki einhver neysluvara sem veitir skammtíma sælu eða magafylli og það sem meira er, innblástur kemur þegar honum sjálfum hentar en ekki endilega þegar við sækjumst eftir honum, innblástur er á vissan hátt sjálfstætt fyrirbæri.
Þið kæru fermingarbörn hafið til dæmis verið mér innblástur í samverustundum vetrarins, án þess að ég gerði mér alltaf grein fyrir því á þeirri stundu sem það gerðist. Ég hef meira að segja ekkert alltaf verið þolinmóð við ykkur í tímum og jafnvel pirruð yfir einstaka hormónaflippi sem á endanum var kannski jafn tengt mínum hormónum eins og ykkar, það heitir að vera í mannlegum samskiptum og er alveg fullkomlega eðlilegt. Nú þegar veturinn er hins vegar liðinn þá finn ég að ég er ekki sama manneskjan og síðastliðið haust og þið eigið þátt í því. Já með því að vera mér innblástur í spurningum ykkar, í þögulli nærveru ykkar og líka háværri nærveru, í einlægni ykkar og trú á framtíðina, í hispursleysi og lífsgleði en líka í áhyggjum ykkar yfir því sem miður fer í heiminum í dag, af því að þó þið virkið kannski eins og þið hafið lítinn áhuga á því sem fram fer utan ykkar hormónatengda radíus, þá veit ég betur, þið eruð á fullu að pæla í því sem er að gerast allt í kringum ykkur og út í hinum stóra heimi, þið fylgist vel með öllu og jafnvel betur en mín kynslóð gerði í gegnum þá fáu miðla sem voru í boði þarna í denn, fyrir 250 árum síðan eða svo gott sem. Þið eruð mér sko innblástur í dýpt ykkar fjórtán ára gamla lífs og fyrir það er ég óendanlega þakklát, svo nú vil ég segja takk kæru krakkar fyrir innblásturinn, hann er kannski enn að hefast innra með mér eins og gott gerdeig sem enn á eftir að verða að brauði.
Þið hafið heyrt talað um heilagan anda í vetur, anda Guðs, anda Jesú frá Nasaret. Ég er þeirrar skoðunar að þegar við verðum fyrir innblæstri í lífinu þá sé andi Guðs að verki, sá sem er ekki trúaður myndi auðvitað ekki skilgreina innblástur sem heilagan anda en engu síður getur hann fengið innblástur úr sömu átt og ég, sá hinn sami hefði einmitt getað fengið innblástur frá samverunni við ykkur í vetur án þess að skilgrein hann sem heilagan anda. Ég trúi því hins vegar að heilagur andi sé að verki þar sem við verðum fyrir innblæstri, þess vegna finn ég heilagan anda mjög víða, til dæmis í tónlist, myndlist, leiklist og bókum, í messu, í sorg, við brúðkaup, í skírn, út í náttúrunni og síðast en ekki síst í samtölum við annað fólk. Það eru þessi sérstöku andartök í öllu því sem ég tel hér upp sem fylla mann andagift……bíðið nú við, andartök og andagift, hlýtur að merkja tök og gjafir andans í lífi okkar, svona er tungumálið okkar fyndið, það segir okkur svo margt, eins gott að við ræktum það enda veitir það innblástur. Ég hef oft upplifað svona andartök hér í kirkjunni, eitt er mér nú í fersku minni en það var þegar ungur maður, mikill rokkari var jarðsunginn hér á dögunum og þegar kistunni var lyft af líkmönnum einmitt þar sem ég stend núna lyftu allir höndum og sendu rokkkveðjuna góðu þar sem vísifingur og litli putti snúa upp en langatöng og baugfingur niður, kirkjan var full af ungu fólki, körlum og konum með sítt hár, án orða tjáðu þau samstöðu með þessari kveðju og þá heyrði ég þyt heilags anda í loftinu. Og nú þegar ég rifja þetta upp fæ ég kökk í hálsinn vegna þess að þetta andartak var innblástur. Þið heyrið stundum talað um að listamenn verði fyrir innblæstri sem leiðir til listsköpunar en aldrei heyrir maður að þeir hafi bara farið út í búð og keypt sér svolítinn innblástur áður en þeir tóku til við að skapa ódauðleg verk. Nei það er vegna þess að innblástur er gjöf og að mínu áliti gjöf heilags anda, það er þessi gjöf sem maður bara fær án skilyrða, án þess að eiga hana eitthvað sérstaklega skilið eða vegna þess að maður eigi svo mikið undir sér, sé ríkur og frægur og valdamikill. Og hvers vegna er ég að tala um þetta við ykkur krakkar? Jú vegna þess að mig langar svo til að nota tækifærið hér og hvetja ykkur til að meðtaka allan þann innblástur sem þið fáið í lífinu, gætið þess að lifa þannig lífi að það skapist tími og rými til að verða fyrir innblæstri, gætið þess að týna ykkur ekki svo í lífsgæðakapphlaupinu og í stritinu við að eignast nýja hluti, flottara hús og bíl og innbú og föt að þið farið á mis við innblásturinn sem á endanum er það merkilegasta við lífið. Innblásturinn er lífið, innblástur er hamingja vegna þess að það er innblásturinn sem fær mann til að skapa, til að skilja, til að trúa, til að vona og til að þroskast sem manneskja. Kristin trú er mér innblástur hvern einasta dag, þegar ég skil ekki fólk veitir trúin mér innblástur til að skilja, þegar ég skil ekki aðstæður sendir Guð mér fólk til hjálpar og þegar ég skil ekki sjálfa mig sendir hann mér spegil svo ég sjái sjálfa mig í guðdómnum. Já innblástur er lífið.
( Hugleiðing flutt við fermingarmessu í Akureyrarkirkju)