Lesa meiraÞrjár konur "/> Skip to content

Þrjár konur

Þrjár konur.

Á dögunum tók ég viðtal við rúmlega sextuga konu sem lýsti fyrir mér þeirri ótrúlegu reynslu að lifa af banaslys. Slysið sem um ræðir varð sumarið 2005 og með henni í bíl voru vinahjón konunnar sem hún hafði þekkt í marga áratugi og þótti afar vænt um. Um leið og hún rifjaði upp daginn örlagaríka þann 9.ágúst árið 2005 fletti ég myndaalbúmi sem geymdi minningar frá ferðalagi þeirra þriggja þar sem þau klifu fjöll og nutu fegurðar íslenskrar náttúru. Á síðustu myndinni í albúminu sátu hjónin um borð í bát og gæddu sér á íspinna, mér sýndist þetta vera ís með súkkulaðihjúp og möndlum alveg eins og ég hefði valið mér, veðrið var greinilega gott þennan dag, sólin skein, þau pírðu augun mót geislum hennar sem spegluðust í vatnsfletinum en yfir þeim var þessi eftirsóknaverði friður sem fylgir því að öðlast lífsfyllingu. Klukkustund síðar voru þau bæði látin. Viðmælandi minn mundi vel höggið er þau lentu framan á flutningabílnum, mundi öll hljóð þegar  bíllinn kastaðist út af veginu. Svo sat hún föst við stýrið og allur líkaminn dofinn „ merkilegur þessi líkami“ sagði konan „ þarna var hvert bein í báðum fótleggjum brotið en ég fann ekkert til því líkaminn kann að deyfa,“ hann er miskunnsamur þessi líkami. Eftir þetta datt meðvitundin inn og út en hún man þó þögnina í bílnum,þessa hnausþykku þögn þegar þú veist að allt er breytt. Loks sá hún sjúkraflutningamenn og lögreglu lyfta þakinu af bílnum og tveim vikum seinna dró næst til tíðinda.

Viðmælandi minn vaknaði sumsé á Borgarspítalanum eftir tveggja vikna svefn þar sem líffæri hennar voru öll lemstruð og fætur mölbrotnir svo fátt eitt sé nefnt. Hún gat ekki talað en sonur hennar stóð við rúmgaflinn þegar hún vaknaði og af því að hann þekkti hana svo vel vissi hann að hverju hún spurði með augnaráðinu einu „ já mamma, þau eru dáin“ svaraði hann. Nákvæmlega þarna, við þessa upprifjun fylltust augu viðmælanda míns af tárum, ekki þegar hún var að lýsa sjálfu slysinu, ekki þegar hún var að segja mér frá meiðslunum, ekki þegar hún skynjaði næturþögnina sem lagðist yfir bílinn um hábjartan dag, heldur þarna við sjúkrabeðið þar sem henni bárust tíðindin sem hana þó grunaði strax á vettvangi slyssins.

Tólf árum síðar mætir konan til mín í viðtal, glaðleg í fasi með freknur og rauðbrúnt hár, hlýtt og æðrulaust bros á vörum. Hún stingur við fæti en að öðru leyti ber hún ekki lífið utan á sér. Ekki frekar en flestir sem við eigum samskipti við á lífsleiðinni, hvort sem er í nánd eða fjarlægð alnetsins og samt á hún alla þessa sögu í hverri taug og frumu líkamans.

En hún sagði mér líka aðra sögu. Söguna um einstaka vináttu þeirra hjóna sem hún rakti aftur til unglingsára. Söguna um ferðalög innan lands og utan, hlátrasköll og samtöl, sameiginlegar upplifanir, barnsfæðingar, gleði og sorgir. Allt það sem dauðinn fær ekki breytt.

Þrjár konur.

Þegar ég var lítil stúlka kom ég reglulega með móður minni í Norðurbyggð 31 þar sem hún fór í fótsnyrtingu til konu sem hét Jóhanna, ég man að mamma sagði alltaf Jóhanna snyrtidama til að aðgreina hana frá öðrum Jóhönnum í lífinu. Ég man vel eftir litlu snyrtistofunni í kjallaranum og svo man ég líka hvernig þær mamma og Jóhanna töluðu saman eins og tveir viðmælendur í fréttaskýringaþætti, þær voru nefnilega ekki að skiptast á mataruppskriftum heldur ræða heimsmálin og pólitíkina. Þegar ég sagði mömmu að nú væri hún Jóhanna snyrtidama látin var svarið „ ó það var svo gaman að spjalla við hana.“

Ég man að mér fannst Jóhanna alltaf svo tignarleg en líka töffaraleg með svolítið villt hár og lítil gleraugu sem sátu fremst á nefbroddinum á meðan hún mundaði verkfærin á snyrtistofunni. Hún var heimsborgaraleg en líka hlý.

