Mannleg samskipti eru það mikilvægasta í þessum heimi. Ekki bara fyrir okkur mennina heldur líka náttúruna. Það eru mannleg samskipti sem ákvarða í raun örlög manna, dýra og náttúru. Þegar ég er að tala við krakkana í fermingarfræðslunni ynni ég þau oft eftir því hverjir styrkleikar þeirra séu, sjaldnast ef nokkurn tíma nefna þau mannleg samskipti sem styrkleika eða hæfileika, í stað þess er nám, íþróttir, söngur og dans nefnt til sögunnar og jafnvel eitthvað sem lýtur að útliti eða klæðaburði. Tilgangur spurningar minnar til þeirra er auðvitað að hlusta á svörin en líka að fá tækifæri til að benda þeim á hversu mikilvægt það sé að að vera góður í mannlegum samskiptum, ég geng meira að segja svo langt að segja þeim að ef það sem þau telja helst til styrkleika helst ekki í hendur við hæfni í mannlegum samskiptum þá sé það til lítils. Ég hitti einu sinni mann sem ég vissi að hefði áratuga reynslu af íslensku leikhúslífi bæði sem leikstjóri og leikhússtjóri, ég freistaði þess að spyrja hann um tvo íslenska leikara sem hafa verið afskaplega farsælir í mörg ár, fengið margvísleg, bitastæð hlutverk og virðast alltaf vera í tísku. Ég vissi sjálf að þeir væri báðir mjög magnaðir leikarar en það eru auðvitað margir slíkir til og þess vegna spurði ég þessarar barnalegu spurningar „hvers vegna eru þessir tveir svona vinsælir?“ Svo beið ég eftir ígrundaðri greiningu á leikhæfileikum mannanna þegar maðurinn svaraði „ þeir eru svo góðar manneskjur Hildur og gott að vinna með þeim, þeir geta unnið með öllum.“
Það er alls ekki langt síðan maður fór að taka eftir atvinnuauglýsingum þar sem hæfni í mannlegum samskiptum var nefnd sem æskilegur eiginleiki í fari umsækjanda, rétt eins og mannleg samskipti sé bara álíka nýtt fyrirbrigði og internetið, eitthvað sem komið hefur fram á umliðnum árum og sýnt sig og sannað sem styrkleiki á vinnustað.Og af því að ég nefni internetið þá má kannski segja að þrátt fyrir allt og allt þá hafi það opnað augu okkar fyrir mætti og styrk sem og eyðileggingarkrafti mannlegra samskipta og kannski þess vegna höfum við farið að tala meira um samskipti okkar síðustu ár sem verðugt viðfangsefni greiningar og umhugsunar. Internetið með alla sína samfélagsmiðla í fararbroddi hefur afhjúpað okkur jafnvel meir en við kærum okkur um sem ég held að verði á endanum gott því nú þurfum við hvert og eitt að spegla okkur í hegðun annarra sem og hegðun okkar í viðbrögðum annarra. Við erum sumsé farin að tala beint um mannleg samskipti og það er svo sannarlega til bóta.
Á fyrstu árum samfélagsmiðla var stundum eins og fólk hreinlega áttaði sig ekki á því að það sem var skrifað hefði hugsanlegar afleiðingar fyrir það sjálft og aðra, að orð væru lifandi, hefðu áhrif eða eins og segir í frábæru ljóði eftir Jón Dan Hægt safna ég saman orðum
af mikilli varúð,
hægt safna ég saman orðum
af mikilli gætni,
því orð eru engin frímerki
sem liggja grafkyrr í bókum og ekki þurrkaðar jurtir,
sem sofa vært undir fargi.
Nei orð eru glaðir fuglar
og sóleyjar í skógi
og börn sem hjala
og hundar og lævísir refir
og glefsandi rándýr, kettir
og blóðþyrst villidýr..
Nú held ég að flestir séu farnir að átta sig á mætti hins skrifaða orðs þótt sumir skýli sér bak við tölvuskjáinn og skrifi bara það sem þeim dettur í hug rétt eins og þeir búa á eyðieyju og geri ekki ráð fyrir að sleppa þaðan. Við erum misjafnlega farsæl í mannlegum samskiptum, sumir sýna strax á unga aldri mikla færni í félagslegum tengslum, eiga auðvelt með að kynnast fólki og umgangast ólíka einstaklinga, eru eins og fiskar í vatni þegar kemur að tengslamyndun og því að nálgast aðra. En hvað veldur? Auðvitað er það samspil erfða og uppeldis, við erfum ákveðin persónueinkenni en við mótumst líka af fólkinu sem elur okkur upp. Þá gæti einhver haldið því fram að sumir séu bara óheppnir og eigi því aldrei kost á að vera farsælir í samskiptum þegar litið er til gæfulítilla foreldra og erfiðra aðstæðna í æsku en slík örlög þurfa ekki að hafa lokasvarið í lífi fólks. Við höfum öll val þegar fullorðinsaldri er náð, sumir þurfa þá vissulega að vinna meiri vinnu en aðrir til að öðlast farsæld í samskiptum en hafi fólk eðlilega vitsmunalega hæfni er mjög margt sem það getur gert til að verða alveg flugsynt í mannhafinu stóra og breiða.
