Þetta er ekki framboðsræða fyrir fermingar en kannski er samt komið að því að við svörum spurningunni, hvers vegna að fermast árið 2017? Þetta er nefnilega síbreytileg spurning sem hefur auðvitað ekki verið svarað í eitt skipti fyrir öll enda stendur ekki til að gera það hér, en í dag lifum við á þannig tímum að fólk spyr sig um allar hefðir og venjur sem er mjög gott og þarft og nokkuð sem við eigum öll að gera. Jesús Kristur talaði hvergi um fyrirbærið fermingu á þeim tíma sem hann gekk um þessa jörð og því höfum við ekki bein fyrirmæli frá honum um athöfnina líkt og skírn og altarisgöngu sem hann hvatti okkur til að iðka. Fermingin hefur hins vegar þróast innan hinnar kristnu kirkju sem síðbúin skírnarfræðsla því ómálga ungabörn eru skírð að ósk foreldra svo kirkjan ber ábyrgð á að bjóða þeim uppfræðslu þegar þau ná vissum aldri og þroska. En er fermingin barn síns tíma nú þegar upplýsingar liggja fyrir á netinu og unglingarnir geta hæglega gúgglað trúarjátninguna og Faðir vorið og hlustað á messu á youtube án þess að þurfa einu sinni að yfirgefa herbergið sitt? Er einhver ástæða til að vera að flækja líf þessara uppteknu ungmenna með því að bæta reglulegum heimsóknum í kirkjuna ofan á allar íþróttaæfingarnar og tómstundirnar? Þetta er auðvitað bara réttmæt spurning sem ég set ekki fram í kaldhæðni né gremju heldur lít á sem tækifæri til að tala um mikilvægi fermingarfræðslunnar í nútíma samfélagi.
Reglulega berast okkur fréttir og umfjallanir um aukin kvíða og þunglyndi barna og unglinga á Íslandi, það er eitthvað í samfélagsgerðinni sem virðist frekar ýta undir andlega vanheilsu og vanmátt jafnvel þótt ytri aðstæður séu á svo margan hátt góðar og sumpart framúrskarandi á heimsvísu. Hér hafa öll börn aðgang að skóla og heilbrigðisþjónustu, hér ríkir ekki stríðsástand eða há glæpatíðni og fáar þjóðir verða jafn gamlar og við Íslendingar sem segir auðvitað mjög margt og mikið um velmegun okkar. Samt sem áður eru börnin okkar mörg hver mjög kvíðin og eirðarlaus en líka svo hæfileikarík, gáfuð og falleg. Í raun má því segja að sem þjóð höfum við það svo gott að það er ólíðandi að við bregðumst ekki við þessum upplýsingum sem berast okkur reglulega um vanlíðan barnanna okkar, í smækkaðri mynd væri þetta svolítið eins og að halda hressilegt partý og þegar heyrist grátur úr barnaherberginu þá hækkum við tónlistina í stað þess að taka barnið upp úr rúminu og hugga það. Hér er ég að tala um samfélagsgerð og samfélagslega ábyrgð en ekki einstaklinga eða stofnanir.
Í þessu samhengi getum við ekki horft framhjá snjallsímanotkun og samfélagsmiðlum, ég held að við megum ekki vanmeta áhrif þess á sjálfsmynd unglingana okkar, þessi endalausa vöktun sem á sér stað á útliti einstaklinga og félagslegri frammistöðu, fyndni og frumleika. Sjálfsmynd okkar er jú mælieining sálarlífsins, grunnur kvíða og þunglyndis liggur í sjálfsmyndinni, styrk hennar og heilbrigði. Grunntilfinningar kvíðans eru skömm, sektarkennd og reiði sem vakna við það þegar sjálfsmyndin fer úr skorðum og þá megum við ekki rugla saman sjálfsmynd og sjálfstrausti því sjálfstraust getur auðvitað komið og farið eftir því hvernig aðstæður þróast en heilbrigð sjálfsmynd byggist upp á löngum tíma og laskast því einnig á löngum tíma. Þetta er eins og munurinn á hamingju og gleði, hamingjan byggist upp á löngum tíma á meðan gleðin er hverful.
Í dag á fermingarfræðslan að mínu mati að leggja aðal áherslu á það að vera uppbyggingarstarf heilbrigðrar sjálfsmyndar hjá unglingunum þar sem ungmennin fá tækifæri til að vera í umhverfi þar sem ekki ríkir keppnisandi eða samanburðarfjandi. Í fermingarfræðslunni gefst tækifæri til að setjast niður með unglingum þessa lands og innræta þeim sjálfsást, sjálfsvirðingu, samfélagsvitund og mannréttindi og til þess höfum við sögurnar hans Jesú eins og Miskunnsama Samverjann sem fjallar um mátt fordómaleysis og allt það sem við eigum sameiginlegt með fólki af öðrum þjóðum og trúarbrögðum. Eða sagan um Týnda soninn sem kennir okkur það að tengsl við annað fólk verða ekki keypt heldur ræktuð með djúpstæðum kærleika og alúð eða sagan um Sakkeus sem kennir okkur að þeir sem koma illa fram við aðra eru oft að glíma við sjálfshatur svo að besta leiðin til að breyta framgöngu þeirra er að veita þeim kærleiksríka athygli og nánd eins og Jesús gerði við Sakkeus tollheimtumann. Þessar sögur og margar fleiri notum við í kirkjunni til að undirbúa krakkana undir það mikilvægasta í lífinu sem eru mannleg samskipti og sjálfsþekking af því að sjálfsþekking er leiðin til farsældar og hamingju. Og svo kennum við þeim að biðja bænir vegna þess að bænalíf er ein besta leiðin sem við kunnum til að beina huganum að því sem máli skiptir í lífinu, bænin er sía á allt ruglið í kringum okkar, lífsgæðakapphlaupið, dýru innanstokksmunina og bílana sem eru ekki að fara að fylgja okkur í gröfina. Þegar við göngum inn í bæn leitar hugurinn ósjálfrátt til þess sem mestu máli skiptir í lífinu sem er heilsan okkar, fólkið okkar, landið okkar og heimurinn okkar. Þegar við förum inn í bænahug þá gerist það fyrir tilstuðlan heilags anda að við losnum undan því sem skiptir ekki máli en er samt oft að byrgja okkur sýn og ræna okkur hamingju eins og til dæmi samanburður á eigum og útliti. Fermingarfræðslan er eins konar andleg nestisstöð á lífsgöngu unglingsins þar sem hann bætir í bakpokann við það sem hann hefur þegar þegið frá foreldrum og öðrum áhrifavöldum.
Elsku fermingarbörn, þið eigið rétt á því að við fullorðna fólkið styrkjum sjálfsmynd ykkar og hjálpum ykkur við að takast á við óvissu og kvíða. Þið skuldið okkur fullorðna fólkinu nákvæmlega ekki neitt, það erum við sem eigum að hlúa að ykkur, með því að leiðbeina, uppörva og uppfræða, hvetja til dáða og hlusta. Við eigum hins vegar ekki að samþykkja allt sem þið segið eða ykkur dettur í hug því það væri sko ekki kærleiksríkt af okkar hálfu, við eigum að hjálpa ykkur að verða farsælar manneskjur. Og þegar ég segi „við“ þá meina ég heimilin, skólana, íþróttafélögin, kirkjuna og önnur lífsskoðunarfélög sem koma að uppeldi ykkar.
Þið eigið okkur að elsku börn.