Þrjátíu árum síðar geng ég upp tröppurnar að Norðurbyggð 31 til fundar við Jóhönnu snyrtidömu sem er að búa sig til brottfarar, til fundar við eilífðina, það er sól en kul í lofti og samt reka krókusar upp kollinum í beði framan við eldhúsgluggann eins og lífsseigir fyrirburar, já þeir ætla að færa henni Jóhönnu vorið áður en hún kveður hugsa ég og hringi dyrabjöllunni. Ég bjóst auðvitað við að sjá aldraða konu en þegar ég geng inn til hennar Jóhönnu er hún sama heimsdaman og mig minnti, sama fasið og sjálfsöryggið sem mér fannst alltaf svo heillandi og einhvern veginn varð ég aftur lítil stúlka þegar ég settist við rúmið hennar af því að Jóhanna var djúpvitur manneskja og þegar maður sest við hlið deyjandi djúpvitrar manneskju þá hlustar maður og þykist ekkert kunna meir en maður kann. „ Þú kemur eins og sólargeisli“ sagði hún þegar ég gekk inn og þar með vissi ég að hún ætlaði að stýra þessari heimsókn. Hún skipulagði allt af smekkvísi og þokka, „ég er svo hrifin af Mozart sagði hún og brosti dreyminn á svip eins og hann væri vinur hennar.“

Ég ætlaði að koma aftur og vitja hennar, nefndi dag og stund, hún brosti kankvíslega, heldurðu að ég verði nokkuð strokin? Nei svara ég þú ert svo skipulögð þú hlýtur að bíða fram að páskum. Þegar ég kom næst höfðu krókusarnir fært sig lengra upp úr moldinni, en fuglinn var floginn.

Þrjár konur.

Á dögunum birtist viðtal við Ellý Katrínu Guðmundsdóttur borgarritara sem nú rúmlega fimmtug að aldri er nýgreind með alzheimersjúkdóminn. Ellý flutti erindi á fræðslufundi íslenskrar erfðagreiningar sem bar yfirskriftina þegar minnið hopar.

„Ég stend hér í dag af því mér finnst mik­il­vægt að tala um Alzheimer-sjúk­dóm­inn, en ekki síst þolend­ur hans, með sama hætti og við ger­um um aðra sjúk­dóma og sjúk­linga,“  sagði hún og þar með tók hún áheyrendur í fangið og hvíslaði eins og engillinn forðum,“ þið skuluð eigi óttast.“

Rúmlega fimmtug kona stendur frammi fyrir þeim grimmu örlögum að greinast með minnissjúkdóm en tekst með frásögn sinni að hugga okkur öll sem á hlýða. Og svo tjáir hún okkur hvað hægt er að gera til að hægja á sjúkdómnum, að hreyfa sig nóg, borða heila eflandi fæðu sem inniheldur meira að segja eitt rauðvínsglas á kvöldi sem er ekki nein sérstök áþján vill hún meina og svo hvernig hún dró úr álagi daglegs lífs til að veita heilanum næði til að hvílast, af því að heilinn þarf að hvíld eins og önnur líffæri. Lífið er ekki búið þótt maður greinist með alzheimer segir Ellý.

Þrjár konur.

Þrjár konur koma að gröfinni á páskadagsmorgni, þær vilja búa um jarðneskar leifar Jesú. Er þær koma upp að gröfinni sjá þær að hún er tóm. Og Þá er sama hvaða guðspjallamaður greinir frá, skilaboðin eru hin sömu, „óttist eigi.“

Upprisan er stærsta frétt kristninnar og hún felur í sér þessi mikilvægu skilaboð „óttist eigi“ ekki misskilja engilinn, það þýðir  ekki að þú eigir aldrei að vera dapur, kvíðinn, áhyggjufullur, stressaður, hugsi eða efins, heldur að gefa þig aldrei óttanum á vald vegna þess að ótti er andlegur dauði, ótti er ógn við framgang lífsins, ótti skapar stríð, fátækt, fordóma, náttúruníð, loftslagsbreytingar, kúgun, fjötra og almennt sinnuleysi gagnvart mannréttindum.

Allt í kringum okkur er fólk að boða upprisu í erfiðustu aðstæðum lífs síns, andspænis örlögum sem eðlilega vekja kvíða og angist en þegar betur er að gáð leynist þar ávallt meira ljós en myrkur, eins og í frásögnunum þremur sem ég færði ykkur hér, þessum sönnu sögum sem ég varð bara vitni að á liðnum dögum. Þar er sorg en ekki ótti, þar er djúpstæð fegurð sem er alltaf andstæða óttans, fegurðin er sannarlega til staðar á ögurstundum lífsins þar vex hún upp úr moldinni eins og krókusarnir í anddyri vorsins. Ef til vill finnst einhverjum páskaguðspjallið jafn fjarstæðukennt og hugmyndin um líf á öðrum hnöttum en eftir því sem maður vitnar fleiri sögur eins og þær sem hér voru sagðar verður það jafn raunsætt og Bogi Ágústsson við fréttalestur á mánudagskvöldi.

Upprisan er bullandi raunsæ gott fólk, hún er að eiga sér stað nákvæmlega á þessari stundu út um allan bæ, land og heim og í ykkar lífi. Óttist eigi, upprisan er sönn.

 

Published inPistlar