Mig langar til að fara hér yfir tvær spurningar sem reynslan hefur kennt mér að skipti miklu máli að við spyrjum okkur í átt að mannlegri farsæld. Sú fyrri er eftirfarandi: Hvernig manneskja vil ég vera? Allar manneskjur þurfa að spyrja sig þessarar spurningar, ef ekki á hverjum degi þá að minnsta kosti annan hvern dag. Í raun er þetta grundvallarspurningin áður en lengra er haldið. Þegar þú mætir fólki hvort hugsarðu fyrst hvað þú ætlar að fá út úr samskiptunum eða hvað þú ætlar að leggja í þau? Ef þú hugsar fyrst um það hvað þú ætlar að leggja í þau þarftu um leið að fara yfir það hvað þú hefur að gefa sem manneskja, það er mjög góð byrjun og líkleg til að verða gjöful bæði fyrir þig og þann sem þú átt í samskipti við. Fær maður sem sagt alltaf eitthvað til baka ef maður vandar sig í samskiptum? Er ekki líka til fólk sem gleypir alla hendina þegar maður réttir því litla fingur? Jú þannig fólk er svo sannarlega til og hefur alltaf verið til og mun alltaf vera til en eftir því sem það fólk rekst á fleira fólk sem kann mörk og sýnir færni í samskiptum af því að það hugsar fyrst um hvernig það sjálft vill vera munu handleggjaæturnar hugsanlega draga einhverjar ályktanir þó það taki svolítinn tíma. Þess vegna borgar sig alltaf að hugsa „ ég vil vera manneskja sem vandar sig í samskiptum“ vegna þess að gróðinn að því er heilbrigðari speglun fyrir þá sem þú umgengst. Og þegar maður er kominn með heilbrigði inn í hegðun sína, í sjálfsmynd og speglun, er maður örugglega á réttri leið. Sum sé, fyrsta skrefið er að spyrja sjálfan sig „hvernig manneskja vil ég vera?“ Í stað þess að spyrja hvað á viðmælandi minn skilið að fá frá mér.
Seinni spurning er þessi „hvernig líður mér?“ Það er svo merkilegt að við horfum jafn mikið á fólk í gegnum taugakerfi okkar eins og augu og í raun í gegnum líkamlega líðan. Ég verð að viðurkenna að nokkrum dögum fyrir blæðingar verð ég talsvert fórnarlamb í samskiptum, ég les öðruvísi í það sem fólk segir og gerir, þá finnst mér oft eins og fólk kunni ekki að meta mig eða sé jafnvel neikvætt út í mig og maki minn fer þá oft alveg óstjórnlega í taugarnar á mér, mér finnst hann bara alveg ónæmur fyrir mínum þörfum sem ég er auðvitað ekki að orða heldur bara að hugsa en hann á náttúrlega að geta lesið það og svo finnst mér hann svo fjarlægur eitthvað og skrýtinn. Fjórum dögum eftir blæðingar er hann hættur að vera fjarlægur og skrýtinn og þá er hann líka ótrúlega eitthvað næmur á mínar þarfir og yndislegur. Hvers vegna skyldi það nú vera? Gæti það haft eitthvað að gera með hormónaflæði mitt og skapsveiflur? Gæti verið að hann sé kannski fjarlægur af því að ég er eins og Frankenstein í hreyfingum og andliti, stjörf á svip með kuldalegt augnaráð, gæti verið að hann sé bara hræddur við mig? Hver veit?
Líkamleg, andleg og tilfinningaleg líðan okkar stýrir svo miklu um samskiptahæfni nema auðvitað við eflum með okkur sjálfsþekkingu og innsæi þannig að þegar vondu dagarnir koma þá vitum við það, tölum um það og vinnum með það. Slíkt innsæi kallast þroski og er á allra færi sem vilja reyna. Hvernig líður mér er alveg grundvallar spurning í farsælum samskiptum, líka vegna þess að þegar við tökum við skít frá öðrum en erum sjálf meðvituð um okkar líðan þá er auðveldara fyrir okkur að verjast fýlunni sem fylgir skítnum af því að þá vitum við að hún hefur sennilega ekkert að gera með persónu okkar.
Hvernig manneskja vil ég vera? Hvernig líður mér? Eru hugsanlega lykillinn að hamingju þinni, engin pressa en ég myndi samt pæla í því.