Í fjölmenningarsamfélagi er eðlilegt að skírnarathöfnum fækki, samfélag okkar er litríkara en áður og ekkert nema gott um það að segja, tækifærum til heimóttarskapar fer sem betur fer fækkandi eftir því sem heimurinn opnast meir og minnkar um leið. Það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af afdrifum barna sem ekki eru skírð þau eru jafn elskuð og örugg og hin. Skírnin er gjöf frá Guði sem við höfum bara frjálst val um að þiggja.
Í okkar samfélagi tíðkast að ungbörn séu skírð að ósk foreldranna sem sömuleiðis ákveða hvað þau borða, hverju þau klæðast og hvenær þau fara í svefn. Í mínum huga er skírnin yfirlýsing um að barnið sé nóg í augum Guðs þar sem það hvílir við skírnarlaugina í faðmi ástvina sinna. Að hvítvoðungurinn sem engu hefur áorkað öðru en því að fæðast í heiminn sé eins merkilegur í augum Guðs og öldungurinn sem unnið hefur friðarverðlaun Nóbelst eða fundið lækningu við krabbameini. Í okkar veröld er það sannarlega ekki lítil gjöf því þegar barnið fullorðnast hellast yfir það margslungnar kröfur sem gera heiminn allt í einu svo kaldan. Kröfur um menntun, metnað í starfi, glæsileg híbýli, gljáandi bíl, kjörþyngd, skemmtilegheit, hnyttni, þrautsegju og dugnað en eins og við vitum þá geta ekki allir staðið undir þessum kröfum og þá er ekki síst mikilvægt að eiga gjöf skírnarinnar og vera minntur á það að þegar maður var lítið ósjálfbjarga barn var maður nóg í augum Guðs og þegar maður er nóg í augum Guðs, þá er maður nóg. Skírnin er í raun um þetta, hún er formleg ástarjátning frá Guði, þakkargjörðarhátíð fjölskyldunnar og staðfesting kirkjunnar á því að hún ætli að vera til staðar fyrir þennan tiltekna einstakling, hvað sem á dynur.